Toyota stórsýning 25
Toyota stórsýning 25

Viðskipti

Hlutur Davíðs í Hótel Keflavík kominn í söluferli
Hótel Keflavík.
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
fimmtudaginn 20. febrúar 2020 kl. 03:57

Hlutur Davíðs í Hótel Keflavík kominn í söluferli

Eignarhluti Davíðs Jónssonar í rekstri Hótels Keflavíkur og í fasteignafélaginu JWM, sem á eignina, hefur verið auglýstur til sölu. Á Hótel Keflavík eru 70 herbergi ásamt fimm svítum á Diamond Suites og sjö herbergjum á Gistiheimilinu Keflavík. Hótel Keflavík er fjögurra stjörnu hótel og hefur verið starfrækt frá árinu 1986. Á efstu hæðinni er fimm stjörnu hótelið Diamond Suites sem opnaði fyrir tæplega fjórum árum. Á síðasta ári fengu hótelin m.a. viðurkenningu frá Luxury Travel Guide en þá fékk Hótel Keflavík viðurkenninguna „Luxury Airport Hotel of the Year 2018“ og Diamond Suites fékk viðurkenninguna „Luxury Boutique Hotel of the Year 2018“.

Davíð Jónsson er einn af eigendum Hótels Keflavíkur. Hann segir í samtali við Víkurfréttir að Hótel Keflavík hafi verið leiðandi hótel alveg frá opnun en það var fyrsta hótelið sem var opnað í Keflavík. Með opnun Diamond Suites var svo merkum áfanga náð með opnun fyrsta fimm stjörnu hóteli landsins.

Úr hótelrekstri í hótelbókunarfyrirtæki

Davíð hefur, ásamt eiginkonu sinni, Evu Dögg Sigurðardóttur, snúið sér alfarið að rekstri hótelbókunarfyrirtækisins Hotel Service KEF Airport. Hann segir rekstur þess fyrirtækis hafa gengið vonum framar hingað til.

„Það hefur verið gaman að tilheyra ferðaþjónustunni í gegnum árin og eftir 25 ára starf á Hótel Keflavík þá lá beinast við að halda áfram á svipaðri braut og því létum við gamlan draum verða að veruleika með stofnun Hotel Service KEF Airport. Í október síðastliðnum opnuðum við svo skrifstofu í Eldvörpum fyrirtækjahóteli upp á Ásbrú en sú staðsetning hentar okkur sérstaklega vel því þaðan er stutt á flugvöllinn og auðvelt fyrir okkur að aðstoða flugfarþega, fyrirtæki og einstaklinga að finna gistingu með stuttum fyrirvara,“ segir Davíð.+

Toyota stórsýning 25
Toyota stórsýning 25

Yfir 80% nýting og með því besta sem gerist á landinu

Miklar endurbætur hafa verið unnar á Hótel Keflavík síðustu ár og nú standa yfir viðamiklar framkvæmdir á móttöku hótelsins í Versace-stíl. Nýbúið er að festa kaup á skrifstofuhúsnæði verslunarmannafélagsins á jarðhæð sem gefur mikla framtíðarmöguleika með fjölgun herbergja og bættri fundaraðstöðu. Veitingarstaðurinn KEF Restaurant, sem er í glerskála hótelsins, hefur farið í gegnum miklar breytingar og er nú þegar í efsta sæti yfir bestu veitingastaðina í Keflavík. Stutt er síðan að lögð var lokahönd á nýja og glæsilega álmu á neðstu hæð Hótels Keflavíkur en þá hefur verið tekið í notkun nýtt og endurbætt gistiheimili, Gistiheimilið Keflavík, sem staðsett er á móti Hótel Keflavík.

„Frá upphafi hefur veltan á Hótel Keflavík verið mjög góð en gert er ráð fyrir áframhaldandi góðri veltu á þessu ári. Nýtingin á hótelinu hefur verið um og yfir 80% og er með því besta sem gerist á landinu en gott starf hefur verið unnið í því að kynna Hótel Keflavík og að sækja ný viðskipti út fyrir landsteinana,“ segir Davíð Jónsson.

Davíð Jónsson og Eva Dögg Sigurðardóttir.