Viðskipti

Samkaup og Heimkaup sameinast
Fimmtudagur 19. desember 2024 kl. 18:13

Samkaup og Heimkaup sameinast

Undanfarna mánuði hafa Samkaup hf. og Skel fjárfestingarfélag hf. átt í viðræðum um samruna Samkaupa og tiltekinna dótturfélaga SKEL. Þeim viðræðum var slitið í lok október. Í kjölfarið voru skoðuð tækifæri með sameiningu Samkaupa og Heimkaupa og hafa aðilar átt í viðræðum með aðstoð sérfræðiráðgjafar og í samræmi við ákvæði samkeppnislaga. 

Samkaup og Heimkaup hafa skrifað undir samkomulag um helstu forsendur sameiningar félaganna með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins og hluthafafund beggja félaga. Samkaup er yfirtökufélagið og undir rekstri Samkaupa verða því verslanir undir merkjum 10-11, Prís, Extra, auk þriggja þægindaverslana sem reknar eru á þjónustustöðvum Orkunnar. Þá á Heimkaup eignarhlut í veitingafélaginu Clippers ehf. sem m.a. rekur Sbarro. Önnur félög í eigu SKEL á neytendamarkaði, þ.e. Orkan, Lyfjaval og Löður, eru ekki hluti af samrunanum. 

Samruninn er í samræmi við framtíðarstefnu Samkaupa og felur í sér margvísleg tækifæri og breikkar tekjugrunn félagsins. 

Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri Samkaupa:

„Samkaup er yfirtökufélag í þessum samruna og ég er mjög ánægður með þessa niðurstöðu eftir vinnu síðustu missera. Ég er sannfærður um að sameinað félag eigi eftir að gera góða hluti til hagsbóta fyrir neytendur. 

Við sjáum mikil tækifæri í samrunanum sem mun styrkja rekstrarstöðu Samkaupa til lengri tíma en við væntum töluverðar samlegðar í samrunanum. Nettó hefur verið góðri aukningu undanfarið með breyttri verðstefnu og með stækkun verslananetsins mun staða Nettó styrkjast enn frekar. Staða okkar gagnvart birgjum mun styrkjast til muna og samkeppnisstaða okkar á markaði sömuleiðis. Viðskiptavinir okkar munu að sjálfsögðu njóta góðs af því ódýrar en nokkur annar aðili og með innkomu Heimkaupa í samstæðuna sjáum við afar spennandi möguleika til vaxtar.“