Aðsent

Indíana Jónsdóttir – minning
Föstudagur 10. janúar 2025 kl. 06:43

Indíana Jónsdóttir – minning

Hún Día er farin heim. Þessi kveðjuorð skátanna finnst mér eiga við er maður ritar fátækleg orð til minningar um góðan vin. Indíana Jónsdóttir og Gunnar Mattason voru með þeim fyrstu sem við Hulda kynntumst er við fluttum til Keflavíkur, ungt fólk með lítil börn sem léku sér saman.

Við Gunni tókum snemma upp á að spjalla og áður en við vissum vorum við komnir upp á fjöll þar sem við áttum eftir að ferðast með fjölskyldur okkar árum saman. Día og Hulda tóku börnin að sjálfsögðu með í för. Þær voru báðar miklar handprjónakonur og iðulega voru ferðirnar mældar í lopapeysum, einnar eða fleiri peysu ferð. Smám saman fjölgaði börnum okkar sem jafnóðum voru tekin með í allar ferðir. Það var ekki auðvelt að veltast um í þröngum Land Rover jeppa með öll börnin. Ég man eftir að Día var spurð um hvernig hún nennti að fara með Gunna í allar þessar ferðir en svarið var „Það sem Gunnar fer, fer ég“.

Er Björgunarsveitin Stakkur var stofnuð tóku þau Día og Gunnar fullan þátt í starfi hennar. Síðar voru þau í hópi þeim er eignaðist tvo snjóbíla til vetrar ferða um hálendi og jökla en í þeim ferðum voru börn okkar iðulega tekin með. Þau Gunni eignuðust síðar Toyota jeppabifreið sem notuð var til fjölda fjallaferða með okkur Huldu, Árna Ólafs og Fríðu, Ragga bakara og Ásdísi ásamt ýmsum fleirum.

Á fyrstu búskaparárum þeirra vann Gunnar hjá Vegagerðinni víðsvegar um landið en við þau störf hlaut hann viðamikla þekkingu á landinu sem hann miðlaði til okkar úr ótrúlegum minnisbanka sínum, þekkti hvern stein og hverja þúfu.

Þau Día, Gunni og börn hafa reynst mér og mínum góðir vinir í gegnum lífið þar sem, við höfum átt ótal hressilegar samveru og ánægjustustundir. Þau eignuðust hjólhýsi með aðsetri í Þjórsárdal sem þau nutu mjög til fjölda ára, þar eignuðust þau marga góða vini sem haldið hafa tryggð lengi vel.

Ferðahópurinn 1313 var stofnaður af fyrrum félögum Bjsv. Stakkur og þar tóku þau mikinn þátt í frá upphafi en í 36 ár kom hann saman.  Eitt sinn fórum við í vélsleðaferð upp á Grímsfjall í Vatnajökli, þau Día og Gunni, Ragnar og Ásdís ásamt okkur Huldu, ævintýraferð  á tímum fátíðra slíkra ferða. Þau voru einnig þátttakendur í hópi sem tók upp á því að blóta þorra upp fjöllum til margra ára. Þar var mikið sprellað og gleði haldið hátt á lofti, jeppast um ísi þakið landið og farið í fjórhjólaferð. Landmannalaugar, Þórsmörk og þar með talið Básar voru ávallt í sérstöku uppáhaldi hjá okkur öllum og því óteljandi ferðir okkar þangað.

Eftir miklar breytingar urðu á lífi mínu reyndust þau Día og Gunnar mér einstaklega vel og sannir vinir. Seinni árin höfum við ásamt Öllu vinkonu minni ferðast mikið saman á húsbílum okkar sem hafa veitt okkur mikla gleði og ánægju. Ég er Díu og Gunna ævinlega þakklátur fyrir hlutdeild þeirra í lífi mínu og hve margar gæðastundir þau hafa veitt okkur Aðalheiði í góðu ferðalögunum okkar saman.

Við Alla sendum Gunnari og börnum innilegar samúðarkveðjur.

Garðar Sigurðsson og Aðalheiður Jónsdóttir.