HS Orka
HS Orka

Íþróttir

Óvissa hjá kvennaliði Grindavíkur
Þriðjudagur 31. janúar 2017 kl. 13:42

Óvissa hjá kvennaliði Grindavíkur

Töluverð óvissa ríkir nú hjá kvennaliði Grindavíkur í Dominos deildinni hvað þjálfara og kanamál varðar og er óvíst hvort nýr bandarískur leikmaður liðsins, Angela Rodriguez, verði með í leik liðsins gegn Val annað kvöld.

„Við erum að bíða eftir að fá þýskt sakavottorð sem þarf að fylgja atvinnuleyfisumsókn Rodriguez, en hún spilaði í þýsku deildinni tímabilið 2015-2016,“ segir Lórenz Óli Ólason, formaður körfuknattleiksdeildar Grindavíkur. Rodriguez, sem er 26 ára bakvörður, kom til landsins fyrir nokkrum vikum en hefur ekki enn getað spilað með liðinu. Hún hefur spilað sem atvinnumaður í Evrópu undanfarin ár og með landsliði Mexíkó, en hún hefur tvöfalt ríkisfang.

Þjálfari liðsins, Bjarni Magnússon hefur ekki verið með liðinu undanfarið vegna veikinda og er óvíst með framhald hans að sögn Lórenz. Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari karlaliðs Grindavíkur hefur fyllt í skarð Bjarna í hans fjarveru. Þá er einn lykilleikmanna liðsins, Ingibjörg Jakobsdóttir, frá vegna meiðsla og ekki farin að æfa aftur með liðinu.