Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Sjólyst í Garðinum
Sjólyst í sjávarflóðum 14. febrúar 2020. Húsið slapp við skemmdir í veðrinu.
Sunnudagur 21. febrúar 2021 kl. 06:34

Sjólyst í Garðinum

Skammt ofan við Gerðavör í Garðinum stendur húsið Sjólyst. Það er byggt um 1890, staðsett í miðju athafnasvæði í Gerðum. Gerðavör með sína bátaútgerð við sjávargaflinn og fiskvinnsluhús á báðar hendur. Fólk á ferli og börn að leik. Skammt í verslun og símstöð. Milljónafélagið hafði starfsemi á þessu svæði um sína daga. Enn stendur Sjólyst í upprunalegri mynd, þó umhverfið sé breytt.

Grind og meginviðir úr Jamestown

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ætla má að grind hússins og aðrir meginviðir séu úr farmi Jamestown. Húsið er fulltrúi þeirrar húsagerðar sem var algengust í byggðum Suðurnesja um og upp úr aldamótum 1900. Mætti okkur auðnast að ganga um byggðirnar á Suðurnesjum um þarsíðustu aldamót voru mörg hús af svipaðri gerð eða þá torfbæir. Hús af þessari gerð eiga fyrirmynd sína í torfbæjunum. Þeim svipar til eins stafgólfs í torfbæ. Fá hús af þessari gerð finnast nú en víða er uppruni þeirra og viðir faldir í húsum sem enn standa, þá mismikið endurbyggð og breytt. Fyrir miðja síðustu öld var gerð viðbygging við Sjólyst þar sem voru eldhús og snyrting og anddyri reist nokkru fyrr. Una Guðmundsdóttir, sem Gunnar M. Magnús skrifaði bókina Völva Suðurnesja um, bjó lengi í Sjólyst. Eldri Garðmenn líta gjarnan til Unu og Sjólystar í senn. Þar var lengi bókasafn Garðsins.

Eftir lát Unu 1978 var húsið mest autt um árabil. Þannig skipaðist hjá forsvarsmönnum Garðsins að húsið varðveittist. Nesfiski boðið húsið og var Nesfiskur leigutaki um langt skeið. Þar bjuggu starfsmenn Nesfisks. Vel má ætla að það fyrirkomulag hafi orðið til þess að Sjólyst varðveittist. Húsið fékk viðhald, var hitað og þar var búseta.

Sterkur vilji að hlú að minningu um Unu

Svo vaknaði áhugi á varðveislu og endurbyggingu. Sterkur vilji til staðar að hlú að minningu um Unu, bæði frá einstaklingum og forsvarsmönnum sveitarfélagsins. Húsið einnig verðugur fulltrúi síns byggingartíma. Hollvinafélag Unu Guðmundsdóttur í Sjólyst var stofnað 18. nóvember 2011. Bæjarfélagið stýrði og kostaði endurbygginguna en hollvinir studdu vel við og voru með í ráðum. Verkefnið hefur notið stuðnings úr opinberum sjóðum og vinir Unu og hússins lagt fram stuðning. Framundan er að móta starf í húsinu, gera húsið aðgengilegt til skoðunar og mögulega annars. Þá verður minningin um Unu Guðmundsdóttur tengd starfsemi hússins. Fyrir liggur samstarfssamningur milli Sveitarfélagsins og Hollvinafélagsins um aðkomu hollvina að starfsemi í húsinu.

Endurgerð hússins

Endurgerð hússins hófst um mitt ár 2016. Ytra birgði, múrklæðning og járn fjarlægt. Grind og fótstykki bætt og styrkt. Gluggar settir í og bárujárn á veggi. Viðbygging með eldhúsi, þvottahúsi og snyrtingu og svo anddyri voru þannig farin að þau voru alfarið fjarlægð og byggð upp frá grunni, einangruð og gerð sem ný. Á óvart kom hve viðbyggingin og anddyri voru illa farin. Lítið unnið í húsinu 2017 en frá hausti 2018 til hausts 2020 unnið með nokkrum hléum. Þak frágengið, milligólf endurbyggt. Grindarefni endurnotað sem kostur var. Klæðning endurnotuð að því marki sem mögulegt var. Alúð lögð í frágang að innan. Er veggjaplötur voru fjarlægðar kom upprunalegur panill í ljós. Þá ákveðið að láta panil halda sér sem kostur var. Mikil vinna lögð í hreinsun hans og dugar panill í klæðningu þriggja veggja. Panilklæðning milli sperra í lofti látin halda sér sem kostur var og gamla mosaeinangrunin látin kjur. Mosaeinangrun í veggjum fjarlægð og ekki bætt við einangrun þar. Gamall stigi, sem væntanlega er ekki upprunalegur, endurgerður. Heilleg gömul Morgunblöð komu í ljós á veggjum er veggfóður var fjarlægt. Algengt var að nota blöð sem einangrun. Þannig stendur Sjólyst endurgerð og frágengin að utan sem innan. Innri skipan hússins tekur mið af þeim tíma er Una bjó í húsinu.

Unnu verkið af kostgæfni

Húsasmiðirnir og feðgarnir Ásgeir Kjartansson og Bjarki Ásgeirsson voru umsjónarmenn verksins, unnu alla smíðavinnu, rif og annað eins og til féll. Sigurður Guðjónsson, kenndur við Bárugerði í Sandgerði, bauðst til að smíða glugga, gaf þá vinnu. SI-raflagnir sáu um rafmagn, Benni pípari um pípulögn, Kef málun málningarvinnu. Gröfuþjónusta TE annaðist þær jarðvegsframkvæmdir sem þurfti. Dúklagning Flötur ehf.

Jón Ben Einarsson, byggingarfulltrúi, var tengiliður frá sveitarfélaginu og Magnús Skúlason, arkitekt, var til ráðgjafar í uppbyggingarferlinu. Endurgerð hússins formlega lokið 18. nóvember 2020 sem er afmælisdagur Unu. Vorið 2021 er áformað að ganga frá lóð Sjólystar og umhverfi. Í byrjun árs 2021 verður hafist handa að bæta sjóvörn neðan hússins. Í miklu áhlaupsveðri í febrúar 2020 sótti sjór að húsinu, þó án þess skemmdir yrðu.

Ásgeir og Bjarki hafa unnið verkið af kostgæfni, gætt að endurnýtingu efnis og vandað handbragð. Hinu gamla lofað að halda sér. Ásgeir myndaði framgang verkefnisins og er saga uppbyggingar Sjólystar þannig skráð í myndum. Sú saga verður væntanlega aðgengileg í húsinu er fram líður.

Hörður Gíslason