Sjálfstæðisflokkurinn
Sjálfstæðisflokkurinn

Íþróttir

Keflavík vann fyrsta leikinn eftir tvíframlengingu
Njarðvíkingum gekk illa að eiga við Thelmu Dís sem setti niður sex af átta þriggja stiga skotum sínum í kvöld. VF/JPK
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 16. maí 2024 kl. 22:53

Keflavík vann fyrsta leikinn eftir tvíframlengingu

Thelma Dís Ágústsdóttir var hetja Keflvíkinga þegar þeir lögðu granna sína úr Njarðvík í fyrsta úrslitaleik liðanna í Subway-deild kvenna í körfuknattleik. Lokatölur 94:91 en leikurinn var tvíframlengdur. Í lokin voru það heimakonur sem höfðu betur en þar munaði mest um framlag Thelmu sem fór á kostum, skoraði 29 stig og setti niður gríðarlega mikilvæg stig í lok venjulegs leiktíma og í seinni framlengingunni.

Hér kljást stigahæstu leikmenn beggja liða við undir körfunni. Thelma Dís var með 29 stig fyrir Keflavík en Selena Lott 39 stig fyrir Njarðvík.

Leikurinn var æsispennandi allan tímann en þó voru gestirnir oftar í forystu og náðu mest tíu stigum. Njarðvík leiddi 32-36 í hálfleik en heimakonur voru betri í þriðja leikhluta og þegar sá fjórði fór í gang munaði bara einu stigi. Allt var síðan í járnum fram í lokasekúndur en Njarðvík náði ekki að nýta lokasekúndur venjulegs leiktíma til að skora lokakörfuna. Staðan 71-71. Í fyrri framlengingu var Keflavík yfir allan tímann en Njarðvík náði með harðfylgi að jafna og vann síðan óvænt boltann þegar 20 sekúndur voru eftir en náði ekki að ógna körfu. Því var aftur framlengt. Staðan 78-78

Viðreisn
Viðreisn

Keflvíkingar voru mun sterkari í annarri framlengingunni. Þar munaði mikið um þrjár þrista frá Thelmu Dís þegar staðan var 82-80 og staðan breyttist í 91-83 og 2:31 sek. eftir. Þær njarðvísku klóruðu aðeins í bakkann í lokin en ekki nógu mikið og Keflavík fagnaði mögnuðum sigri 94-91.

Eins og fyrr segir var það framlag Thelmu Dísar sem tryggði Keflavík sigur því þær grænu virtust lengi ætla að klára dæmið en þær gerðu það ekki og Rúnar Ingi Erglingsson, þjálfari var mjög ósáttur í viðtali við Stöð 2 eftir leikinn.

Hjá Njarvík var Selena Lott gríðarlega öflug. Hún skoraði 39 stig og Keflvíkingar réðu ekkert við hana. Sú danska Hesseldal skoraði 15. Hjá Keflavík var Thelma Dís stigahæst með 29 stig en Sara Rún skilaði tuttugu stigum í hús en þær tvær voru gríðarlega öflugar og bestar hjá Keflavík. Daniela Wallen var með 19 stig.

Leikurinn var frábær skemmtun, mikið um mistök en líka frábæra takta í báðum liðum. Það er því von á meira fjöri í næstu leikjum en næsti leikur verður í Ljónagryfjuni á sunnudaginn.