Gengur hringinn til styrktar Krabbameinsfélaginu
Jón Eggert Guðmundsson, 37 ára líffræðingur og kerfisfræðingur, ætlar í sumar að ganga eftir strandvegum landsins frá Hafnarfirði suður, austur og norður um til Akureyrar. Næsta sumar ætlar hann að loka hringnum og ganga frá Hafnarfirði vestur og norður um til Akureyrar. Þessi leið er í heild um 3000 kílómetrar.
Ferðin hófst laugardaginn 11. júní með prufugöngu frá Hafnarfirði að Vogum á Vatnsleysuströnd en föstudaginn 17. júní hófst gönguferðin formlega kl.
9 í Vogum og gekk Jón gengið fyrir Vogastapa til Njarðvíkur, þaðan í Hafnir og fyrir Reykjanes til Grindavíkur. Næstu daga verður haldið áfram meðfram suðurströndinni til Herdísarvíkur, gegnum Eyrabakka og Stokkseyri, upp með Þjórsá og yfir Þjórsárbrú og áfram austur.
Jón Eggert hefur lengi átt sér þann draum að ganga sem stærstan hring í kringum landið og hefur undirbúið sig m.a. með því að ganga upp á Esju nokkrum sinnum í viku síðustu mánuði.
Gangan, sem nefnd er Strandgangan, er til styrktar Krabbameinsfélaginu.
Hægt er að leggja frjáls framlög inn á sérstakan söfnunarreikning 301-26-102005, kt. 700169-2789, eða hringja í söfnunarsíma 907 5050 og verða þá eitt þúsund krónur innheimtar með næsta símareikningi.
Á vefsíðunni http://joneggert.gsmblogg.is verður hægt að fylgjast með því hvernig gengur, en Jón Eggert mun senda nýjar upplýsingar inn á síðuna á hverjum degi.
Á myndinni sést Jón Eggert ásamt Ernu Björnsdóttur frá Krabbameinsfélagi Suðurnesja og Rannveigu Garðarsdóttur frá Upplýsingamiðstöð Reykjaness.