Íþróttir

Remy Martin hetja Keflvíkinga
Remy Martin sýndi frábæran leik þar sem hann skoraði 42 stig. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
þriðjudaginn 24. október 2023 kl. 08:16

Remy Martin hetja Keflvíkinga

Remy Martin sló á þær gagnrýnisraddir sem hafa sett út á frammistöðu hans í upphafi tímabils. Martin var hreint stórkostlegur með 42 stig í naumum sigri á Njarðvík eftir framlengdan leik. Njarðvíkingar mega vera súrir en þeir virtust vera að hafa sigur í venjulegum leiktíma.

Njarðvík - Keflavík 108:109

Áhorfendur fengu svo sannarlega skemmtun af bestu sort þegar Keflavík heimsótti Njarðvík í Ljónagryfjuna í 32 liða úrslitum VÍS-bikars karla í körfuknattleik. Leikurinn var hörkuspennandi frá fyrstu mínútu fram á síðustu sekúndu.

Áhorfendur lifðu sig svo sannarlega inn í leikinn enda allt lagt undir í bæjarslag stórveldanna Njarðvíkur og Keflavíkur.

Fyrsti leikhluti var jafn framan af en Keflvíkingar náðu fimm stiga forskoti í lok hans (22:27), munaði þar miklu um þrettán stig frá Martin.

Áfram hélt slagurinn og snemma í öðrum leikhluta juku gestirnir foystuna í tíu stig (22:32) en þá sóttu Njarðvíkingar í sig veðrið og hófu að saxa á forskotið. Staðan breyttist fljótlega og Domynikas Milka minnkaði muninn í eitt stig um miðjan leikhlutann (35:36).

Njarðvíkingar komust yfir áður en annar leikhluti var allur og settu niður körfu rétt áður en liðin gengu til klefa sinna. Þá lögðust dómarar yfir myndskeið af síðustu andartökum hálfleiksins og eftir langa og stranga yfirlegu dæmdu þeir körfuna ógilda og í stað þriggja stiga forskots fóru Njarðvíkingar með eitt stig í farteskinu inn í hálfleikinn (53:52).

Dómararnir gáfu sér góðan tíma til að endurmeta hvort karfan skildi góð og gild eður ei. Bæði lið voru löngu komin til klefa sinna þegar þeir úrskurðuðu að karfan teldi ekki.

Heimamenn juku forystuna í níu stig um miðjan þriðja leikhluta (72:63) en Keflavík var ekki á þeim buxunum að missa þá of langt fram úr sér og héldu áfram að narta í hælana á Njarðvíkingum.

Þegar fjórði leikhluti fór í gang höfðu heimamenn fjögurra stiga forystu (77:73) og þeir voru skrefinu á undan Keflvíkingum allt þar til tæpar þrjár mínútur voru til leiksloka þegar Remy Martin jafnaði í 89:89. Spennustigið í troðfullri Ljónagryfjunni var orðið býsna hátt þegar þarna var komið við sögu og áhorfendur lifðu sig svo sannarlega inn í leikinn.

Þegar hálf mínúta var eftir virtist Luke Moyer fara langt með að tryggja Njarðvíkingum sigurinn þegar hann setti niður mikilvæga körfu sem kom heimamönnum í þriggja stiga forystu og lítið eftir (94:91).

Luke Moyer sækir að körfunni, Marek Dolezaj er til varnar.

Urban Oman reyndi við þriggja stiga skot en það geigaði og Njarðvíkingar náðu boltanum. Það var svo títt nefndur Remy Martin sem stal boltanum af Njarðvíkingum þegar tólf sekúndur voru til stefnu og Igor Maric jafnaði leikinn með þristi (94:94) og tryggði Keflavík framlengingu.

Í framlengingunni var jafnt á flestum tölum en þegar sex sekúndur voru eftir jafnaði Chaz Williams leikinn og fékk jafnframt vítakast sem hann setti niður (108:107). Aftur leit út fyrir að Njarðvíkingar væru að landa sigrinum en Keflvíkingar settu ekki árar í bát og nýttu síðustu andartökin til hins ítrasta.

Keflavík brunaði í sóknina og Marek Dolezaj batt enda á magnaðan leik þegar hann tróð með tilþrifum og tryggði Keflavík áfram í sextán liða úrslit (108:109).

Ótrúlegur leikur og ömurlegt að annað liðið skuli þurfa detta svona snemma úr keppni en bæði léku frábærlega og að lokum varð annað liðið að tapa.

Sigurkarfan ...
... og Keflvíkingar ærðust í lokin.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, íþróttafréttaritari Víkurfrétta, var í Ljónagryfjunni þar sem hann ræddi við þá Pétur Ingvarsson, Halldór Garðar Hermannsson og Benedikt Guðmundsson eftir leik. Viðtölin eru í spilurunum hér að neðan og myndasafn neðst á síðunni.

Njarðvík - Keflavík (108:109) | VÍS-bikarkeppni karla 23. október 2023