Sjálfstæðisflokkurinn
Sjálfstæðisflokkurinn

Pistlar

Aflamet og sterk kvótastaða Huldu Björnsdóttur GK
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 8. nóvember 2024 kl. 06:08

Aflamet og sterk kvótastaða Huldu Björnsdóttur GK

Já, október var vægast sagt mjög góður aflamánuður og tveir bátar frá Suðurnesjum settu aflamet. Það voru Auður Vésteins SU og Óli á Stað GK. Báðir bátarnir fóru í 25 róðra en frá sitthvoru svæðinu, Auður Vésteins SU var á veiðum fyrir austan og Óli á Stað GK var á veiðum í Húnaflóanum.

Aflinn hjá Auði Vésteins SU var 257.5 tonn og mest 15,6 tonn í róðri. Óli á Stað GK var með 251,2 tonn og mest 13,9 tonn. Þessi afli hjá báðum þessum bátum er sá mesti sem að bátarnir hafa náð á einum mánuði frá því að þeir hófu veiðar.

Nýjasti togari landsins, Hulda Björnsdóttir GK, er búinn að fara í sinn fyrsta prufutúr og er togarinn núna í Hafnarfirði þar sem verið er að stilla af tæki og tól um borð í skipinu.

SSS
SSS

29 metra togaranum Sturlu GK verður lagt eða hann seldur og mun Hulda Björnsdóttir GK koma í staðinn. 

Kvótastaðan hjá Sturlu GK er nokkuð góð en togarinn fékk úthlutað um 5000 tonnum miðað við þorskígildi. Nánar þá fékk Sturla GK 2800 tonn af þorski, 909 tonn af ýsu, 1275 tonn af ufsa, um 850 tonn af karfa og 200 tonn af keilu. En hvaðan kemur kvótinn sem er á Sturlu sem núna mun færast yfir á Huldu Björnsdóttir GK? Kvótinn sem er á Sturlu GK kom að mestu frá línubátnum Sturlu GK sem var lagt árið 2020. Línubáturinn Sturla GK sem lagt var árið 2020 var þá kominn með kvóta frá öðrum línubáti sem að Þorbjörn hf. átti og gerði út og var það Tómas Þorvaldsson GK, bátur sem átti sér langa sögu í Grindavík en hann var lengi loðnubátur í Grindavík og hét þá Háberg GK. Lengra aftur í tímann eða árið 2006, átti fyrirtækið frystitogarann Hrafn GK og var hann seldur og kvótinn af honum fór yfir á línubátinn Tómas Þorvaldsson GK.

Síðan kemur bátur sem var keyptur og kvótinn af honum færður yfir á Tómas Þorvaldsson GK. Þessi bátur átti sér langa og mjög mikið fengsæla sögu í fiskveiðum, hann hét Stafnes KE og Oddur Sæmundsson, sá mikli aflakóngur, átti bátinn og var skipstjóri á honum. Stafnes KE réri að langmestu leyti á netum allt árið og báturinn setti Íslandsmet fyrir rúmum 30 árum síðan þegar skipið landaði hátt í 3500 tonnum af fiski á einu ári, mest af ufsa. Enginn netabátur á Íslandi hefur veitt jafn mikið magn af fiski á einu ári og Oddur Sæmundsson og áhöfn hans gerðu þarna fyrir um 30 árum síðan. 

Lengra í ættfræðinni á kvótanum sem Hulda Björnsdóttir GK fær, því útgerðin keypti kvótann af bátnum Hafbergi GK sem átti sér langa sögu í Grindavík og færði yfir á Tómas Þorvaldsson GK. Sömuleiðis þá keypti útgerðin bátinn Gauk GK og tók allan kvótann af honum og færði líka yfir á Tómas Þorvaldsson GK. Gaukur GK átti sér eins og Hafberg GK, mjög langa sögu í útgerð frá Grindavík og var að mestu á netum eins og Stafnes KE.

Svo voru þrír bátar keyptir eða réttara sagt þá sameinaðist Þorbjörn hf. Valdimar hf. í Vogum og með í því voru þrír bátar. Togarinn Þuríður Halldórsdóttir GK, báturinn Valdimar GK sem Þorbjörn hf. gerði út alveg fram á þetta ár, og síðan Ágúst Guðmundsson GK en eins og með hina þá fór allur kvótinn af bátnum yfir á Tómas.

Svo já, þetta ættartré af kvótanum sem Hulda Björnsdóttir GK verður með kemur frá mjög merkilegum bátum og stendur Stafnes KE þar á toppnum.