Viðskipti

Rífandi gangur í framkvæmdum í Svartsengi
Frá vinstri: Ásta Ósk Stefánsdóttir, staðarstjóri Ístaks, Sunna Björg Helgadóttir, framkvæmdastjóri tæknisviðs, Rafn Magnús Jónsson, yfirverkefnisstjóri SVA7 og Tómas Már Sigurðsson, forstjóri. Myndir/Aron Ingi Gestsson.
Laugardagur 14. desember 2024 kl. 06:29

Rífandi gangur í framkvæmdum í Svartsengi

Kostnaður við stækkun og endurbætur orkuversins í Svartsengi 12 milljarðar. Gangsetning áætluð síðla árs 2025.

Þótt náttúruöflin á Reykjanesi hafi boðið upp á ýmsar áskoranir á árinu sem senn er á enda hafa framkvæmdir við stækkun og endurbætur jarðvarmaversins í Svartsengi gengið vel. Um 90 manns vinna nú dag hvern að framkvæmdinni en fyrsta skóflustungan var tekin fyrir sléttum tveimur árum. Verkið er nánast á áætlun en óhjákvæmilegar tafir vegna jarðhræringa, eldgosa og gasmengunar hafa að stærstum hluta verið unnar til baka þökk sé samhentu átaki og góðri samvinnu allra sem að verkinu koma. Heildarkostnaður við framkvæmdirnar er áætlaður um tólf milljarðar króna og er stefnt að gangsetningu virkjunarinnar síðla árs 2025.

Fjöldi stórra og smárra verktaka

Flestir starfsmannanna eru á vegum aðalverktakanna Ístaks, Rafal og HD en fjöldi annarra verktaka og undirverktaka koma að málum. Verkís hannar virkjunina, Lota fer með forritun á stjórnkerfi og Ellert Skúlason ehf sá um jarðvinnu. Fyrirtækin Dip Work, LBC, Stjörnublikk, Topplagnir, Ari Oddsson ehf og JRS koma einnig að þessari miklu framkvæmd. Sjö starfsmenn HS Orku vinna að staðaldri við utanumhald verksins en Strendingur fer með bygginga- og verkefnisstjórn mannvirkja.

Orkuver í sjö áföngum

Í daglegu tali gengur framkvæmdin undir nafninu Svartsengi 7 (SVA7) sem vísar til þess að hér er um að ræða sjöunda jarðvarmaverið sem reist er í Svartsengi en hið fyrsta var tekið í notkun árið 1976, tveimur árum eftir að Hitaveita Suðurnesja, forveri HS Orku, var stofnuð. Nýja orkuverið leysir af hólmi tvö af eldri orkuverunum auk þess sem framkvæmdin felur í sér umtalsverðar endurbætur á ýmsum búnaði sem lýtur að heitavatnsframleiðslu fyrirtækisins. Stefnt er að því að með stækkuninni aukist raforkuframleiðslugetan í Svartsengi um allt að þriðjung en framleiðslugetan er í dag um 66 MW.

Boðið í aðventukaffi

Um miðja síðustu viku bauð HS Orka öllum sem koma að verkinu í morgunkaffi í tilefni aðventunnar og smellti ljósmyndarinn Aron Ingi Gestsson meðfylgjandi myndum af hópnum. Það var glatt yfir mannskapnum enda vinnst hratt undan hópnum og farið er að glitta í lokatakmarkið þrátt fyrir allskyns andstreymi af náttúrunnar völdum síðastliðna þrettán mánuði.