„Gerðu það sem þú vilt“ á 25 ára afmæli Heiðarskóla
Heiðarskóli fagnar 25 ára afmæli á þessu ári og því var ákveðið að uppsetning leiklistarvalsins á árshátíð skólans yrði tengd afmælinu.
Bryndís Jóna Magnúsdóttir, skólastjóri, samdi handritið fyrir hópinn sem fjallar í stórum dráttum um unglinga sem langar að taka þátt í skólaleikriti en óttast að einhverjum þyki það hallærislegt. Lögin eru tekin úr leikritum sem hafa áður verið sett á svið Heiðarskóla og eru tengd inn í verkið.
Hópurinn hefur æft undir stjórn leikstýranna Estherar Ingu Níelsdóttur, Daníellu Hólm Gísladóttur og Guðnýjar Kristjánsdóttur en þær stöllur hafa sett upp fjölmargar sýningar með nemendum undanfarin ár.
Þátttakendur í sýningunni eru allir nemendur leiklistarvals úr 8.-10.bekk. Hópurinn er fjölmennur í ár, einhverjir eru að stíga sín fyrstu skref á sviði en aðrir hafa tekið þátt áður. Það er alltaf líf og fjör í þessari valgrein og framundan er skemmtilegur en stressandi tími þar sem árangur erfiðis undanfarinna vikna er sýndur nemendum og starfsfólki Heiðarskóla, foreldrum og öllum þeim sem hafa áhuga á að koma á sýninguna.
Að venju verða sýningar fyrir almenning að lokinni árshátíð skólans og verða þær þriðjudaginn 19. mars og miðvikudaginn 20. mars. Miðaverð er 1.000 krónur. Ekki er posi á staðnum.