Aðsent

Hafa skal það sem sannara reynist
Föstudagur 27. desember 2024 kl. 11:57

Hafa skal það sem sannara reynist

Í Víkurfréttum þann 18. desember síðastliðinn birtist skilmerkileg grein frá Anton Guðmundssyni, oddvita Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ. Þar er stiklað á stóru um bæjarmálin í Suðurnesjabæ og þar er af ýmsu að taka eins og skilja má í ört stækkandi sveitarfélagi. Það er hins vegar farið frjálslega með ýmsar staðreyndir í greininni og því get ég, sem oddviti S-listans í Suðurnesjabæ og formaður bæjarráðs, ekki annað en brugðist við.

Tvær samhljóma tillögur um gervigrasvöll

Á meðal þess sem Anton tæpir á eru málefni gervigrasvallar í sveitarfélaginu, en mikið ákall hefur verið eftir slíkum velli af hálfu knattspyrnufélaganna Reynis og Víðis mörg undanfarin ár, bæði fyrir og eftir sameiningu Sandgerðis og Garðs. Á 67. fundi bæjarstjórnar þann 6. mars síðastliðinn lagði S-listinn, þá í minnihluta í bæjarstjórn, fram eftirfarandi tillögu:

„S-listinn leggur til við bæjarstjórn að staðsetning gervigrasvallar verði á aðalvellinum í Sandgerði.
Allir nauðsynlegir innviðir eru til staðar á aðalvellinum í Sandgerði eins og til dæmis 340 manna stúka, salernisaðstaða fyrir áhorfendur, vélageymsla og plássgott félagsheimili.
Auk þess leggur S-listinn til að starfshópur um uppbyggingu íþróttamannvirkja verði skipaður hið fyrsta, geri þarfagreiningu og skili af sér tillögum um uppbyggingu til næstu ára.
Starfshópurinn hafi það að leiðarljósi að jafnræðis skuli gætt milli byggðakjarna sveitarfélagsins þegar kemur að frekari uppbyggingu íþróttamannvirkja.“

Málið var þannig afgreitt að tillögunni var vísað til umfjöllunar í bæjarráði.

Það var svo um tveimur mánuðum síðar eða á 143. fundi bæjarráðs þann 29. maí að fulltrúar B- og D-lista, meirihlutans þáverandi í bæjarráði, lögðu fram eftirfarandi tillögu:

„Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að íþróttamannvirkið gervigrasvöllur í Suðurnesjabæ fyrir bæði lið sveitarfélagsins verði reist á aðalvellinum í Sandgerði. Allir nauðsynlegir innviðir eru til staðar á aðalvellinum í Sandgerði eins og til dæmis 340 manna stúka, salernisaðstaða fyrir áhorfendur, vélageymsla og plássgott félagsheimili.

Auk þess leggur bæjarráð til að starfshópur um uppbyggingu íþróttamannvirkja sem þegar hefur verið skipaður af bæjarráði geri þarfagreiningu og skili af sér tillögum um uppbyggingu íþróttamannvirkja til næstu ára.

Starfshópurinn hafi það að leiðarljósi að jafnræðis skuli gætt milli byggðakjarna sveitarfélagsins þegar kemur að frekari uppbyggingu íþróttamannvirkja.

Bæjarráð þakkar verkfræðistofunni Verkís ásamt starfsmönnum Suðurnesjabæjar fyrir þeirra framlag í málinu.“

Tillagan var samþykkt, fulltrúar meirihlutans greiddu að sjálfsögðu atkvæði með tillögunni. Fulltrúi S-listans var áheyrnarfulltrúi á þessum tíma og hafði ekki atkvæðisrétt.

Sláandi líkindi eru með tillögu S-listans annars vegar og tillögu fulltrúa fyrrverandi meirihluta hins vegar en S-listinn mun afsala sér höfundarréttarlaunum að þessu sinni enda tillagan skrambi góð.

Meirihluti springur

Sú atburðarrás sem hófst í kjölfar þessa bæjarráðsfundar er flestum kunn sem láta sig sveitarstjórnarmál í Suðurnesjabæ varða. Á 70. fundi bæjarstjórnar þann 5. júní síðastliðinn var tillaga meirihluta bæjarráðs varðandi staðsetningu gervigrasvallar samþykkt með fimm atkvæðum gegn fjórum. 

Síðar á sama fundi gerðist sá fáheyrði atburður að fulltrúar B-listans greiddu atkvæði á móti þeirri tillögu að Anton Guðmundsson, oddviti B-listans, yrði formaður bæjarráðs. Mér er til efs um að slíkt hafi áður gerst á byggðu bóli. Strax að fundi loknum sprakk meirihlutinn, samstarfi Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks lauk með hvelli. 

Nýr meirihluti og oddviti Framsóknarflokksins afþakkar sæti í bæjarráði

Í kjölfarið var myndaður sex manna meirihluti D-, O- og S-lista. Á aukafundi bæjarstjórnar þann 11. júlí síðastliðinn var svo skipað að nýju í nefndir og ráð, þar á meðal í bæjarráð. 

Í samræmi við hlutfallskosningu átti að fara fram hlutkesti um þriðja mann í bæjarráði, meirihlutinn átti tvo fyrstu aðalmenn og þriðji maður í bæjarráði féll að jöfnu milli meirihluta og B-lista. Oddvita B-lista var tilkynnt um að þessi staða væri uppi nokkrum dögum fyrir bæjarstjórnarfundinn. Daginn fyrir bæjarstjórnarfundinn ákvað meirihlutinn að bjóða B-listanum sæti þriðja aðalmanns í bæjarráði, ekki væri þörf á hlutkesti, og með þessu móti yrði bæjarráð skipað tveimur fulltrúum meirihlutans og einum fulltrúa B-listans. Okkur til mikillar undrunar afþakkaði oddviti B-listans sæti aðalmanns í bæjarráði. Boðið var ítrekað rétt áður en fundurinn hófst en ennþá var boðið afþakkað af oddvita B-listans. Mér er til efs um að annað eins hafi áður gerst í sveitarstjórnasögu þjóðarinnar að kjörinn fulltrúi afþakki jafn sjálfsagt boð og slík afstaða er ekki til þess fallin að nýta kjör sitt til að hafa áhrif á bæjarmálin. Fyrir kaldhæðni örlaganna tapaði B-listinn hlutkestinu og fékk því aðeins sæti áheyrnarfulltrúa í bæjarráði. Það skýtur því skökku við að oddviti B-listans hefur hvað eftir annað teiknað sig upp sem píslarvott og haldið því fram að það sé hneisa að hann hafi einungis fengið sæti áheyrnarfulltrúa í bæjarráði. Sannleikurinn er sagna bestur segir einhvers staðar og Framsóknarmenn vita upp á sig skömmina hvað þetta varðar.

Ístöðuleysi minnihlutans í vinnu við gerð fjárhagsáætlunar

Fíaskóið hélt svo áfram. Á síðasta fundi bæjarstjórnar þann 11. desember síðastliðinn var fjárhagsáætlun 2025 og þriggja ára áætlun 2026–2028 lögð fram til seinni umræðu. Þar var meðal annars lögð fram gjaldskrá Sandgerðishafnar til samþykktar. Hún var samþykkt með sex atkvæðum meirihlutans, þrír fulltrúar minnihlutans sátu hjá. Sem er svo sem ekki saga til næsta bæjar nema fyrir þær sakir að fulltrúar B-listans höfðu áður samþykkt gjaldskrá Sandgerðishafnar á fundi Hafnarráðs þann 26. nóvember síðastliðinn, þar á meðal oddvitinn sjálfur. Þá var sagan ekki öll. Fulltrúar minnihlutans greiddu að lokum atkvæði gegn fjárhagsáætlun þegar hún var lögð fram til samþykktar. 

Í bókun sinni við málið báru þeir því meðal annars við að ekki hefðu þeir haft næga aðkomu að vinnslu fjárhagsáætlunar. Sem er hjákátlegt í ljósi þess að sami háttur var hafður á fjárhagsáætlunarvinnunni fyrstu tvö ár kjörtímabilsins. Ístöðuleysi fulltrúa B-listans er æpandi en að sjálfsögðu hef ég þá trú að öllum kjörnum fulltrúum bæjarstjórnar Suðurnesjabæjar gangi gott eitt til.

Þess má til gamans geta að fjárhagsáætlun 2025 lítur vel út, framlegðin er áætluð 11%, handbært fé yfir 600 milljónir króna og skuldaviðmið stefnir í að verða tæplega 64% sem er langt undir 150% hámarkinu ásamt því að ákvæði þriggja ára jafnvægisreglu í rekstri er uppfyllt.

Byggt undir öflugt íþróttastarf í Suðurnesjabæ

Aftur að málefnum gervigrasvallar. Í málefnasamningi nýs meirihluta segir meðal annars:

„Unnið verði eftir áður samþykktri tillögu um uppbyggingu gervigrasvallar á aðalvelli Reynis.“

Á 153. fundi bæjarráðs þann 29. október síðastliðinn lögðu Knattspyrnufélagið Reynir og Knattspyrnufélagið Víðir hins vegar óvænt fram eftirfarandi tillögu:

„Nýr upphitaður gervigrasvöllur með flóðlýsingu verði staðsettur á gamla malarvelllinum í Garði og verði skilgreindur sem vetraraðstaða til æfinga og keppni í knattspyrnu. Lögð er áhersla á að framkvæmdir við gervigrasvöll vinnist eins hratt og hægt er, þannig að hann verði tilbúinn til notkunar fyrir veturinn 2025/2026.“

Bæjarráð samþykkti tillöguna, þar sem félögin óskuðu eftir þessu sameiginlega og framkvæmdir við völlinn í Sandgerði ekki hafnar. Það hefðu verið undarleg vinnubrögð að fara gegn vilja félaganna, enda hefur verið kallað eftir sameiginlegri tillögu þeirra í þessu máli allt frá því nýtt sveitarfélag var stofnað.

Að fundi loknum undirrituðu formenn félaganna ásamt bæjarstjóra viljayfirlýsingu um stofnun nýs íþróttafélags í Suðurnesjabæ, þessi gamalgrónu félög hyggjast sameina krafta sína, iðkendum framtíðar til heilla. Aðalfundir félaganna munu svo hafa úrskurðarvaldið um hvort þær fyrirætlanir nái fram að ganga eður ei.

Afgreiðsla bæjarráðs var svo samþykkt á fundi bæjarstjórnar þann 6. nóvember síðastliðinn og var afgreiðsla málsins með þessum hætti:

„Samþykkt að staðfesta afgreiðslu bæjarráðs, með þeim fyrirvara að iþróttafélögin samþykki að stofnað verði nýtt íþróttafélag eins og fram kemur í viljayfirlýsingu Suðurnesjabæjar, Knattspyrnufélagsins Reynis og Knattspyrnufélagsins Víðis.“

Það er því þannig að fari svo að fyrirhuguð stofnun nýs félags gangi ekki eftir mun fyrri ákvörðun bæjarstjórnar standa og gervigrasvöllur mun rísa á aðalvelli Reynis í Sandgerði.

Framtíðin er björt í Suðurnesjabæ

Það er bjart framundan í Suðurnesjabæ, tekjustofnar eru heilbrigðir og innviðir eru sterkir. Það er ávallt krefjandi að láta allt ganga upp í rekstri sveitarfélaga því kröfur íbúa eru eðlilega miklar. En það eru öll tækifæri til staðar í Suðurnesjabæ til að ná frábærum árangri með samheldni allra kjörinna fulltrúa, starfsmanna og íbúa. Markmiðið er að veita sem besta þjónustu með sem hagkvæmustum hætti, það er og verður alltaf hið endanlega takmark okkar sem störfum á þessum vettvangi.


Ég færi ykkur öllum bestu óskir um gleðilegt nýtt ár.

Sigursveinn Bjarni Jónsson

Oddviti S-listans og formaður bæjarráðs í Suðurnesjabæ