Risastórt Landsbankamót og góður árangur sundmanna ÍRB með unglingalandsliðinu
Afar fjölmennt sundmót fór fram í Vatnaveröld um síðustu helgi þegar um 450 keppendur frá ellefu félögum og annað eins af foreldrum mættu á Landsbankamótið.
Á föstudeginum kepptu átta ára og yngri og í lok móts fóru þau í hinn víðfræga sjóræningjaleik. Á laugardeginum og sunnudeginum kepptu yngri aldurshópar í 25 metra laug fyrir hádegi báða daga og eftir hádegi kepptu eldri sundmenn í 50 metra laug báða dagana. Þröngt var á þingi alla helgina en mótið gekk í alla staði mjög vel.
Fjöldi sundmanna frá ÍRB kepptu í Taastrup
Þrátt fyrir að ÍRB væri að halda sitt árlega Landsbankamót þá var stór hópur frá þeim, eða alls níu sundmenn, að keppa með unglingalandsliði Íslands í Taastrup í Danmörku. Með þeim í för var einnig einn af þjálfurum ÍRB, Jóna Helena Bjarnadóttir.
Það var frábær 25 manna hópur úr unglinga- og framtíðarhópi SSÍ sem hélt til Taastrup í Danmörku síðastliðinn fimmtudag.
Íslenska liðið stóð sig gríðarlega vel og endaði sem stigahæsta lið mótsins.
Þeir sundmenn ÍRB sem unnu til verðlauna fyrir Íslands hönd:
Ástrós Lovísa Hauksdóttir: Bronsverðlaun í 100 m baksundi.
Daði Rafn Falsson: Bronsverðlaun í 400 m fjórsundi
Denas Kazulis: Bronsverðlaun í 400 m skriðsundi og gull í 50 m skriðsundi.
Elísabet Arnoddsdóttir: Gullverðlaun í 100 m flugsundi, silfur í 50 m flugsundi og silfur í 100 m baksundi.
Freydís Lilja Bergþórsdóttir: Bronsverðlaun í 400 m fjórsundi.
Nikolai Leo Jónsson: Silfur í 50 m bringusundi og brons í 100 m bringusundi.