Aðsent

Hvað skiptir máli fyrir þau?
Föstudagur 23. júlí 2021 kl. 08:17

Hvað skiptir máli fyrir þau?

Lengi vel hef ég velt fyrir mér hvers vegna við leggjum meiri áherslu á suma þætti umfram aðra í kennslu barna í grunnskóla. Ég veit að ég er fjarri því að vera eina manneskjan sem veltir því fyrir sér. Erum við raunverulega að leggja áherslu á það sem er mikilvægt? Erum við hugsanlega að leggja of ríka áherslu á þætti sem ekki eru nauðsynlegir öllum börnum? Er það sem við kennum virkilega það allra besta veganesti sem völ er á fyrir börnin okkar og samfélagið allt? Eða má gera breytingar? 

Ég hugsa reglulega um hvaða mögulegu breytingar gætu átt sér stað í samfélaginu ef við myndum leggja töluvert meiri áherslu á félags- og samskiptafærni barna. Hvað ef kennsla í sjálfsþekkingu, samskiptum og félagsfærni væri það sem fengi hvað mestan tíma innan stundatöflunnar? Verkefni í tengslum við listir, sköpun, kynfræðslu, samfélagsfræði, tungumál og raungreinar myndu síðan fléttast inn í þessa þætti. Aðaláherslan væri á að hjálpa börnum að læra inn á sig og sína styrkleika og hvernig þau gætu átt í jákvæðum samskiptum við aðra. Með því værum við að hjálpa þeim að takast á við önnur verkefni í skólanum. Þessi sjálfsþekking og félagslega hæfni væri þá ekki það sem kæmi í kjölfar kennslu á þeim hefðbundu fögum sem við þekkjum, heldur væri öfugt farið. Markviss kennsla í samskiptum og sjálfsþekkingu væri þá lykillinn að því að börnin gætu blómstrað í annars konar verkefnum í skólanum.

Því meira sem ég hugsa um þetta, því fleiri spurningar sækja á mig. Mig langar að fá að spyrja þig nokkurra þeirra. Hvað heldur þú að mörg börn hefðu gott af því að læra betur á eigin tilfinningar og líðan? Hvað telur þú að mörg börn eigi eftir að takast á við krefjandi verkefni í lífinu? Hvað heldur þú að það gagnist mörgum börnum að verða öruggari í samskiptum? Ég tel að svarið við þessum spurningum sé einfalt. Öll. Öll börn. 

Það er sjaldnast skynsamlegt að alhæfa en ég held ég geti sagt með nokkurri vissu að öll börn hafi gott af því að aukin áhersla sé lögð á bætt samskipti og sjálfsþekkingu. Það er því nauðsynlegt að þjálfa og kenna þessa þætti. Við þurfum ekki að láta þau geta í allar eyður og giska hvernig eigi að haga sér í ákveðnum aðstæðum. Þau þurfa ekki að finna út úr þessu öllu sjálf, við getum aðstoðað þau og leiðbeint með meira afgerandi hætti en við höfum áður gert. Ég tel að það eigi aðeins eftir að hafa jákvæð áhrif á líf þeirra, því það eru þessir  þættir sem gera okkur hæfari í að takast á við þær áskoranir sem á vegi okkar verða.

Öll börn munu þurfa að takast á við erfiðleika og áskoranir, bæði persónulegar og félagslegar. Það ætti því að gefa auga leið að ef við þjálfum hjá þeim samskipta- og vinafærni, þá mun það koma þeim til góða. Það mun ekki einungis gagnast börnunum okkar, hér og nú, heldur mun það vera öllu samfélaginu okkar til góða til framtíðar litið. Ég á í raun erfitt með að skilja hvers vegna við gefum þessum þáttum ekki meira vægi innan stundatöflunnar. Með því að leggja enn ríkari áherslu á þá þætti sem öll börn munu koma til með að geta nýtt sér í framtíðinni aukum við líkurnar á því að þau geti fylgt á eftir draumum sínum. 

Að þessu sögðu langar mig að umorða spurningarnar mínar sem ég lagði fram hér að ofan. Hvað heldur þú að margir fullorðnir einstaklingar hefðu gagn af því að þekkja betur eigin tilfinningar? Hvað heldur þú að það myndi gagnast mörgum fullorðnum einstaklingum í dag að vera öflugri í samskiptum? Ég tel að það myndi gagnast flestum fullorðnum, langflestum. 

Því spyr ég aftur, erum við með áherslurnar á réttum stöðum?

Elva Dögg Sigurðardóttir.
Höfundur er tómstunda- og félagsmálafræðingur og skipar 4. sæti á lista Viðreisnar í Suðurkjördæmi.