Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

„Mér finnst ég ein af þessum heppnu“
óhanna Þórarinsdóttir, 65 ára, fékk heilablóðfall í Köben
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
föstudaginn 7. júní 2019 kl. 06:00

„Mér finnst ég ein af þessum heppnu“

„Ég veiktist árið 2005, þegar ég var 51 árs. Þá var ég stödd í Kaupmannahöfn í heimsókn hjá dóttur minni, Björgu Áskelsdóttur, en hún var þar í háskólanámi. Ég var í sturtu þegar mér fannst ég vera að fá sjóriðu. Þegar ég var búin í sturtu sagði ég við dóttur mína að mér finnist ég vera með sjóriðu. Hún sagði strax: „Mamma þú er þvoglumælt,“ en ég fann ekki fyrir því,“ segir Jóhanna Þórarinsdóttir, myndlistarkona í Keflavík en hún fékk heilablóðfall þegar hún var 51 árs. Hún ræddi atvikið og framhaldið við Víkurfréttir sem leituðu til þriggja aðila hér á Suðurnesjum sem fengu heilablóðfall eða blóðtappa við heila.

Jóhanna segir að það hafi bjargað henni hversu fljótt dóttir hennar brást við en hún hringdi strax á sjúkrabíl. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þá hringdi hún strax á sjúkrabíl og voru sjúkraflutningamennirnir mjög snöggir að koma til okkar. Þeir stungu í fingur minn til að athuga hvort ég væri í eiturlyfjavímu en svo var auðvitað ekki. Þá fóru þeir með mig á sjúkrahús sem sérhæfir sig meðal annars í heilablóðfallstilfellum,“ segir Jóhanna þegar hún rifjar upp þennan örlagaríka dag.

Dóttirin vék ekki frá móður sinni
Jóhanna segir að fyrstu viðbrögð hafi verið mikilvæg og hún sé mjög heppin því hún fékk svo mikla hjálp í byrjun í Köben.

„Ég fékk blóðþynningu um leið og ég kom á þetta sjúkrahús. Mér leið mjög illa og kastaði upp alla nóttina en dóttir mín vék ekki frá mér. Hún stóð sig eins og hetja og neitaði að fara frá mér þessi elska og á ég henni mikið að þakka fyrir hennar skjótu viðbrögð sem skiptu sköpum fyrir framhaldið. Ég var tekin í allsherjarrannsóknir og niðurstaðan var sú að ég hefði fengið svokallað Wallenberg-heilablóðfall sem lýsir sér þannig að ég var með doða á ýmsum stöðum í líkamanum. Það var endalaust verið að stinga mig með nálum til að kanna hvar ég fyndi til. Ég var svo einu sinni sett upp á svið til að sýna læknanemum hvernig Wallenberg  lýsir sér. Mér skildist að það væri ekki oft sem nemar kæmust í kynni við það,“ segir Jóhanna.

Skipað að ganga af læknum og hjúkrunarfólki
Starfsfólkið á danska sjúkrahúsinu vildu að Jóhanna færi sem fyrst á fætur og byrjaði að þjálfa sig upp sem allra fyrst.

„Hjúkrunarfólk setti mig fljótlega í göngugrind og skipaði mér að ganga. Ég byrjaði á því að draga hægri fótinn áfram þar sem hann var lamaður og hægri höndin rétt gat haldið við göngugrindina. Það voru ótrúlegar framfærir á hverjum degi. Þeir voru mjög strangir við mig varðandi hreyfingu. Helst vildi ég bara fá að liggja því mér leið svo illa. Ég hélt til dæmis að ég hefði tapað sjón því mér fannst svo vont að horfa fram en þegar ég lét mæla sjónina seinna þá var hún nákvæmlega eins og hafði ekkert breyst. Eftir sjö daga kom þarna læknir og skoðaði mig og sagði að það væri ekkert að mér. Lét mig standa upp úr rúminu en þar sem ég hafði ekkert jafnvægi og var með svima datt ég kylliflöt á gólfið. Hann skipti um skoðun eftir það. Eins og ég sagði voru ótrúlegar framfarir á mér á hverjum degi. Fólkið þarna vissi nákvæmlega hvað það var að gera og var ég því álitin ferðafær á áttunda degi,“ segir Jóhanna.

Heim til Íslands í hjólastól
Eftir viku á dönsku sjúkrahúsi var Jóhanna send heim til Íslands með flugi og þurfti að fara í einangrun fyrstu dagana.

„Ég kom heim í hjólastól og var strax send með sjúkrabíl á Borgarspítalann í einangrun, sem mér skilst að sé gert vegna þess að ég var á sjúkrahúsi erlendis. Þar var ég í viku og mátti aðeins eiginmaðurinn heimsækja mig. Ég var síðan flutt á sjúkrahúsið í Keflavík í endurhæfingu í mánuð. Þarna var yndislegt að vera og gott fólk en ég held að þessi endurhæfingaraðstaða sé ekki til lengur og er það miður. Nú þurfa allir að fara á Grensás. Ég fékk hjálp sjúkraþjálfara til að styrkja mig alla á daginn og fékk að fara heim á kvöldin. Ég hélt áfram á blóðþynningu um nokkurt skeið en er laus við það í dag. Ég er ofboðslega heppin því ég fékk svo mikla hjálp í byrjun.“

Hvers vegna ég?
Læknarnir úti voru mjög hissa að Jóhanna hafi fengið heilablóðfall því hún virtist ekki vera í áhættuhópi.

„Ég var spurð spjörunum úr af læknum sem spurðu af hverju ég héldi að ég hefði fengið þetta áfall en ég gat ekki svarað því. Ég hef sjálf spurt mig þessarar spurningar og komist að því að sennilega var þetta spenna og streyta. Ég hef alltaf verið mjög uppspennt, stressuð og kannski ekki nógu góð við sjálfa mig. Ég ímynda mér að ég hafi upplifað öryggisleysi strax sem ungabarn. Foreldrar mínir voru búnir að eignast fjögur börn á stuttum tíma. Þegar ég fæddist voru rúmir ellefu mánuðir liðnir frá síðasta barni og þegar ég var rúmlega eins árs fæddist drengur en hann var alltaf veikur og lést tæplega sex mánaða. Ég lenti þarna í miklum harmi foreldra minna og get rétt ímyndað mér hvernig það hefur verið að þurfa að hugsa um öll börnin í allri þessari sorg. Þetta var aldrei rætt. Mamma fór einnig með pabba í mánaðarreisu um Evrópu þegar ég var tveggja mánaða. Pabbi var ljósmyndari í ferð með Karlakór Reykjavíkur. Við systkinin vorum sem sagt í umsjón ömmu okkar í heilan mánuð og ég var aðeins tveggja mánaða þegar hún fór. Elsku mamma sagði einu sinni við mig:„Hvernig gat ég farið frá ykkur í þessa ferð?“ En svona var nú tíminn í þá daga. Það var ekki verið að spá í tilfinningalíf og tengslamyndun á fyrstu mánuðum barnsins, eins og gert er í dag. Foreldrar mínir eignuðust níu börn. Ég var alltaf óörugg og spennt sem krakki og fannst ég ekki vera merkilegur pappír. Ég þurfti bara að vera stillt og gera eins og fullorðna fólkið vildi. Það kom sér ekki alltaf vel fyrir mig í uppvextinum,“ segir Jóhanna alvarleg í bragði.

Skammaðist sín fyrir veikindin
Það getur verið erfitt þegar lífið kippir fótunum undan heilbrigðri og sterkri manneskju eins og Jóhönnu sem upplifði skömm vegna veikindanna.

„Ég er ótrúlega þakklát fyrir hjálpina sem ég fékk og fyrir það hversu vel ég komst út úr þessu. Fyrstu árin eftir þessa reynslu lokaði ég mig svolítið af en var samt að reyna. Ég hafði ekki jafnvægi, var með svima og fannst hallærislegt að hafa lent í þessu. Ég sem hafði alltaf verið svo hraust. Ég hreinlega skammaðist mín. Mér fannst ég kjánaleg og þegar þér líður þannig þá hagar þú þér nákvæmlega þannig. Hugurinn fer svolítið með mann. Ég var fyrst að reyna að sanna mig, sýna fólki að ég gæti allt eins og áður en það var ekki svoleiðis. Þá fer maður að fela sig,“ segir Jóhanna og viðurkennir að verkefnið var alls ekki búið eftir endurhæfingu með sjúkraþjálfara.

Byrjaði að mála og leika golf
„Eins og ég sagði þá var ég alltaf að reyna eitthvað og þar á meðal byrjaði ég að mála árið 2007 en ég hafði aldrei málað áður. Nú hef ég farið á allskonar myndlistarnámskeið, haldið eina einkasýningu og nokkrar samsýningar. Þetta hefur gefið mér mikið og hjálpað mér að koma mér út í lífið aftur. Ég var samt mjög lengi að samþykkja það að ég gæti yfir höfuð málað. Í dag er ég einnig komin í golfið sem gerir ótrúlega mikið fyrir mig. Systir mín og mágur buðu mér með sér til Spánar í golf. Ég hafði aldrei leikið golf og átti ekkert golfdót. Hún rak mig af stað. Henni fannst örugglega ég vera farin að einangra mig of mikið. Ég á henni Ragnheiði, elstu systur minni, mikið að þakka fyrir þetta því þessi golfferð ýtti meðal annars við mér, að ég yrði að gera eitthvað fyrir mig og njóta lífsins. Í dag er ég með í kvennagolfinu hjá GS og finnst það frábært. Ég er nýkomin úr golfferð til Spánar með þessum hressu konum. Það eru allar konur velkomnar í golf. Þetta er mjög góður félagsskapur og svo skemmtilegt. Þar sem ég er ekki að vinna þá kemst ég oft í golf. Það er gott að geta farið út í frískt loft að hreyfa sig,“ segir Jóhanna og brosir, greinilega ánægð með þessi nýju áhugamál sín, myndlistina og golfíþróttina.

Veikindin hafa kennt mér margt
Jóhanna er ekki bitur út í lífið eftir þessa reynslu heldur þvert á móti segist hún vera þakklát fyrir veikindi sín.

„Það er skrítið að segja það en ég held að ég hafi þurft á þessum veikindum að halda, því ég var í einhverskonar hringiðu og spennu. Það þurfti að stoppa mig af og beina mér í aðra átt. Þessi reynsla hefur hjálpað mér að finna betur hvað skiptir máli í lífi mínu. Ég nýt forréttinda, á góða fjölskyldu, er að mála og leika golf. Ég er mjög þakklát fyrir það og fleira gott i lífinu. Margt sem áður skipti mig máli, skiptir engu máli í dag. Ég hef náð mér alveg ótrúlega vel þótt ég verði ekki alveg eins og ég var því jafnvægið er ekki alltaf í lagi, sérstaklega ekki þegar ég er mjög þreytt en það er fylgifiskur eftir svona áfall. Mér finnst ég samt ein af þessum heppnu, þetta hefði getað farið verr. Ég verð að fara vel með mig en ekkert stoppar mig í að gera það sem mig langar nema ég sjálf,“ segir Jóhanna að lokum.