Toyota stórsýning 25
Toyota stórsýning 25

Aðsent

Markviss uppbygging íþróttamannvirkja í Reykjanesbæ samfélaginu til heilla
Föstudagur 10. janúar 2025 kl. 06:05

Markviss uppbygging íþróttamannvirkja í Reykjanesbæ samfélaginu til heilla

Ein af stærstu áskorunum í minni embættistíð sem formaður Íþrótta- og tómstundaráðs var að fylgja eftir þróun og uppbyggingu íþróttamannvirkja í bænum. Með stækkandi og þéttbýlla samfélagi er brýn og aðkallandi þörf á betri og fjölbreyttari íþróttaaðstöðu í bæjarfélaginu.

Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar sem lögð var fram til samþykktar í desember gerir ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu í núverandi umhverfi. Er það fyrst og fremst að þakka ábyrgri og skynsamri fjármálastjórn. Á sama tíma er gert ráð fyrir mikilli uppbyggingu mannvirkja og þróunarsvæða og enn betri umgjörð fyrir íþrótta-, tómstunda-, æskulýðs- og menningarstarf. Án þessarar ráðdeildar í rekstri bæjarins hefði þessi uppbygging  sem orðin er og sú sem fyrirhuguð er ekki verið möguleg.

IceMar-höllin og sundlaugarmannvirki í Innri-Njarðvík

Í því samhengi er IceMar-höllin, sem við opnuðum í Reykjanesbæ, stolt okkar allra. Þetta mannvirki er ekki aðeins íþróttahöll heldur líka samfélagslegur miðpunktur í Innri-Njarðvíkur hverfinu sem styrkir bæði íþróttir og félagsstarf á því svæði sem og í öllu bæjarfélaginu.

Toyota stórsýning 25
Toyota stórsýning 25

Nú í vor munum við svo opna sundlaugaraðstöðuna í Höllinni, sem mun enn frekar bæta þjónustu við iðkendur íþrótta og aðgang allra í samfélaginu að aðstöðu sem eflir heilsuþrótt og vellíðan. Þessar framkvæmdir eru hluti af heildarstefnu meirihlutans í bæjarstjórn til að bæta lífsgæði íbúa og gera Reykjanesbæ að enn þá betri stað til að búa á.

Íþróttamannvirki og aðstaða við Afreksbraut

Sögulegt samkomulag stærstu íþróttafélaga bæjarins, Keflavík og Njarðvík varð að veruleika fyrir nokkrum misserum. Samkomulagið miðar að því að byggð verði upp glæsileg aðstaða fyrir knattspyrnulið félaganna og verður hún staðsett við Afreksbraut. Ég segi sögulegt því að með þessu samkomulagi er tryggt að byggð verður upp ein glæsilegasta aðstaða landsins til knattspyrnuiðkunar og keppni. Undirbúningsvinna er hafin og varið var 50 milljónum króna á síðasta ári til undirbúnings og grunnhönnunar mannvirkjanna sem þarna eiga að rísa. Það er vert að það komi skýrt fram að þessi glæsilegu mannvirki sem þarna munu rísa munu ekki einungis hýsa knattspyrnuna heldur einnig Fimleikadeild Keflavíkur og bardagaíþróttir sem stundaðar eru í sveitarfélaginu. Þessar framkvæmdir munu því einnig hafa gríðarlega jákvæð áhrif á starf og iðkun hjá þessum íþróttadeildum.

Undirbúningshópur hóf störf í ágúst síðastliðnum og hefur fundað þétt. Grundvallaratriði í vinnu þess hóps og það sem ég sem formaður ÍT-ráðs lagði mikla áherslu á, að aðkoma fulltrúa íþróttafélaganna sem um ræðir, að verkinu sé frá fyrstu stundu og allt til loka þess. Það vita engir betur en þeir sem lifa og hrærast dag hvern í þessum málum hvað þarf til, svo nýting og gæði mannvirkjanna verði sem allra best út frá þörfum þeirra sem eiga að nýta þau.

Í nóvember síðastliðnum var svo stigið risaskref varðandi það hversu hratt þessar framkvæmdir geta gengið. Það skref fólst í því að með nýjum samningum við ríkið sem og skipulagsbreytingum mun lóðin við Sunnubraut 35, sem hefur verið nefnd Akademíu-reiturinn, þróast hratt. Með því hefur byggingarmagn verið aukið úr 20.000 fermetrum í allt að 54.600 fermetra. Þar verður lögð áhersla á íbúðir fyrir eldri borgara, verslun og þjónustu. Áætlað er að allt að 120 íbúðir verði byggðar á reitnum. Stýrihópur hefur nú þegar verið stofnaður til að leiða verkefnið. Þær tekjur sem fást munu í gegnum þessar framkvæmdir m.a. fara til uppbyggingar fyrrgreindra íþróttamannvirkja og gera bæjaryfirvöldum kleift að hraða mjög þeirri mikilvægu uppbyggingu sem er vel.

Önnur uppbygging og viðhald íþróttamannvirkja í sveitarfélaginu

Mikið hefur verið lagt í umbætur á sundlauginni okkar. Nýir pottar, rennibrautir og fyrirhugaðar framkvæmdir á búningsklefum laugarinnar hefur og mun stórbætta aðstöðu til sundiðkunar og heilsueflingar almennings í bæjarfélaginu. Á innlaugarsvæðinu hafa svo verið keyptir bekkir fyrir áhorfendur sem mun gjörbreytta aðstöðu sundfélagsins okkar til mótahalds.

Eins hófust framkvæmdir í desember við útskipti á gervigrasinu í Nettó-Höllinni sem var komið til ára sinna og beinlínis að verða hættulegt iðkendum. Þeim framkvæmdum mun ljúka nú í janúar.

Fjármagni hefur einnig verið veitt til uppbyggingar og eflingar starfs í íþróttahúsinu við Sunnubraut sem og í Akademíunni þar sem lagt hefur verið talsvert fé í endurnýjun búnaðar hjá Fimleikadeild Keflavíkur.

Nú í vor verður svo ráðist í að bæta aðstöðu á núverandi knattspyrnusvæði Njarðvíkur þar sem bráðabirgða aðstaða sem sett var upp á sínum tíma er komin vel til ára sinna og er algjörlega óboðleg iðkendum knattspyrnudeildarinnar. Þær framkvæmdir þola enga bið og algjörlega óforsvaranlegt að bíða þar til ný aðstaða mun rísa við Afreksbraut þó gert sé ráð fyrir því að þær framkvæmdir geti gengið hratt og örugglega.

Fleira mætti tína til sem núverandi meirihluti í bæjarstjórn sem og stjórn Íþrótta- og tómstundaráðs hafa gert til að bæta núverandi aðstöðu til íþróttaiðkunar í bæjarfélaginu. En öll sú vinna hefur einkennst af miklum metnaði.   

Áframhaldandi áskoranir og tækifæri

Reykjanesbær stendur á tímamótum. Lagður hefur verið mikilvægur grunnur að enn frekari uppbyggingu íþróttamannvirkja í sveitarfélaginu í mikilvægri og góðri sátt við íþróttafélögin í bæjarfélaginu. Meirihlutinn hefur sett sér háleit markmið í þróun íþrótta- og tómstundastarfs og erum við á réttri leið í þá átt að gera bæinn að fyrirmyndarsveitarfélagi  hvað þessi mál varðar. Sveitarfélagi sem önnur sveitarfélög á landinu munu horfa til þegar þau skipuleggja sitt íþrótta- og tómstundastarf til framtíðar. Ég er sannfærður um við munum ná fram markvissum framförum og að Reykjanesbær verði þekktur fyrir að bjóða öllum íbúum upp á frábær tækifæri til íþróttaiðkunar og þá jafnframt til vaxtar og þroska, í anda jafnréttis og samheldni.

Ég er stoltur af starfi mínu sem formaður ÍT-ráðs þau síðastliðnu tvö ár sem ég gegndi því embætti. Með mér í ráðinu starfaði einvala lið og höfum við náð góðum árangri í að styrkja enn frekar íþrótta- og tómstundastarf í íþróttabænum okkar. Þó ég hafi látið af embætti formanns þá brenn ég fyrir þessum málum og mun leggja gjörva hönd á að fylgja eftir þeim góða árangri sem núverandi meirihluti hefur náð á kjörtímabilinu því vegferðin til enn betri vegar er rétt að hefjast og framundan eru mikilvæg verkefni sem öll miða að því að gera Reykjanesbæ leiðandi á sviði íþrótta- og tómstundamála á landsvísu. Því þar eigum við heima! 

Friðþjófur Helgi Karlsson
Höfundur er fv. formaður íþrótta- og tómstundaráðs Reykjanesbæjar.