Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Reynismenn leggja niður meistaraflokk í körfu
Reynismenn urðu deildarmeistarar annarrar deildar á síðasta tímabili, Sveinn er annar frá hægri í efri röð.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 5. september 2021 kl. 12:28

Reynismenn leggja niður meistaraflokk í körfu

Sú dapurlega staða er komin upp hjá körfuknattleiksdeild Reynis í Sandgerði að allt útlit er fyrir að meistaraflokkur verði lagður niður og taki ekki þátt í Íslandsmótinu í ár.

Sveinn Hans Gíslason, sem hefur nánast staðið einsamall að baki starfs körfunnar í Sandgerði undanfarin 34 ár, segir að nú sé hann kominn á endastöð og allt útlit bendi til að hann geti ekki mannað þær stöður sem þarf að manna á heimaleikjum.

Í samtali við Víkurfréttir sagði Sveinn að staðan væri einföld: „Ég næ ekki að manna það sem þarf að gera á heimaleikjum. Þar með hefur allt sem snýr að fjármögnun setið á hakanum.
Þar sem að stutt er í fyrsta leik og þetta staðan þá ákvað ég að eftir að hafa séð um allan pakkann í tæp 34 ár að núna væri kominn tími á að stoppa að gera þetta einn.
Því miður hefur enginn boðið sig fram til að aðstoða við vinnu á leikjum og fjáröflun. Það má líka minnast á það að deildin er skuldlaus.
Þess vegna stefnir í að meistaraflokkur verði lagður niður – en ég mun samt halda áfram með níunda flokk og skoða hvort hægt verði að vera með flokk fyrir tólf ára og yngri,“ sagði Sveinn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Deildarmeistarar Reynis

Reynismenn urðu deildarmeistarar í annarri deild karla á síðasta ári og ættu því að leika í fyrstu deild í vetur. Það yrði því afar sorglegt fyrir körfuknattleik í Sandgerði ef flokkurinn verður lagður niður og maður spyr sig: „Er virkilega enginn áhugi í Suðurnesjabæ á að halda úti körfuknattleiksliði í sveitarfélaginu?“