Ráðherra er úrelt orð
Það virðist vera að fjúka í flest skjól fyrir okkur karlmenn. Konurnar eru að taka yfir völdin, Gamlir stjórnmálaforingjar og fyrrum „ráðherrar“ engjast nú um í örvilnan sinni á skjám landsmanna og er bara alls ekki skemmt. Það sem þeir höfðu helst óttast er nú að raungerast. Þeir geta ekki mikið lengur stýrt og stjórnað og beitt sínu „hvalræði“, konurnar hafa tekið völdin.
Fari svo fram sem horfir verða konur komnar í allar helstu virðingarstöður landsins áður en árið er úti. Forseti Íslands er kona, biskup íslands er kona, ríkislögreglustjóri er kona, og væntanlega verða það konur sem koma til með að setjast í stóla helstu ráðuneyta, og verða þar með ráðherrar. Það hefur gerst sem formaður Miðflokksins, sem reyndar er alls ekki kona kallaði eftir. Skynsemin hefur tekið völdin.
Ráðherra er karlrembulegt orð, herra sem ræður, arfleið feðraveldisns. Svo virðist vera sem það sé innprentað í stjórnarfar okkar okkar að konur kæmu ekki til greina sem hugsanlegir fulltrúar þjóðarinnar. Þar þyrftu að vera herrar, ráðherrar, sendiherrar. Aðrar þjóðir fara mildar í þetta, gerðu sér greinilega grein fyrir að konur gætu líka stjórnað. Nota í flestum tilfellum orðið „Minister“, sem komið er úr latínu og merkir yfirmaður eða kennari. Upphaflega var þetta orð notað innan kirkjunnar en hefur verið notað í pólitískri merkingu í ensku síðan á sautjándu öld.
Tímarnir hafa breyst. Áður voru það einungis karlmenn sem þjónuðu störfum ráðherra, það var feðraveldið. Eftir að konur fóru að sinna þessum embættum urðu þær þar með herrar. Ungfrú ráðherra hljómar fáránlega. Af hverju ekki að breyta þessu og titla viðkomandi eftir því hvert starf þeirra er? Forsætisráðherra yrði til að mynda yfirmaður forsætisráðuneytis, menntamálaráðherra yrði yfirmaður menntamála. Eins og viðkomandi titla sig nú þegar á erlendri grundu. Ráðherra í íslenskri tungu er úrelt orð. Nú er tækifæri nýyrðasmiðanna.
Gleðilega hátíð!