Mannlíf

Útbúa huggulegan garð fyrir bæjarbúa
Laugardagur 2. september 2023 kl. 04:23

Útbúa huggulegan garð fyrir bæjarbúa

Garðyrkjufélag Suðurnesja er í samstarfi við Bókasafn Reykjanesbæjar og Erasmus verkefni, sem stýrt er af Stefaníu Gunnarsdóttir forstöðumanni safnsins og Berglindi Ásgeirsdóttur umhverfisstjóra Reykjanesbæjar, um Andrými - huggulegan garð fyrir bæjarbúa. Garðurinn er á lóð Ráðhúss Reykjanesbæjar.

Hugmyndin með verkefninu er að nýta svæði sem er austan megin við Bókasafnið, þar sem fyrir voru steyptir bekkir og beð, sem er frekar kuldalegt og illa nýtt. Nú er unnið að því að gera þetta svæði huggulegt fyrir íbúa bæjarins til að geta sest niður og notið dagsins.

Í garðinum er fallegt stuðlaberg og nú er unnið að því að koma fyrir nýjum bekkjum í stað steinbekkja sem enginn vildi setjast á. Gróðurinn sem er þar fyrir hefur verið illa hirtur og nú er unnið að því að skipta honum út og setja niður falleg tré, sumarblóm og sígrænan gróður. Það gæti lyft svæðinu upp allt árið um kring. 

Í garðinum eru einnig gróðurkassar sem í eru kryddjurta/matjurtir sem íbúar bæjarins  geta sótt í, taka með sér heim til eigin nota. Jafnvel að koma með annað í staðinn, nokkurs konar skiptimarkaður.

Umsjónarfólk verkefnisins um garðinn segja að hægt væri að bjóða upp á kennslu við að útbúa sinn eigin garð, hvort heldur á svölum eða í beði heima. Ef allt gengur vel er möguleiki á að útvíkka verkefnið.   

Þau segja að umhverfisvitund hafi farið stigvaxandi í samfélaginu og meira hugsað um sjálfbærni og minni sóun. Þetta tengist því sem bærinn okkar stefnir að.   


Hugmyndin er að erlendri fyrirmynd sem er á nokkrum stöðum á Norðurlöndunum eins og t.d. í Danmörku, þar er það kallast „Hygge garður.“

Í sumar mættu um þrjátíu sjálfboðaliðar þegar byrjað var á framkvæmdum við garðinn og í síðustu viku mætti einnig hópur fólks til að hreinsa beð og planta. Þá voru væntanlegir smiðir til að smíða bekki.

Í þessari viku eru hér á landi gestir frá Slóvakíu og Noregi að kynna sér garðinn og fleira, en þau eru í Erasmus+ verkefni með Bókasafni Reykjanesbæjar.