Til leigu (Skólamatur)
Til leigu (Skólamatur)

Viðskipti

Gullið glóir hjá Eggerti
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
fimmtudaginn 19. desember 2024 kl. 09:06

Gullið glóir hjá Eggerti

Úra- og skartgripaverslun Georgs V. Hannah í rúma hálfa öld á Hafnargötunni í Keflavík

„Það er alltaf að verða vinsælla að brúðhjónin komi og láti gera nýja hringa úr gömlu trúlofunarhringunum og jafnvel er öðru skarti frá foreldrum eða öðrum ættingjum bætt við,“ segir Eggert Hannah, gullsmiður, en hann rekur skartgripa- og úrabúð fjölskyldunnar á Hafnargötu 49 undir nafninu Georg V. Hannah. Georg, faðir Eggerts, er úrsmiður en Eggert ákvað að feta aðra slóð á atvinnubrautinni og lærði gullsmíði. Tækjakostur á gullsmíðaverkstæði Eggerts er með þeim betri sem finnast hér á landi. Það er þó ekki gullsmíðin sem slík sem tekur inn flestar krónurnar. Mesta salan er í innkeyptu silfurskarti. Eggert þarf samt að fá útrás fyrir sköpunarþrá sína og því smíðar hann mikið af gullskartgripum.

Hálf öld á Hafnargötunni

Verslun í þessu húsnæði á Hafnargötu 49 á sér enn lengri sögu en verslunarsaga Hannah-fjölskyldunnar nær.

„Foreldrar mínir keyptu úrsmiðaverslunina sem var hér árið 1968 en pabbi er úrsmiður. Sú búð var ekki búin að vera lengi starfrækt, bara í nokkur ár en þarna hefst fjölskyldureksturinn og hefur verið allar götur síðan. Fyrstu árin var úrabúð, herrafataverslun og efnalaug hérna á neðstu hæðinni en með tímanum yfirtók verslunin alla neðstu hæðina. Þegar ég keypti reksturinn fyrir tæpum tíu árum hætti ég með alla aðra gjafavöru en úr og skartgripi og var þá búðin minnkuð. Mér fannst það einfalda reksturinn, ég get nánast verið einn hér mestan part ársins en fyrir jólin þarf ég fleiri hendur.

Það er löng saga um úrsmiði í fjölskyldunni, Afi, pabbi, bróðir minn og föðurbróðir eru allir úrsmiðir. Stundum er grínast með að ég hafi farið í vitlausa skólastofu í Iðnskólanum. Ég hefði átt að mæta í tíma í úrsmíði en fór í staðinn í gullsmíðina. Ég var ekki viss hvað ég vildi gera eftir stúdentinn, var að spá í lögfræði en pabbi spurði hvort ég gæti hugsað mér að fara í gullsmíði ef hann kæmi mér að hjá einhverjum í því. Ég væri svo með pottþétta vinnu í búðinni eftir námið. Ég var alveg til í að prófa það og það gekk bara fínt. Það kom aldrei til greina hjá mér að læra úrsmíði. Ég kann best við það að smíða eitthvað með höndunum en það er minni smíði í úrsmíðinni. Sá bransi hefur líka breyst mikið undanfarin ár. Símaúr hafa verið vinsæl og aðallega dýr úr sem eru mekanísk í dag. Það sem vakti fyrir mér þegar ég ákvað að fara í gullsmíði var að vera í viðgerðum á gullskarti. Ég var ekki með neinn metnað fyrir einhverri listsköpun en margir gullsmiðir líta á sig sem listamann en það er bara ekki nógu mikið upp úr því að hafa hér á okkar litla landi. Ég smíða auðvitað nýtt skart líka en ef ég myndi halda samviskusamlega utan um tímann sem fer í hvert skart, og myndi sjá á hvað ég seldi viðkomandi hlut, fengi ég líklega áfall og myndi hætta að hanna og búa til nýtt skart. Að skapa eitthvað nýtt frá grunni er skemmtilegt og heldur manni ferskum í þessum bransa. Mér finnst athyglisvert hvað fólki finnst skartgripir dýrir en sumir þeirra sem ég hanna og sel kosta á við nýjan iphone sem dugir venjulega bara í nokkur ár á meðan skartgripur getur gengið kynslóðanna á milli. Þegar ég smíða eitthvað nýtt þá hef ég gaman af því að hella mér í það og gefa mér góðan tíma. Ég er með dýra muni inn á milli, t.d. armband sem ég smíðaði fyrir tíu árum sem kostar yfir milljón en það fór mikill tími og mikið gull í smíðina. Svona skartgripir seljast ekki oft en munu endast í margar kynslóðir og eru í raun einstakir safngripir og engin hætta á að finna annan svona grip nokkurstaðar.

Mestu viðskiptin í búðinni eru með skartgripi sem ég flyt inn en verðið á þeim er mjög hógvært. Mest kaupi ég í gegnum aðila í Þýskalandi og Danmörku sem eru með mjög góða vöru á góðu verði. Ég legg áherslu á að vera með gott úrval og á góðu verði sem hentar öllum.“

Endurnýting á gulli

Þegar blaðamann bar að garði hjá Eggerti var hann í miðju smíðaverkefni en slík verkefni verða sífellt vinsælli. Þá kemur viðskiptavinurinn með gamalt skart og lætur gera nýtt úr því. T.d. er vinsælt hjá brúðhjónum þegar heitin eru endurnýjuð, að láta gera nýja hringi úr gömlu giftingahringjunum. Einnig er þá oft skarti frá liðnum foreldrum bætt við og þannig getur sá sem ber hringana tengst fyrri kynslóðum.

„Ég geri talsvert af þessu, fólk vill kannski fá öðruvísi giftingarhring en það hefur borið síðustu áratugi en sömu hringarnir samt notaðir. Það er vinsælt að gera nýju hringana veglegri en þá gömlu og jafnvel bæta demöntum í dömuhringinn. Þessi þjónusta er sífellt vinsælli,“ sagði Eggert að lokum.