Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Bókaormur af  Mánagötunni með  „slétt og brugðið“
Jón Hilmarsson
Jón Hilmarsson skrifar
laugardaginn 27. nóvember 2021 kl. 07:14

Bókaormur af Mánagötunni með „slétt og brugðið“

Árelía Eydís Guðmundsdóttir hefur gefið út tvær bækur á árinu

Árelía Eydís Guðmundsdóttir er alin upp í Keflavík en býr núna í vesturbæ Reykjavíkur þar sem hún m.a. starfar sem dósent við Viðskiptadeild Háskóla Íslands.  Eftir hana liggja bæði greinar og bækur á fræðilegu sviði en Árelía hefur lagt sig fram um að skrifa einnig handbækur sem nýtast fólki við stefnumótun í lífi sínu. Hún hefur einnig haldið fjölmörg námskeið á því sviði. Árelía Eydís er afkastamikill rithöfundur og gaf m.a. út tvær bækur á þessu ári, annars vegar skáldsögu og hins vegar fræðilega handbók.

Þrjú sjálf

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Ég er með einskonar þrjú sjálf – eitt sjálfið er starfið mitt sem dósent við Háskóla Íslands, annað sjálfið mitt er rithöfundurinn í mér og þriðja sjálfið er síðan kynningarnar og námskeiðin sem fylgja útgáfunum og rannsóknunum,“ segir Árelía Eydís þegar hún var spurð hvað hún væri að fást við í dag. 

Árelía Eydís er núna í rannsóknarleyfi frá háskólanum en hún fær slíkt leyfi í eitt misseri á sex missera fresti. Í slíku leyfi er oft verið að viða að sér efni í rannsókn eða að búa til rannsóknarsamstarf þannig að mjög oft fer fólk erlendis til að vinna að verkefnum sem þessum. „Ég fór til Spánar í sex vikur þar sem ég var að skrifa rannsóknartengt efni og í leiðinni að reyna að læra spænsku og flamencó, mér varð reyndar ekki mjög ágengt í spænskunáminu,“ sagði Árelía og skellti upp úr. „Það er hins vegar gott að komast aðeins í burtu frá kennslunni og hafa frelsið sem felst í þessu rannsóknarleyfi, bætti hún við.“

Rithöfundurinn Árelía Eydís

Árelía Eydís gaf út á þessu ári tvær bækur, annars vegar skáldsöguna „Slétt og brugðið“ og hins vegar handbókina „Völundarhús tækifæranna“ sem fjallar um þær breytingar sem hafa orðið á vinnumarkaðnum á undanförnum áratugum.

Árelía Eydís fann ákveðið frelsi í að að halda úti bloggi sem hún byrjaði á fyrir mörgum árum síðan, sem síðan þróaðist í að skrifa sögur sem eru algjörlega skáldaðar. Skáldsagan sem kom út fyrr á þessu ári er þriðja skáldsaga hennar. „Ég er mikill bókaormur, var mikið á bókasafninu á Mánagötunni í Keflavík og sökkti mér í allskonar bókmenntir á mínum uppvaxtarárum.“

„Slétt og brugðið“ fjallar um sex konur sem hafa í fjöldamörg ár hist í saumaklúbbi. Dag einn ákveða þær hins vegar að gera eitthvað allt annað en vanalega þegar þær koma saman. Þetta hrindir af stað óvæntri atburðarás sem á eftir að hafa mikil áhrif á líf þeirra. Konurnar standa flestar á krossgötum og þessi breyting hjálpar þeim að takast á við erfið mál í einkalífi og starfi.

Völundarhús tækifæranna er hins vegar fræðileg handbók unnin í samstarfi við Herdísi Pálu Pálsdóttur mannauðsstjóra Deloitte og fjallar um þær breytingar sem hafa orðið á vinnumarkaðnum á undanförnum árum. 

„Sú bók hefur beina tengingu við vinnuna mína,“ segir Árelía Eydís. 

„Í handbókinni er verið að rannsaka þær miklu tæknilegu umbreytingar sem nú þegar eru farnar að hafa áhrif á daglegt líf okkar og munu veita fólki á vinnumarkaði sem og atvinnurekendum ný og spennandi tækifæri. Þessi umbylting getur orðið lykill að betra og innihaldsríkara lífi. Hinum svokölluðu giggurum fer stöðugt fjölgandi – fólki sem tekur að sér verkefni í takmarkaðan tíma en hverfur svo á vit nýrra viðfangsefna; fólki sem selur vinnu sína á markaðstorgi þekkingarinnar. Eðli starfa og vinnustaða er að gjörbreytast og samband starfsfólks og vinnustaðar mun verða með allt öðrum hætti en áður.  „Ég er síðan tengd handbókinni og í framhaldi af henni að birta greinar um framtíðarvinnumarkað okkar og starfsferil, hvernig hann er að breytast og sérstaklega starfsferil kvenna. Það er töluverður munur á kynjunum og þá sérstakalega þegar tekið er að líða á starfsferilinn. Ég fæ reglulega predikunarþarfir þar sem ég finn mig knúna til að kynna ýmislegt fyrir öðrum, eitthvað sem mér finnst nauðsynlegt að aðrir þurfa að vita.

Mér finnst gaman að hafa marga bolta á lofti en þarf samt að passa mig á því að færast ekki of mikið í fang. Ég er þegar farin að hugsa næsta verkefni, fyrsta setningin í næsta skáldverki er komin og ég veit ekki hvert hún kemur til með að leiða mig,“ sagði Árelía Eydís að lokum.