Kjósendur verða að taka í taumana
Skoðanakannanir um fylgi flokka eru ekki geimvísindi en sé rétt að þeim staðið má draga af þeim ákveðnar ályktanir. Ýmsar kannanir sýnast vera á sömu lund, að við taki eftir kosningar ríkisstjórn Samfylkingar og Viðreisnar með hjálpardekki.
Hver átti von á þessu? Hvað hafa þessir flokkar unnið til að njóta trausts kjósenda? Báðir eru einsmálsflokkar. Viðreisn er stofnuð um aðild að ESB. Samfylkingin teflir fram einu stefnumáli, skattahækkunum. Hvor flokkur um sig er líklegur til að taka undir stefnumál hins.
Evrópusambandið einkennist á þessu méli af efnahagslegri hnignun og uppdráttarsýki. Hagvöxtur er í lægð en atvinnuleysi, ekki síst meðal ungs fólks, er í hæstu hæðum. Skriffinnskubákn mannað af fólki án umboðs kjósenda stýrir móverkinu. Hvaða erindi eiga Íslendingar inn í þetta apparat til að taka við tilskipunum sem miðast að hagsmunun Þjóðverja og Frakka en ekki okkar. Sæti við borðið? Hvaða borð? Við höfum ekki fólksfjölda til að tryggja okkur nein áhrif sem orð væri á gerandi í þessu batteríi.
Samfylkingin virðist líta á skattahækkanir sem sjálfstætt markmið, það verði að hækka skatta til að hækka skatta. Hækka skatta er boðorðið. Engin virðing fyrir sjálfsaflafé vinnandi fólks, það sé með réttu hirt í ríkissjóð í botnlausa eyðslu þar sem engin áform eru um að hafa taumhald á. Aðhald, forsjálni, hófsemi, nei ekkert af þessu kemst á dagskrá. Kynnt er að sögn metnaðarfull stefna í heilbrigðismálum en ekki þarf nema lauslega skoðun til að sjá að þetta eru leiktjöld utan um skattahækkanir yfir a.m.k. tvö kjörtimabil. Miðað við uppgefnar tölur um hlutfalll nýrra skatta af heildarframleðslu þjóðarbúsins má ætla að áform í þessu skyni nemi a.m.k.400 milljörðum á tveimur kjörtímabilum. Til að fá hvað? Aðgang að heimilislækni og heimilisteymi, hvað sem það er, en fátt sagt um nauðsynlega uppbyggingu hjúkrunarheimila fyrir þjóð sem eldist hratt.
Ríkisstjórn þessara flokka væri ekki líkleg til að hafa þau tök á ríkisfjármálum til að tryggja lækkun vaxta sem er stærsta hagsmunamál fólks í yngri kantinum sem leitast við að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Því síður væri slík ríkisstjórn líkleg til að verja íslenskt samfélag fyrir öfugþróun með taumlausum innflutningi fólks af fjarlægum slóðum.
Kjósendur mega sjá teiknin á lofti. Vilji þeir verja íslenskt samfélag verða þeir að koma í veg fyrir ríkisstjórn þessara tveggja flokka, sem sýnt hafa ágæti sitt í borgarstjórn Reykjavíkur sem glímir við alvarleg fjárhagsvandræði og upplausn í skipulagsmálum.
Eina viðspyrnan sem dugir er Miðflokkurinn. Atkvæði greitt Miðflokknum tryggir árangur. Kjósendur eiga síðasta orðið.
Ólafur Ísleifsson
Höfundur skipar 3. sætið á framboðslista Miðflokksins í Suðurkjördæmi.