SSS
SSS

Íþróttir

Njarðvík vann fyrstu orrustuna í „el classico“
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 19. apríl 2025 kl. 19:08

Njarðvík vann fyrstu orrustuna í „el classico“

Undanúrslit Bónusdeildar kvenna hófust í dag og má segja að byrjað hafi verið á flugeldasýningu með „el classico“ milli Njarðvíkur og Keflavíkur. Njarðvík leiddi mestan hluta leiksins, í hálfleik með átta stigum, 40-32 og unnu svo nokkuð öruggan sigur, 95-80.

Leikurinn var í járnum allan fyrri hálfleikinn má segja, Njarðvík byrjaði eilítið betur og leiddi með fimm stigum að loknum fyrsta leikhluta, 20-15. Þessi munur hélst fyrstu mínúturnar í öðrum leikhluta en Keflavík komst svo yfir eftir fjórar mínútur í leikhlutanum og komust mest fjórum stigum yfir, 24-28. Njarðvíkurkonur vöknuðu þá til lífsins og var það sem eftir lifði fyrri hálfleik eign þeirra og þær leiddu með átta stigum, 40-32.

Keflvíkingar komu sterkari út úr hléinu og minnkuðu muninn hægt og örugglega. Þær komust svo yfir með þristi Söru Rúnar Hinriksdóttur þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir af þriðja leikhlutanum en þá komu níu stig í röð frá Njarðvík áður en Sara Rún skoraði síðustu körfuna, staðan 66-62 fyrir lokaleikhlutann.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Njarðvík kom sterkari inn í fjórða leikhlutann og áður en varði var munurinn kominn upp í ellefu stig, 73-62. Jasmine Dickey svaraði þá með þristi og vakti smá von hjá keflvískum. Njarðvík átti samt alltaf svar og hleyptu Keflavík aldrei á almennilega ferð, þær minnkuðu muninn minnst í fimm stig en tiltölulega öruggur Njarðvíkursigur staðreynd, 95-80.

Þegar tölfræðin úr leiknum er skoðuð vekur frákastabaráttan einna mesta athygli, hún fór fyrir Njarðvík. Turnarnir hjá Njarðvík, þær Emilie Hasseldal (20 fráköst) og Paulina Hersler (7 fráköst) gnæfa yfir alla leikmenn Keflavíkur en auk þess er Brittany Dinkins mjög öflugur frákastari og endaði með 17 stykki og skoraði auk þess 25 stig og gaf 9 stoðsendingar. Fyrir utan fráköstin skoruðu Emilie 16 stig og Paulina 30. Þær stöllur vörðu líka og breyttu fjölmörgum skotum Keflvíkinga.

Hjá Keflavík var Jasmine Dickey í sérflokki og endaði með stig 41 stig og tók 14 fráköst. Sara Rún Hinriks sú eina sem komst yfir tíu stiga múrinn, endaði með 15 stig og 6 fráköst. Ljóst að Keflavík þarf að fá framlag frá fleiri leikmönnum.

Næsti leikur liðanna er í íþróttahúsinu við Sunnubraut í Keflavík á miðvikudagskvöld og hefst kl. 18.

Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkur: Sara Björk Logadóttir, Njarðvík: Sigurður Ingimundarson, þjálfari Keflavíkur: Sara Rún Hinriksdóttir, Keflavík: