Íþróttaannáll 2024 (janúar, febrúar og mars)
Janúar:
Hörkuárangur á fyrsta sundmóti ársins
Árið 2024 byrjaði vel hjá sundfólki ÍRB sem atti kappi við marga af fremstu sundmönnum Dana ásamt sundmönnum frá Svíþjóð, Bretlandi og Nýja-Sjálandi á Lyngby Open í janúar.
Liðsmenn ÍRB höfnuðu á palli í tuttugu og eitt skipti en þau unnu fimm gull, tólf silfur og fjögur bronsverðlaun á mótinu. Hörkugóður árangur á fyrsta móti á ársins sem var jafnframt ágætis upphitun fyrir Reykjavíkurleikana sem fóru fram viku síðar.
Guðmundur Leo með fjögur gull á Reykjavíkurleikunum (RIG)
ÍRB átti keppendur í 33 úrslitasundum á Reykjavíkurleikunum í sundi og vann til sextán verðlauna í junior-flokki. Óhætt er að segja að sundfólk ÍRB hafi staðið sig vel á mótinu en ÍRB vann til fimm gullverðlauna, fjögurra silfurverðlauna og fjögurra bronsverðlauna.
Guðmundur Leo Rafnsson var í gríðarlegu stuði á mótinu þar sem hann vann til fjögurra gullverðlauna og einna bronsverðlauna. Í 200 metra baksundi bætti hann mótsmetið um tvær sekúndur og var aðeins 6/100 frá lágmarki á Evrópumeistaramót unglinga.
Eva Margrét Falsdóttir sigraði í 800 metra skriðsundi og Denas Kazulis náði sínu fyrsta landsliðslágmarki þegar hann tryggði sér þátttöku á Norðurlandamóti æskunnar (NÆM) í sumar.
Keflvíkingar unnu til sex verðlauna á Norðurlandamótinu í taekwondo
Norðurlandamótið í taekwondo var haldið í Laugardalshöll um helgina samhliða Reykjavíkurleikunum. Sex Keflvíkingar unnu til verðlauna í bardaga á mótinu sem var gríðarsterkt.
Andri Sævar Arnarsson vann -80 kg flokki karla, Ylfa Vár Jóhannsdóttir vann -68 kg flokk unglingskvenna, Amir Maron Ninir vann -73 kg flokk unglingskarla, Jón Ágúst Jónsson var í 2. sæti í -63 kg flokki unglingskarla, Anton Vyplel var í öðru sæti -53 kg flokki ungmenna og Julia Marta Bator var í öðru sæti -51 kg flokki ungmenna.
Ísland vann svo liðakeppnina á mótinu með flest stig allra landa sem kepptu á mótinu en öll Norðurlöndin kepptu á mótinu.
Febrúar:
„Ég ætla bara að einbeita mér að þessu tímabili,“
sagði Hulda Björk Ólafsdóttir, fyrirliði körfuknattleiksliðs Grindavíkur, en óhætt er að segja það ótrúlegt að liðið hafi ekki tekið neina dýfu eftir hamfarirnar.
Hulda var ánægð með hvernig liðinu tókst að halda sjó eftir þær miklu breytingar sem liðið varð að takast á við. „Þetta var mjög krefjandi til að byrja með. Við æfðum á nokkrum stöðum en undanfarnar vikur höfum við æft í Smáranum, þar sem við spilum okkar heimaleiki, og í Akurskóla í Innri-Njarðvík. Þakklæti er mér efst í huga og þökkum við öllum félögum sem hafa boðið okkur aðstoð sína og Smáranum sem greip okkur og setti okkur undir sinn verndarvæng,“ var meðal þess sem Hulda Björk sagði í viðtali við Víkurfréttir.
„Við vitum í raun ekkert hvað verður og verðum bara að taka einn dag fyrir í einu. Eins varðandi framtíð Grindavíkur í körfu, hvort við spilum áfram undir merkjum Grindavíkur eftir þetta tímabil eða ekki, þá leyfi ég sjálfri mér ekki að hugsa lengra og ég vil í raun bara einbeita mér að þessu tímabili og njóta þess að fá að spila fyrir Grindavík, bæinn minn og fólkið mitt. Við erum með gott lið og eigum góðan möguleika á að vinna titla í vetur.“
Ætla að halda Golfklúbbi Grindavíkur á lífi
Hávarður Gunnarsson, formaður Golfklúbbs Grindavíkur, og Helgi Dan Steinsson, framkvæmdastjóri GG, birtu eftirfarandi færslu á Facebook-síðu klúbbsins í sambandi við þá óvissu sem blasti við Golfklúbbi Grindavíkur eftir það sem á undan hafði gengið. Færslan fékk ágætis undirtektir og var ljóst að meðlimir GG ætluðu að halda tryggð við sinn golfklúbb.
Færsla Hávarðar og Helga er hér:
Ágætu félagsmenn.
Eflaust hafa einhverjir velt því fyrir sér hvað verður um golfklúbbinn okkar eftir þessar hörmungar sem þið íbúar Grindavíkur hafið gengið í gegnum á undanförnum vikum. Það er ekkert því til fyrirstöðu eins og staðan er núna að halda vellinum í rekstri. Hann er lítið skemmdur í raun og veru og við stefnum á að taka á móti gestum í sumar eins og áður. Rekstur klúbbsins hefur gengið ágætlega á undanförnum árum en til þess að svo geti verið áfram verðum við að hafa félagsmenn sem greiða félagsgjöld. Án ykkar er enginn Golfklúbbur Grindavíkur.
Nú er svo komið að enginn býr í Grindavík og því getur reynst erfitt að reka golfklúbb við þessar aðstæður. Stjórn GG fól framkvæmdastjóra að hefja viðræður við aðra golfklúbba um samstarf á komandi sumri og nú þegar hafa fjölmargir sýnt vilja til samstarfs við GG. Enn á eftir að útfæra það samstarf endanlega en í grófum dráttum snýst það um að félagsmenn GG geti leikið á öðrum golfvöllum fyrir sanngjarnt verð sumarið 2024. Frekari upplýsingar um það verða ljósar á aðalfundi sem áætlaður er í mars og þar verður einnig tekin ákvörðun um félagsgjöld GG fyrir golfsumarið sem framundan er.
Við verðum í sambandi síðar með aðalfundarboð en hlökkum til að sjá ykkur öll sem fyrst á Húsatóftavelli.
Áfram Grindavík
Áfram GG
Kveðja,
Helgi Dan og Hávarður
Fjórir frá Massa á EM öldunga í klassískum kraftlyftingum
Evrópumeistaramót öldunga í klassískum kraftlyftingum fór fram dagana 12.–18. febrúar í Malaga á Spáni. Þangað héldu ellefu kraftlyftingamenn og -konur til að keppa fyrir Íslands hönd. Af þessum stórgóða hópi átti Massi fjóra keppendur; Elsu Pálsdóttur, Hörð Birkisson, Sturlu Ólafsson og Benedikt Björnsson auk Kristleifs Andréssonar, yfirþjálfara.
Elsa Pálsdóttir varð Evrópumeistari í -76 kg flokki í Master 3 á EM öldunga en hún setti jafnframt glæsilegt heimsmet í hnébeygju og varð þriðja stigahæst allra keppenda í Master 3.
Sveindís Jane skoraði og lagði upp í sigri á Serbum
Keflvíkingurinn Sveindís Jane Jónsdóttir átti stóran þátt í því að tryggja Íslandi sæti á A-deild undankeppni EM 2025. Sveindís skoraði jöfnunarmark Íslands á 75. mínútu og átti stoðsendingu á Bryndísi Örnu Níelsdóttur sem skoraði sigurmarkið á 86. mínútu.
Ísland og Serbía gerðu 1-1 jafntefli í fyrri leik liðanna sem var leikinn í Serbíu en þar skoraði Alexandra Jóhannsdóttir eftir eitt af löngu innköstum Sveindísar, þannig að Sveindís átti þátt í öllum mörkum Íslands gegn Serbíu.
Um 1.200 krakkar kepptu á KFC-móti Njarðvíkur
KFC-mót Njarðvíkur var haldið í Reykjaneshöllinni í lok janúar og febrúar en mótið dreifðist á þrjár helgar enda mættu í kringum 1.200 iðkendur frá ýmsum félagsliðum á landinu.
Mótið og heppnaðist mjög vel en spilað var í 5., 6., 7. og 8. flokki karla og kvenna. Allir skemmtu sér vel og fóru glaðir heim en Njarðvíkingar hafa haldið þetta mót frá opnun Reykjaneshallar.
Einar hætti eftir 30 ár hjá Keflavík
Það var sannkallaður tímamótaaðalfundur hjá Keflavík, íþrótta- og ungmennafélagi, sem fagnaði 95 ára starfi á síðasta ári. Ungmennafélag Keflavíkur var stofnað árið 1929 en Keflavík er fertugt félag, það varð til með sameiningu UMFK og KFK (Knattspyrnufélags Keflavíkur) árið 1994. Einar Haraldsson, formaður og framkvæmdastjóri til þrjátíu ára, lét af störfum og embætti. Björg Hafsteinsdóttir, ein af körfuboltadætrum Keflavíkur, var kjörin formaður og nýr framkvæmdastjóri var einnig kynntur til leiks á aðalfundinum en við því starfi tekur Birgir Már Bragason.
„Þetta er orðið fínt en búið að vera sérlega skemmtilegt og ánægjulegt. Það skemmir heldur ekki að félagið stendur vel rekstrarlega séð og líka félagslega sem sýndi sig kannski á fjölmennum aðalfundi,“ sagði Einar Haraldsson eftir aðalfundinn í félagsheimili Keflavíkur.
Einar fékk margar viðurkenningar, m.a. frá Ungmennafélagi Íslands, bæjarstjórn Reykjanesbæjar, stjórn félagsins og hans helstu samstarfsaðilum innan Reykjanesbæjar. Einar þakkaði fyrir sig og var klökkur. „Mér er bara orða vant en afar þakklátur,“ sagði fráfarandi formaður og framkvæmdastjóri.
Mars:
Keflvíkingar lyftu deildarmeistarabikarnum í Blue-höllinni
Keflvíkingar fengu deildarmeistarabikarinn afhentan í byrjun mars og fögnuðu vel.
Keflavík tvöfaldur bikarmeistari í körfu – Suðurnesjaliðin fyrirferðamikil í bikarvikunni
Bikarvika Körfuknattleikssambands Íslands (KKÍ) hófst 19. mars en í bikarvikunni er bikarkeppnin útkljáð.
Undanúrslit karla voru leikin þriðjudaginn 19. mars og þar var Keflavík eini fulltrúi Suðurnesja. Keflvíkingar unnu öruggan sigur á Stjörnunni (113:94) og mættu Tindastóli í úrslitum en Stólarnir unnu Álftanes.
Hjá konunum léku öll Suðurnesjaliðin í undanúrslitum kvenna sem voru spiluð degi eftir körlunum. Þar mættust Keflavík og Njarðvík í fyrri leiknum en Grindavík og Þór frá Akureyri í þeim seinni. Keflavík vann sigur á grönnum sínum í Njarðvík (86:72) en Þórsarar unnu óvæntan sigur á Grindvíkingum (79:75) og mættu því Keflavík í úrslitum.
Keflavík vann að lokum báða úrslitaleikina, karlarnir lögðu Tindastól 79:92 og Þór átti lítið erindi í kvennalið Keflavíkur sem vann 89:67, og tvöfaldur bikarsigur Keflvíkinga því staðreynd.
Jaka Brodnik var valinn maður leiksins í úrslitaleik karla og í úrslitaleik kvenna var Daniela Wallen kjörin kona leiksins.
631 leikir spilaðir á stærsta körfuboltamóti ársins
Nettómótið var haldið í mars og heppnaðist vel. Alls voru spilaðir 631 leikir á mótinu í fimm íþróttahúsum en sumir kalla Nettómótið stærsta körfuboltamót tímabilsins – fjölskylduhátíð þar sem börnin eru látin ganga fyrir.
Golfklúbbur Suðurnesja 60 ára
Golfklúbbur Suðurnesja fagnaði sextíu ára afmæli á árinu en stofnfundur GS var haldinn í dómsal lögreglustöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli þann 4. mars 1964. Þar komu saman nokkrir áhugamenn um stofnun golfklúbbs en þeir höfðu þegar tryggt sér land undir golfvöll sem væri í landi Stóra-Hólms í Leiru í Gerðahreppi.
Fyrsti formaður GS var Ásgrímur Ragnarsson en á meðfylgjandi mynd má sjá hann og félaga hans í fyrstu stjórninni.
„Stórhuga draumar stofnenda ásamt vinnuframlagi allra sem hafa síðan í hendur lagt, annaðhvort sem stjórnarmeðlimir, félagsmenn, starfsmenn eða sjálfboðaliðar hafa byggt upp auðlindina sem er Hólmsvöllur. Það á að forgangsverkefni okkar allra að varðveita félagsandanum í klúbbnum því það er golfklúbbnum lífsnauðsynlegt að eiga félagsmenn.
Kæru félagsmenn, til hamingju með 60 ára stórafmælið. Við munum fagna þessum tímamótum síðar í sumar og auglýsa það sérstaklega þegar nær dregur,“ sagði í frétt á heimasíðu klúbbsins.
Safamýri heimavöllur Grindvíkinga síðasta sumar
Safamýrin í Reykjavík var heimavöllur knattspyrnuliða Grindvíkinga í fyrra eftir að ljóst var að Grindvíkingar myndu ekki leika heimaleiki sína í Grindavík.
Grindvíkingum stóð sjálfur Laugardalsvöllurinn til boða en flestum var ljóst að það væri líklega ekki vænsti kosturinn því erfitt yrði að búa til góða stemmningu í svo stóru mannvirki. Því fóru þreifingar af stað og á endanum voru það Víkingar sem komu Grindvíkingum til hjálpar og Safamýrin varð heimavöllurinn.