Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Kirkja fólksins velur sóknarprest
Keflavíkurkirkja.
Miðvikudagur 25. febrúar 2015 kl. 13:25

Kirkja fólksins velur sóknarprest

 

Nú eru tímar mikilla breytinga í Keflavíkursókn. Séra Skúli hefur verið sóknarprestur í áratug en er nú á leið í Vesturbæinn í Reykjavík og fyrir liggur að velja þarf nýjan sóknarprest í kirkjuna. Samkvæmt reglum um val á prestum er tekið mið af lögum um val á opinberum embættismönnum og skiptir þá sköpum hversu lengi umsækjendur hafa þjónað og hvaða menntun þeir hafa aflað sér. Síður er litið til þess hvort fólk hyggst búa í sókninni, hvaða sýn það hefur á þjónustuna og hversu öflugt og kraftmikið það kann að vera við að efla kirkjulegt starf og þjóna samfélaginu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Okkur Keflvíkinga og raunar íbúa í Reykjanesbæ skiptir miklu máli að rétt manneskja verði valin sem sóknarprestur við Keflavíkurkirkju. Mestu máli skiptir að þau sem eru þar í forystu hafi ákveðna sýn sem þau fylgja til hlítar söfnuðinum öllum til farsældar. 

Keflavíkurkirkja hefur frá upphafi verið kirkja fólksins. Sjálfboðaliðar hafa þar gegnt mikilvægu hlutverki og í raun verið í burðarhlutverki. Fer vel á því að fólkið taki með beinum hætti þátt í því að velja sér prest. Það er mögulegt samkvæmt reglum um val á presti en þá þarf minnst þriðjungur atkvæðisbærra sóknarbarna að setja nafn sitt á undirskriftarlista þar sem farið er fram á almennar kosningar. 

Við erum í engum vafa um það hvaða manneskja mun vera best til þess fallin að vera sóknarprestur við Keflavíkurkirkju. Það er séra Erla Guðmundsdóttir sem hefur sýnt það og sannað þann tæpa áratug sem hún hefur starfað við Keflavíkurkirkju að þar býr öflugur leiðtogi með sterkt Suðurnesjahjarta sem slær í takti við samfélagið. Séra Erla hefur byggt upp kraftmikið og markvisst æskulýðsstarf, hún hefur komið að stuðningi við syrgjendur og er órjúfanlegur þáttur þeirrar hugmyndafræði sem Keflavíkursókn starfar eftir.

Við hvetjum Keflvíkinga til að sameina krafta sína og fara fram á að almennar prestkosningar fari fram í sókninni. Þá getum við sjálf valið okkur manneskju, óbundin af þeim reglum sem gilda um val á opinberum embættismönnum. Kirkja fólksins á að fá að velja sér þann prest sem þar á að þjóna. Séra Erla er sannarlega prestur fólksins.​

Axel Jónsson

Anna Sigríður Jóhannesdóttir

Guðmundur Steinarsson

Gunnhildur Vilbergsdóttir

Konráð Lúðvíksson