Lærir kínversku af YouTube við hvíta strönd í Kambódíu
Kristín Bára Haraldsdóttir er mikil ævintýrakona. Frá tvítugsaldri hefur hún að eigin sögn verið með annan fótinn í útlöndum en í dag er hún 38 ára gömul. Kristín Bára er búsett í Sihanoukville í Kambódíu. Þar er lítið þorp sem heitir Otres Beach eða Otres Village. Þorpið stendur við fallega, hvíta strönd við Tælandsflóa. Kambódía er land í Suðaustur-Asíu með landamæri að Tælandi í vestri, Laos í norðri og Víetnam í austri. Í suðri á landið strandlengju að Tælandsflóa.
HÉR MÁ SJÁ VIÐTALIÐ Í NÝJUSTU VÍKURFRÉTTUM! - SMELLIÐ HÉR
Kristín Bára og kærasti hennar vinna nú að verkefni sem felst í að útbúa vítamín- og próteinstykki fyrir börn á svæðinu. Unnið er út frá því að stofna óhagnaðardrifið félag sem síðan gefur framleiðsluna til fátækra barna, í skóla og á munaðarleysingjahæli.
Víkurfréttir ræddu við Kristínu Báru í síðustu viku um ævintýraþrá hennar á fjarlægum slóðum og hvað hún er að fást við. Það var samt ekki hlaupið að því að ná góðu sambandi, því netsamband þar sem hún býr er ekki í miklum gæðum og þá var rafmagnsleysi á svæðinu, sem minnir okkur á þau gæði sem við búum við hér á Íslandi. Kristín Bára gat því ekki sent okkur myndir í hárri upplausn til að birta með viðtalinu, því lélegt net neitaði að hleypa stórum myndum í gegn.
– Hvað kemur til að þú ert í Kambódíu?
„Ég og kærasti minn bjuggum í New York en fyrir fimm árum ákváðum við að fara að ferðast og leita okkur að stað þar sem við gætum haft sumarhús. Við fórum í þriggja mánaða ferðalag og fórum til Balí, Tælands, Vietnam, Laos og enduðum í Kambódíu.
Hér erum við í litlum og æðislegum strandbæ og hér eru bæði innfæddir í bland við vesturlandabúa. Þetta er algjör paradís með fjögurra kílómetra langri, hvítri strönd og allir að vinna saman. Þetta er rosalega fínt og alveg eins og póstkort. Svo eru fimm eyjur hérna rétt fyrir utan þar sem þú getur skroppið yfir á bát og eytt nótt á eyðieyju. Þetta var bara draumur að koma hingað.“
– Hvernig vaknaði draumurinn hjá þér að fara og ferðast um heiminn?
„Kærasti minn, Adrian Cowen, var búinn að búa í New York í 23 ár og ég eiginlega dró hann með mér í þetta árið 2015. Hann hafði verið að starfa í tískuiðnaðinum og fyrirtækið sem hann var með var að leysast. Hann var laus allra mála og því ákváðum við að gera þetta.“
– En Kambódía er kannski ekki fyrsti áfangastaðurinn sem manni dettur í hug?
„Nei, við vorum ekkert rosalega spennt fyrir Kambódíu. Við héldum að það væru bara kóngulær í matinn og allt svoleiðis. Svo var þetta bara allt annað en við héldum.“
– Er þetta eitthvað svipað og Tæland?
„Nei, reyndar ekki. Þetta er miklu ódýrara, miklu auðveldara fyrir vesturlandabúa að fá langar vegabréfsáritanir. Að fá áritun í sex mánuði eða jafnvel ár er mjög ódýrt. Það er auðvelt að fá atvinnuleyfi og það kostar tíu dollara fyrir árið.“
– Hvernig eruð þið að afla tekna til að lifa?
„Það fer ekki mikið fyrir því núna. Við vorum með bakarí og seldum í verslanir og til hótela. Við vorum einnig að gera múslí og granóla og það gekk rosalega vel þangað til fyrir tveimur árum þegar Kínverjarnir komu á svæðið. Það voru gefin leyfi fyrir 110 spilavítum á svæðinu okkar, þannig að uppbyggingin er búin að vera rosaleg á síðustu tveimur árum. Hér hafa risið háhýsi og hér eru lúxusbílar um allt.“
– Þannig að Kínverjarnir flæddu yfir allt?
„Já en jafn fljótt og þeir komu þá fóru þeir aftur og skildu staðinn okkar eftir eins og hálfgert sprengjusvæði. Ég veit ekki hvað það eru margar byggingar og háhýsi hálfkláruð og allt í rúst. Ástæðan er að veðmál á netinu höfðu verið leyfð en síðan ákvað forsætisráðherrann að banna þá starfsemi og þá fóru allir og ákváðu að skilja allt eftir, allar glæsikerrurnar og bara allt. Það stendur til dæmis Rolls Royce hérna fyrir utan hótelið hjá okkur og hefur verið hér í marga mánuði.“
– Og þið búið bara á hóteli?
„Við búum á hóteli sem er lokað. Þetta er nýtt lúxushótel og við erum bara fjögur sem búum hérna og erum að passa hótelið fyrir vin vinar okkar. Þetta er svolítið eins og í kvikmyndinni Shining. Það er þyrlupallur uppi á þaki, danssalir og þetta er allt mjög skrítið. Það eru fjórar sundlaugar og tvær uppi á þaki. Svo erum við bókstaflega á ströndinni. Ég opna hurðina, labba yfir götuna og þá er ég kominn á sandinn á ströndinni.“
– Hvernig er veðrið þarna?
„Núna er heitasti tími ársins. Appið segir mér núna að það sé 32 stiga hiti. Það er svo rakt hérna að það er ólíft á milli klukkan níu á morgnana og til hálf fjögur á daginn.“
– Og hvað gerir þú á þeim tíma?
„Ég nota hann til að skrifa. Svo er ég einnig að læra kínversku í gegnum YouTube. Ég er komin með kambódískuna svo til í lagi. Ég er líka að læra Taekwondo og box á ströndinni og er með þjálfara.“
– Er kórónuveiran ekkert að plaga ykkur á þessum slóðum?
„Þó svo að það séu fá smit þá höldum við okkur bara í litlum hópum. Við erum ekki að hafa mikil samskipti við aðra til að vera örugg. Hér hafa bara komið upp 120 smit og 110 eru útskrifaðir. Hér hefur enginn látist. Það eru tíu á spítala og landið er lokað. Mér er sagt það að veiran þrífist ekki í þessum rosalega hita og raka, þannig að ég held að í augnablikinu séum við nokkuð örugg.“
– Sérðu þína framtíð þarna, fyrst þú ert búin að læra tungumálið og ert að læra kínversku?
„Ég á marga kínverska vini og þeir segja að framburður minn á kínversku sé tignarlegur og þetta er tungumál sem maður verður eiginlega að læra. Ég læri af YouTube og af vinum mínum. Maður verður að æfa sig að tala og þetta kemur bara.“
– Nú er kínverska stafrófið einhver 3800 tákn. Ertu að læra þau?
„Ég ákvað að byrja á matseðlinum. Fyrst þegar ég fór á kínverskan veitingastað þá benti ég á einhverja mynd og við fengum einhvern mat og ég spurði hvað þetta væri. Við fengum þá að vita að þetta væru svínalimir. Eftir það ákvað ég að læra matseðilinn,“ segir Kristín Bára og hlær.
– Þú sagðir mér áðan að landið væri lokað. Hafa þá áform hjá þér eitthvað breyst?
„Já, ég kem alltaf heim til að vinna en mun ekki koma heim í sumar. Við erum núna að vinna að vítamín- og próteinstykkjum fyrir börn. Við erum að vinna að verkefni þannig að við getum gefið framleiðsluna til fátækra barna, skóla og þeirra sem eru á munaðarleysingjahælum. Við erum með gott teymi með okkur. Við erum með næringarfræðinga sem m.a voru að vinna fyrir Mars og McVitie's. Nú er tími til að hjálpa öðrum og hugsa minna um sjálfan sig. Ég hef það gott þannig séð en maður sér fólkið hérna í kringum sig missa vinnuna því það vantar ferðamennina. Hótelin eru lokuð og allt fólkið sem er að vinna þar við þrif og fólkið á veitingastöðunum er búið að missa vinnuna. Þetta fólk á fullt af börnum og við erum að reyna að hjálpa þeim.“
– En hvernig gengur að nálgast nauðsynjar? Er nóg til í búðunum?
„Nefnilega ekki sko. Þetta er lítið þorp þar sem við erum og við erum alveg yst í þorpinu. Það eru nokkrar búðir í þorpinu sem ég fer í á mótorhjólinu og þar get ég keypt nauðsynjavörur eins og tannkrem en eftir að Kínverjarnir komu þá var hætt að selja allar vesturlandavörur eins og skinku, ost og brauð. Nú er bara hægt að kaupa soyasósur, núðlur og eitthvað kínverskt sem við vitum varla hvað er.“
Kristín Bára segir að 95% af vesturlandabúunum sem bjuggu í þorpinu séu farnir og þau séu bara nokkur eftir. Ástæðan fyrir því að þau eru ekki farin er að þau elska ströndina. „Þetta er æðisleg strönd hérna og okkur líður vel – og að vera með þetta hótel útaf fyrir okkur er alveg klikkað.“
– Hversu stórt og mikið er þetta hótel?
„Þetta er þriggja hæða hótel en öll herbergin eru risaherbergi og það eru því bara 50 herbergi á hótelinu. Svo eru þaksvalir, þyrlupallur og sundlaugar.“
Og þegar við ræddum við Kristínu Báru um hótelið þá hrópar hún skyndilega: „Risaeðla!“ og hlær mikið. Myndarleg eðla var komin upp á miðjan vegg hjá henni. „Hvað kallar þú risaeðlu,“ spyr blaðamaður og hún lýsir eðlu sem er um 35 sentimetrar á lengd en segir svo: „Þær halda moskítóflugum í burtu.“
– Og þú ert ekkert á förum, eða hvað?
„Nei, mér finnst ég bara vera örugg hérna. Við eru fjögur hérna. Ég og maðurinn minn, einn rússneskur strákur og einn bandarískur strákur sem var læknir í hernum. Það er gott að hafa hann hér og við höfum talað mikið um það að ef eitthvað okkar verður veikt þá er hann búinn að kaupa öll þau lyf sem er mælt með. Hann er meira að segja fær um að gera heimatilbúna öndunarvél ef út í það er farið,“ segir Kristín Bára og hlær.
– Hvað segir þitt fólk heima um þennan flæking á þér?
„Ég er 38 ára gömul í dag og ég hef verið með annan fótinn í útlöndum síðan ég var tvítug. Þegar ég var tvítug fór ég með hópi af krökkum til London fyrir Skjá einn til að vinna að atriði í sjónvarpsþátt sem Dóra Takefusa og Björn Jörundur voru með og hét Þátturinn. Svo kom ég heim og fór í kvikmyndskóla en svo er ég alltaf að gera eitthvað nýtt og ferðast um heiminn og njóta lífsins“ segir Kristín Bára Haraldsdóttir í Kambódíu.