HS Orka
HS Orka

Íþróttir

Nýr forystusauður í tippleiknum
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 30. nóvember 2024 kl. 07:53

Nýr forystusauður í tippleiknum

Það kom að því að Þórunn Katla þyrfti að lúta í lægra haldi, Birgir Már Bragason kom verulega sterkur til leiks og náði níu réttum á móti sjö hjá Þórunni en hún getur unað vel við sitt, hún er komin á toppinn í heildarleiknum með alls 24 leiki rétta. Birgir Már heldur því áfram og mætir Grindvíkingnum og Leedsaranum Helga Bogasyni.

Helgi hefur lengi verið starfsmaður Landsbanka Íslands, fyrst í Grindavík en undanfarin u.þ.b. tíu ár á fyrirtækjasviði útibús Landsbankans í Reykjanesbæ, eftir stutta viðkomu í Sparisjóðnum rétt áður en fjármálahraunið 2009 þurrkaði Sparisjóðinn út. Þar sem Landsbankinn er í sömu byggingu og Víkurfréttir var gráupplagt að taka lyftuna af fjórðu hæðinni niður á þá fyrstu og taka kaffibolla með gamla þjálfaranum sínum. Helgi lék lengi knattspyrnu með Grindavík, byrjaði ungur að þjálfa ungviðið, var svo aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla, bæði hjá Guðmundi Torfasyni og Milan Stefáni Jankovic. Svo tók Helgi við meistaraflokki Njarðvíkur og kom þeim upp í næstefstu deild á nokkrum árum. Hann þjálfaði líka kvennalið Grindavíkur og kom þeim í úrslitaleik um að komast upp í efstu deild, en liðið þurfti að lúta í lægra haldi fyrir Fylki.

„Ég held að þjálfaraferlinum sé lokið en þó veit maður aldrei. Ég bjó í Grindavík fyrir rýmingu en við hjónin erum búin að koma okkur fyrir í Reykjavík, þar eru börnin okkar þrjú og þrjú barnabörn svo það heldur meira í mig en að flytja hingað til Reykjanesbæjar þar sem vinnan er. Það er ekkert mál að keyra upplýsta Reykjanesbautina til og frá vinnu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Annars er ég gallharður Leeds-ari, tók ákvörðun um fimm ára aldurinn, vildi ekki elta vinina sem héldu með Manchester United, Liverpool og Arsenal. Ákvað að velja hvíta litinn en á þeim tíma var annað hvort hvítur eða svartur litur í boði í sjónvarpinu. Mér hefur gengið vel að breiða út fagnaðarerindi Leeds, við erum nokkrir vinirnir sem styðjum „Súper“ eins og við köllum þá og eins hef ég náð að kristna nokkur skyldmenni. Synirnir tveir eru gallharðir en Sara dóttir mín hefur alltaf verið full sjálfstæð, ég missti hana yfir í Liverpool. Leeds er efst í þessum töluðu orðum, ég geri ráð fyrir að liðið fari beint upp og gef okkur önnur þrjú ár til að fara berjast um titla,“ sagði borubrattur Helgi Bogason að lokum.

Birgir Már var hógvær að vanda.

„Ég vil auðvitað þakka Þórunni Kötlu fyrir leikinn, hún er greinilega búin að standa sig vel enda komin á toppinn en að þessu sinni var um ofurefli fyrir hana að etja. Ég er gífurlegur keppnismaður í mér og með vænan skerf af Keflavíkurhroka, sem hefur fleytt mér langt í gegnum tíðina. Fyrst ég er á annað borð mættur til leiks í tippleik Víkurfrétta, ætla ég að feta í fótspor kollega míns hjá Njarðvík, Hámundar Helgasonar. Hann sagði mér að það hefði verið afskaplega gaman að skella sér til London og á Wembley, ég ætla að halda mér á stallinum nægjanlega lengi til að tryggja mig í lokaúrslitin og eftir það verður þetta eins og göngutúr í garðinum að landa sigrinum,“ sagði hinn hógværi Birgir Már.