Jólin í ár verða frönsk... en alltaf íslensk... og alltaf eins
Jólin eru og verða alltaf minn uppáhaldstími. Ég held ég hafi skrifað um það hér áður á þessum vettvangi að þegar það kemur að jólum og jólahefðum þá er ég ótrúlega íhaldssöm.
Jólaminningarnar mínar frá því að ég var barn á Garðaveginum eru allar dásamlegar – það var alltaf allt eins, og í minningunni var alltaf allt fullkomið. Jólatréð var skreytt á Þorláksmessu, skipt á öllum rúmum á aðfangadagsmorgun, barnaefni í sjónvarpinu um miðjan dag þegar rjúpnalyktin byrjaði að ilma. Rjúpurnar hennar mömmu klikkuðu auðvitað aldrei, og sósan maður lifandi! Himnaríkissæluávaxtasalatið í desert alltaf stórkostlegt. Reyndar verð ég að viðurkenna að það var svo líka eitt annað sem aldrei klikkaði, en það var árlega uppákoman þar sem ég og pabbi rifumst yfir forréttinum, sjálfum möndlugrautnum. Matvöndu mér fannst, og finnst reyndar enn, hrísgrjónagrautur vondur og gat ekki skilið hvernig það yfirleitt mætti hafa vondan mat á jólunum. Óréttlætið var algjört því vonda grautnum fylgdi vinningur – möndlugjöf – sem mig langaði auðvitað alltaf mjög í. Og til að eiga séns í möndlugjöfina þurfti maður að borða vonda grjónagrautinn. Pabba fannst að börn ættu einfaldlega að borða það sem var á boðstólnum, líka á jólunum. Og þá byrjaði hið árlega rifrildi, sem stóð reyndar alltaf frekar stutt yfir...en í minningunni er líka hluti af jólahefðinni. Stundum fékk ég reyndar líka svo möndluna, mjög óverðskuldað, þegar elsku mamma einhvern veginn sá til þess. Allar þessar minningar eru svo góðar.
Svo varð ég fullorðin og fór sjálf að halda jól með minni litlu fjölskyldu – mínum manni, dætrum og sonum. Allt skyldi vera fullkomið – jólatréð sett upp á Þorlák, brakandi hreinu rúmfötin á aðfangadag, rjúpurnar, sósan, almennu notalegheitin og alls enginn grjónagrautur. Ég var farin að bera ábyrgð á því að börnin mín myndu eiga sömu góðu jólaminningarnar og ég. Og það var rosaleg ábyrgð. Myndi ég eyðileggja jólaminningar allra ef rjúpnasósan klikkaði, ef við gerðum ekki alltaf allt eins?
Sem betur fer hefur rjúpnasósan aldrei klikkað (sjö-níu-þrettán), hefðirnar halda sér á notalegan hátt og svo er líka eitt og annað sem hefur þróast í jólahaldi okkar fjölskyldunnar í gegnum tíðina sem eru núna orðnar okkar hefðir.
Nú höldum við jólin í þriðja sinn í París – dásamleg frönsk jól með öllu því sem því tilheyrir. Við jólakúlurnar hafa bæst nokkrir glitrandi Effelturnar og Sigurbogar, rauðvínið með rjúpunum er sérvalið af vínkaupmanninum í hverfinu, en fyrir utan það verða frönsku jólin okkar samt aldrei sérstaklega frábrugðin þeim á Garðaveginum. Og það er svo notalegt.
Kær jólakveðja til ykkar kæru lesendur.