Styttist í endurkomu MG10
- Magnús Gunnarsson um meiðslin hjá honum og Pálínu
Nú styttist óðum í að Keflvíkingar sjái stórskyttuna Magnús Gunnarsson aftur á fjölum TM-Hallarinnar en kappinn er óðum að ná sér af meiðslum sem hafa hrjáð hann frá því um miðjan október. Magnús hyggur á endurkomu í leiknum sem allir bíða eftir, gegn erkifjendunum í Njarðvík í lok mánaðar.
Magnús varð fyrir því óhappi að handarbrotna og hefur hann fylgst með góðu gengi Keflvíkinga af bekknum. Þrátt fyrir að Keflvíkingar hafi aðeins tapað einum leik í deildinni til þessa þá sér Magnús alltaf pláss fyrir bætingu. „Þetta hefur gengið fínt bara. Við töpuðum stórum leik gegn Grindavík í bikarnum og svo á móti KR í deildinni. Ég mun svo væntanlega koma með aukna breidd inn í liðið. Ég þarf ekki að skora mikið, heldur bara opna fyrir hina og hitta úr fríu skotunum, ef ég fæ þau,“ segir Magnús en hann vonast til þess að endurkoma hans hjálpi þeim að komast á toppinn. „Við viljum vera númer eitt og erum enn á þeirri braut,“ segir fyrirliðinn.
Njarðvíkingar koma í heimsókn í TM-Höllina þann 27. janúar og Magnús stefnir á að ná þeim leik. Hann hefur haldið sér við í meiðslunum með því að gera þolæfingar og skokka á hlaupabretti en þrátt fyrir það er hann ekki í leikformi. „Ég er í sæmilegu standi. Það er auðvitað allt öðruvísi að hlaupa á bretti en á vellinum. Ég hef þyngdst um 1.4 kíló síðan ég meiddist, það tel ég bara vera lítið miðað við mig og þá staðreynd að hafa verið frá í þrjá mánuði.“
Nú um helgina fær Magnús loksins að handleika bolta en hann fór í aðgerð fyrir skömmu þar sem pinnar voru fjarlægðir úr hönd hans. Hann hefur litlar sem engar áhyggjur af því að miðið verði í lagi þegar hann snýr aftur. „Það er ekki eitthvað sem ég hef áhyggjur af, enda frábær skytta. Það er aðallega spilaformið, það gæti tekið nokkra leiki,“ en Magnús útilokar ekki að spila með liði Keflavík-B í bikarnum gegn ÍR, en sá leikur fer fram á milli 18.-20. janúar.
Styðja hvort annað í erfiðum meiðslum - búið að vera ömurlegt
Fyrir íþróttamenn getur það tekið vel á andlegu hliðina að vera lengi frá vegna meiðsla. Magnús stendur ekki einn í meiðslum sínum en kærastan, Grindvíkingurinn Pálína María Gunnlaugsdóttir, hefur einnig verið að glíma við meiðsli á hné í nokkurn tíma. „Þetta er búið að vera ömurlegt. Hún er á fullu í endurhæfingu og við verðum bara að bíða og sjá hvort hún spili meira á þessu tímabili.“ Magnús segir að það sé nokkuð skrýtið að þau sé bæði meidd núna á sama tíma. „Hún var og er enn mjög dugleg að styðja mig og hjálpa mér andlega. Ef ég hefði hana ekki þá veit ég ekki hvernig þetta væri. Núna undanfarið hefur það svo verið mitt hlutverk að hjálpa henni. Hún hefur stutt mig svakalega mikið og vonandi næ ég að gera það sama fyrir hana.“