Mannlíf

Ekki þurft að greiða af skólaláninu í 150 ár
Laugardagur 8. október 2022 kl. 18:40

Ekki þurft að greiða af skólaláninu í 150 ár

Þorvaldur Örn Árnason hefur síðasta árið unnið að því að taka saman sögu skólahalds í Vogum og á Vatnsleysuströnd. Hafa vikulegir pistlar sem hann hefur tekið saman m.a. verið birtir vikulega í Víkurfréttum.

Þorvaldur segir að með grúski sínu hafi hann komist að því að skólasagan úr Vogum hafi verið hulin og lítið verið birt um hana á prenti nema í Faxa og í Víkurfréttum.

Skólahalds í Vogum sé ekki getið í íslenskri sögu menntunar þó svo skólinn sé sá þriðji elsti á landinu og aðeins barnaskólar í Reykjavík og á Eyrarbakka séu eldri. Gerðaskóli sé samtíða skólanum í Vogum en Gerðaskóli sé þremur vikum yngri en sá í Vogum.

„Skólinn hér í Vogum er stofnaður þegar engin lög eru til um skóla. Það liðu 35 ár þar til sett voru skólalög í landinu. Þetta voru bara áhugamannafélög um þetta sem fengu pening frá góðum mönnum til að byggja hús og skólinn byrjaði í sínu eigin húsi. Það geta ekki allir státað af því en skólinn hefur starfað í eigin húsi alla tíð. Það er búið að byggja nokkrum sinnum og stækka nokkrum sinnum.

Fyrstu öldina voru börnin oft á bilinu tuttugu til fjörutíu hverju sinni. Starfsmenn á hverjum tíma voru á bilinu einn til þrír og voru þrír þegar best lét.“

Aðstæður voru oft erfiðar á þessum tíma og mörg börn í litlu skólahúsnæði.

„Fyrsta skólabyggingin var 56 fermetrar og börnin voru 28 eða 29 talsins og ekki bara það, því það var búið í risinu. Fyrstu árin bjuggu hluti af börnunum uppi í risi og það var alltaf vandamál á þessum árum, í dreifbýlinu, að það var langt fyrir börnin að fara í skólann. Fyrstu fjögur til fimm árin var Njarðvík með í skólanum en Njarðvík var þá hluti af sveitarfélaginu. Nemendur voru ekki að labba úr Njarðvík á hverjum degi, heldur bjuggu í Brunnastaðahverfinu og jafnvel bara uppi á lofti í þessu 56 fermetra húsi sem síðar var stækkað í 85 fermetra fimmtán árum seinna. En þetta var ekki gott fyrirkomulag fyrir börnin úr Njarðvík og Njarðvíkingar stofnuðu eigin skóla strax 1876, í Hákoti, með farskólasniði. Þeir voru svo með eigin skóla með ýmsu sniði eftir það, stundum með Keflvíkingum.“

Enginn skólastjóri fyrstu áratugina

Það var ekki fyrr en um 1940 sem farið var að tala um skólastjóra. Fram að þeim tíma voru bara kennarar. Þegar kennarar voru tveir, þá var annar aðal og hinn til hliðar. Annar kannski í aðalskólanum og hinn í hverfisskóla sem voru stofnaðir af því að það var svo langt fyrir börnin að fara í skólann. Það þótti ekkert merkilegt á þessum árum að börnin sem þó þurftu að ganga í skólann þyrftu að ganga hálftíma til klukkutíma hvora leið. „Þannig var þetta bara í þá daga,“ segir Þorvaldur.

Gerði út á Thorcillius-sjóðinn

Þegar Þorvaldur hóf að grúska í skólasögunni hélt hann að skólarnir hafi verið stofnaðir fyrir börn ríkra foreldra. Þeir voru fyrst og fremst stofnaðir fyrir börn fátæka fólksins vegna þess að það fólk átti í basli með að kenna börnunum sínum að lesa. „Það var skyldugt til að gera það og prestarnir áttu að sjá til þess að börnin kunni að lesa en þetta var eilíft vandamál. Hvati prestanna til að stofnaður yrði skóli var til að koma sér út úr vandræðum, því það var þeirra skylda að börnin lærðu að lesa. Fátæka fólkið átti heldur ekki pening til að borga skólanum og hver átti þá að borga fyrir skólann? Rúmri öld áður var maður uppi í Innri-Njarðvík, Jón Þorkelsson, kallaður Thorcillius. Hann gekk menntaveginn og var Skálholtsrektor í níu ár og bjó meira en tvo áratugi í Danmörku og Þýskalandi. Hann orti heila Íslandssögu á latínu. Hann deyr barnlaus árið 1759. Hann hafði stofnað sjóð af eigum sínum og hann var ríkur á sínum tíma. Þessi sjóður er að velkjast í rúm 100 ár en þessi sjóður átti að vera til að ala upp og kenna börnum fátæks fólks að læra og koma þeim til manns. Stefán Thorarensen, prestur á Kálfatjörn, gengst fyrir stofnun þessa skóla vissi um þennan Thorcillius-sjóð og gerði út á sjóðinn. Honum tókst að kría út 1.000 til 1.200 ríkisdala lán úr sjóðnum, sem var verulegur peningur þá. Hann fékk þetta lán og þurfti ekki að borga það til baka á meðan þessi skóli sinni vel börnum fátæks fólks og börnum sem eru verr stæð. Þessi skóli hefur ekki ennþá borgað lánið til baka 150 árum síðar og lánið er alveg í skilum vegna þess að hér er ennþá vel hugsað um börn fátæks fólks og þeirra sem minna mega sín og það hefur verið öll þessi 150 ár. Þá greiddi sjóðurinn í upphafi skólagjöld fátækustu barnanna. Það voru átta til tíu börn á hverjum tíma af þeim tuttugu til þrjátíu sem voru í skólanum sem fengu þennan styrk úr sjóðnum.