Viðskipti

Tryggir að allir séu á sömu blaðsíðu
Sunnudagur 24. nóvember 2024 kl. 11:28

Tryggir að allir séu á sömu blaðsíðu

Sveindís er kona mánaðarins hjá FKA Suðurnes

Víkurfréttir í samstarfi við FKA Suðurnes, félag kvenna á Suðurnesjum í atvinnulífinu, kynna Suðurnesjakonur í félaginu. Markmið með kynningunum er að vekja athygli á FKA konum í atvinnulífinu á Suðurnesjum, fyrirtækjunum þeirra eða verkefnunum sem þær sinna. FKA Suðurnes er hluti af FKA á Íslandi, Félagi kvenna í atvinnulífinu.

Nafn: Sveindís Guðmundsdóttir
Aldur: 32 ára
Menntun: Viðskiptafræðingur úr HÍ

Ég er viðskiptastjóri hjá auglýsingastofunni Hvíta húsið og samhliða því hef ég tekið að mér að vera kosningastjóri fyrir Samfylkinguna í Suðurkjördæmi fyrir komandi Alþingiskosningar. Svo er ég varaformaður FKA Suðurnes.

Sem viðskiptastjóri hjá Hvíta húsinu sinni ég því skemmtilega og krefjandi verkefni að leiða frábært teymi hönnuða og texta- og hugmyndasmiða fyrir viðskiptavin okkar Icelandair, bæði á innlendum- og á erlendum mörkuðum. Ég held utan um samskiptin við marga ólíka aðila, hvort sem það eru viðskiptavinir, birgjar eða samstarfsaðilar, til að tryggja að allir séu á sömu blaðsíðu og upplýsingaflæðið sem og verkefnin séu unnin á sem skilvirkastan máta. Verkefnin mín snúast líka um að setja upp markmið og áætlanir – bæði í tíma og kostnaði – svo allt gangi upp eins og áætlað er. Og þegar áskoranir koma upp, sem gerist nú alltaf í skapandi vinnu, þá er ég viðbúin að leysa úr þeim og tryggja að verkefnin standist áætlaðar kröfur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Sveindís með nokkrum frambjóðendum Samfylkingarinnar.

Sem kosningastjóri fyrir Samfylkinguna í Suðurkjördæmi er ég í fjölmörgum hlutverkum. Ég skipulegg dagskrána fyrir efstu fimm frambjóðendurna okkar – Víði Reynisson, Ásu Berglindi Hjálmarsdóttur, Sverri Bergmann Magnússon, Örnu Ír Gunnarsdóttur og Ólaf Þór Ólafsson – og sé til þess að kynna þau fyrir sem flesta íbúa, fyrirtæki og stofnanir í kjördæminu, alveg frá Garðskaga til Hornafjarðar. Við höfum því verið á miklu flakki og verðum það áfram fram á kosningadag. Ég sinni samfélagsmiðlum, tek upp, klippi og birti efni, skrifa fréttatilkynningar og skipulegg viðburði víða um kjördæmið. Skemmtilegasti hluti starfsins er þó klárlega að fá að vera í kringum þessa frábæru frambjóðendur, ég hef trú á því að þau muni hafa mikil og jákvæð áhrif á samfélagið okkar.

Ég er ótrúlega þakklát að fá að vera í þessum störfum þar sem áhugamálin mín fá að blómstra, þ.e. markaðsfræðin, auglýsingabransinn, pólitík og skipulag. Er mjög mikil skipulagsmanneskja og elska að fá tækifæri til að skipuleggja. Svo elska ég ekkert meira en að eyða tíma með fjölskyldunni minni og svo hef ég ótrúlega gaman af pólitík, líkamsrækt, crossfit og öllu sem tengist góðri líkamlegri og andlegri heilsu.

Ég kem frá brotnum bakgrunni, sem hefur heldur betur gefið mér styrkinn og kraftinn í að verða sú manneskja sem ég er í dag. Ég lærði það ung að það er enginn að fara gera neitt fyrir mig nema ég sjálf og þannig hef ég svolítið lifað, ef mig langar í eitthvað þá berst ég eins og ljón fyrir því.

Ég missti tvær bestu vinkonur mínar í bílsslysi þegar ég var unglingur og við tók tímabil í lífi mínu þar sem ég upplifði rosalega mikla sorg og vanlíðan og missti þar af leiðandi smá stjórn á lífinu mínu. Ég þyngdist allverulega og upplifði þunglyndi í langan tíma. Einn daginn fékk ég nóg, snéri hugarfarinu mínu við og ákvað að taka stjórn á lífinu mínu aftur. Þá fór lífið að vera gott aftur, ég upplifði hamingju og tók stjórn á líkamlegri og andlegu heilsunni minni. Í kjölfarið komst ég í kjörþyngd og ákvað að kannski gæti ég miðlað reynslunni minni til annarra kvenna og skráði mig í einkaþjálfarann. Starfaði sem einkaþjálfari í þrjú ár og aðstoðaði hundruð kvenna, bæði á Suðurnesjum og úti á landi, að taka stjórn á sinni líkamlegri og andlegri heilsu. Ég á það til að sökkva mér djúpt í verkefni mín og eftir þrjú ár í því starfi brann ég næstum því út, ákvað að setja það aðeins á hilluna og skráði mig í Viðskiptafræðinám í Háskóla Íslands. Að námi loknu hóf ég störf hjá Hvíta húsinu og hef verið þar síðastliðin tvö ár.

Ég hef búið alla mína ævi á Suðurnesjum. Hér er mikil samheldni og ég upplifi það sérstaklega með tilkomu FKA Suðurnes, í félaginu okkar eru konur sem lyfta öðrum konum upp og maður finnur alveg svakalega vel fyrir því hvað allar eru tilbúnar að aðstoða ef eitthvað bjátar á.

Ég elska FKA Suðurnes, frá mínum dýpstu hjartarótum. Hér eru konur með viðamikla reynslu alls staðar úr atvinnulífinu og eru svo tilbúnar til að deila sinni reynslu áfram. Ég vil vekja athygli á því að þú þarft ekki að vera atvinnurekandi til að vera í félaginu eins og svo margir halda. Þú þarft ekki að vera í starfi til að koma í hópinn okkar, við erum samfélag af konum sem viljum styrkja aðrar konur, lyfta þeim upp og finna tækifærin sem eru svo sannarlega nóg af í okkar samfélagi.

Ástæðan fyrir minni þátttöku hjá FKA er að ég vildi fá að vera partur af þessum magnaði hópi kvenna, læra af þeim og miðla minni reynslu til annarra. Það hefur svo oft sýnt sig að konur eru konum bestar og það hefur svo sannarlega verið mín upplifun síðan ég skráði mig í félagið. Ég hef fengið að tengjast konum með ólíkar reynslur og þekkingu og þær hafa aðstoðað mig við að finna sjálfstraust og sjálfsöryggi í sjálfri mér sem mér finnst alveg ómetanleg upplifun.

Ég mæli með þessum félagsskap og hvet konur sem eru enn ekki búnar að skrá sig að mæta á opnu viðburðina, heyra í konum sem eru í félaginu og sjá hvað þeim finnst og ef þeim líst  vel á þá að skrá sig. Það er ótrúlega gaman að tengjast þessum mögnuðu konum sem eru í FKA Suðurnes.