Samkaup
Samkaup

Viðskipti

Ótvíræður sigurvegari á Íslensku vefverðlaununum
Laugardagur 23. febrúar 2013 kl. 10:16

Ótvíræður sigurvegari á Íslensku vefverðlaununum

- Vefhönnunarfyrirtækið Kosmos & Kaos úr Reykjanesbæ verðlaunað

Vefhönnunarfyrirtækið Kosmos & Kaos úr Reykjanesbæ var ótvíræður sigurvegari á Íslensku vefverðlaununum sem fram fóru fyrir skömmu. Kosmos & Kaos fékk sjö tilnefningar og hreppti þrjú verðlaun – þar af aðalverðlaunin fyrir hönnun á besta íslenska vefnum 2012, heimasíðu Bláa lónsins. Einnig fékk fyrirtækið verðlaun fyrir besta útlit og viðmót á heimasíðu Bláa lónsins og fyrir hönnun á besta sölu- og kynningarvefnum, wow.is.

„Þetta er mikill heiður fyrir okkur. Það er einnig mikið ánægjuefni að við fáum verðlaun fyrir besta íslenska vefinn sem er vefur Bláa lónsins. Það er Suðurnesjafyrirtæki og við unnum þann vef í samvinnu við Dacoda í Reykjanesbæ. Þetta er fín viðurkenning fyrir þennan geira í Reykjanesbæ,“ segir Guðmundur Sigurðsson, annar eigandi Kosmos & Kaos.

Stofnaði fyrirtækið í hruninu
Fyrirtækið var formlega stofnað árið 2010 af þeim Guðmundi Sigurðssyni og Kristjáni Gunnarssyni. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru á Hafnargötunni í Reykjanesbæ og er fyrirtækið í mikilli sókn.
„Mér var sagt upp árið 2008 í hruninu og ákvað þá að stofna mitt eigið fyrirtæki. Ég var einn í tvö ár þar til að við Kristján sameinuðum krafta okkar undir nafninu Kosmos & Kaos. Fyrirtækið er nýorðið tveggja ára,“ segir Guðmundur en hvernig útskýrir hann þennan skjóta árangur fyrirtækisins?
„Við erum klárir og góðir í því sem við gerum og þess vegna er leitað til okkar. Við ætlum að halda áfram á sömu braut og gera flottustu síðurnar hér á landi.“

Leita að starfsfólki
Nokkur stór fyrirtæki hafa sett sig í samband við Kosmos & Kaos eftir gott gengi á Íslensku vefverðlaununum. Guðmundur vill ekki segja hvaða fyrirtæki það eru sem falast eftir kröftum Kosmos & Kaos en segir að þau séu stór.

„Við vorum að gera áframhaldandi samning um að vinna áfram með Bláa lóninu og erum svo að gera nýjan vef fyrir WOW. Við erum að leita að fólki – hönnuðum og forriturum til að slást í hópinn. Það er mikið af verkefnum framundan,“ segir Guðmundur. Hann er borinn og barnfæddur Keflvíkingur og er glaður að geta fært góða fréttir af svæðinu.

„Þennan landshluta vantar sárlega góðar fréttir. Þó við séum með skifstofur á tveimur stöðum þá eru höfuðstöðvar fyrirtækisins í Reykjanesbæ og verður alltaf þannig. Það er gaman að sjá hvað fyrirtækið hefur stækkað mikið frá því að ég byrjaði einn fyrir rúmum fimm árum.“