Aðsent

Hvað erum við að spá og hvar er verið að forgangsraða?
Miðvikudagur 11. september 2024 kl. 09:52

Hvað erum við að spá og hvar er verið að forgangsraða?

Eins og allir landsmenn vita þurftu Grindvíkingar að yfirgefa heimili sín þann 10. nóvember síðastliðinn og þar á meðal voru um fimm hundruð börn sem sóttu skóla í Grindavík. Mörg þeirra rufu skólagöngu sína vegna búsetu, kvíða, flutninga og annarra ástæðna.

Nú er haustið farið af stað og undirrituð er deildarstjóri stoðþjónustu í Stapaskóla sem staðsettur er í Reykjanesbæ en margir sem voru með lögheimili í Grindavík þann 10. nóvember sl. hafa fest búsetu á Suðurnesjum og reyndar á víð og dreif um landið.

Þá er komið að stóru spurningunni: „Hver er að fylgja öllum þessum börnum eftir?“ Hvar er eftirfylgnin (önnur en að skanna pappíra á milli skóla) og láta það gott heita? Við erum svo heppin í mínum skóla að ég get leiðbeint, komist að og fundið ýmislegt út en margir skólar búa ekki svo vel. Ég starfaði nefnilega í Grunnskóla Grindavíkur [GG] og fylgdi mörgum nemendum eftir, bæði í leik og starfi og þekki þau mörg hver vel, ásamt því að þekkja kennara þeirra vel, jú og foreldra líka.

Hvar er verið að hugsa um að það fylgi börnunum eitthvað meira en skannaðir pappírar og hvert á að leita annað en í þjónustuteymi sem sér um að skanna á milli skóla – sem þekkir nota bene börnin ekki neitt og hefur litlar upplýsingar aðrar en þeir pappírar sem liggja í skápum inni í Tollhúsi. Sjálf hafði ég samband við skóla sonar míns og engir pappírar höfðu borist þangað frá Grindavíkurbæ en þá voru tvær vikur liðnar af skólastarfinu. Vissulega eru þetta fordæmalausir tímar en við verðum að hugsa aðeins hraðar þegar kemur að börnunum okkar og hlúa betur að þeim. Eða þannig var að minnsta kosti talað í allri hringiðunni sem átti sér stað fyrr á árinu.

Foreldrar eiga að vera upplýsingagátt barnanna sinna en það eru ekki allir foreldrar á þeim stað að þeir hreinlega átti sig á hvað þeir eigi að gera þegar kemur að skólasókn barnanna sinna eða hvaða upplýsingar þeir eigi að gefa skólanum. Sumir foreldrar eru ennþá í áfallinu sem dundi yfir þá 10. nóvember og eru að reyna að halda sér og fjölskyldunni sinni á floti – einn dag í einu. Sum börn hafa skipt um skóla fjórum sinnum eða oftar og það er hægt að segja það með fullri vissu að börn úr Grunnskóla Grindavíkur misstu mikið úr skóla, félagslegum samskiptum, atlæti og fleiru síðasta skólaár. Þau eru hópur sem við þurfum að fylgjast vel með og beita aðferðum sem tengjast áföllum og læra að lesa í líðan þeirra. Þau eru líka ennþá í áfalli og eru ennþá að reyna að átta sig á breyttum aðstæðum – því þau eru bara börn.

Við þurfum að grípa börnin strax og sem fagmanneskja get ég ekki skilið það af hverju það var enginn einn eða fleiri eftir sem starfaði í GG sem fylgdi börnunum eftir á milli skóla í samskiptum til að koma upplýsingum á milli skóla, því jú kennarar og starfsmenn GG eru nefnilega líka á víð og dreif um landið og starfa hér og þar og alls staðar. Vita allir foreldrar að það er hægt að sækja um sálfræðiaðstoð, styrki og fleira? Vita allir foreldrar hvað er í boði? Ég er ekki viss um að börn af erlendum uppruna eða foreldrar þeirra viti til dæmis hvaða þjónusta er í boði, ég vona það svo sannarlega en ég er alls ekki viss. Við verðum að gera betur og forgangsraða á réttum stöðum, verjum peningum í börnin og framtíð þeirra, við getum nefnilega opnað bæinn seinna, það mun gerast en forgangsröðum rétt.

Rannveig Jónína Guðmundsdóttir,
deildarstjóri stoðþjónustu í Stapaskóla.