Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Megináherslur Aðalskipulags Reykjanesbæjar 2020–2035
Mánudagur 4. apríl 2022 kl. 11:12

Megináherslur Aðalskipulags Reykjanesbæjar 2020–2035

Endurskoðað aðalskipulag Reykjanesbæjar 2020-2035 er komið í auglýsingu og kynningu, íbúafundur hefur verið haldinn í Hljómahöllinni –  upptöku af honum og allar upplýsingar um aðalskipulagið má finna á reykjanesber.is – og í þessari viku verða fjórir fundir í hverfum bæjarins.

Ég hvet sem flesta til að kynna sér aðalskipulagið og greinargerð þess sem er brimafull af upplýsingum um bæinn okkar og hvernig við sjáum hann vaxa. Hægt er að gera athugasemdir við skipulagið fram til 6. maí.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Samtal um skipulag

Boðað var til íbúaþings við upphaf endurskoðunar aðalskipulagsins og í framhaldinu voru haldnir íbúafundir í öllum hverfum bæjarins þar sem gott samtal átti sér stað og góðar hugmyndir komu fram.

Stýrihópur vann svo úr framkomnum hugmyndum og ábendingum íbúa og vinnslutillaga að aðalskipulaginu var kynnt í haust, m.a. með kynningarfundi í streymi á netinu.

Fjölmargir bæjarbúar hafa sent inn ábendingar og athugasemdir sem hafa skilað sér til stýrihópsins sem vinnur að endurskoðun aðalskipulagsins.

Aðalskipulagstillagan hefur tekið breytingum í öllu þessu ferli enda margar góðar hugmyndir og gagnlegar ábendingar komið frá íbúum.

Jafn og þéttur vöxtur

Megináherslur núgildandi aðalskipulags voru vel ígrundaðar í síðustu endurskoðun og vilji kom fram á íbúaþinginu og íbúafundunum sem haldnir voru í byrjun til þess að halda áfram á þeirri braut og skerpa og skýra línurnar. Megináherslurnar eru þessar:

  • Þétting byggðar
  • Áhersla á hönnun bæjarrýmis, yfirbragð hverfa og bygginga
  • Endurskipulagning vannýttra svæða
  • Vinna með séreinkenni svæðisins og styrkja uppbyggingu
  • Skapa lifandi og skemmtilegan miðbæ
  • Fjölbreyttari, greiðari og öruggari samgöngur

Bærinn okkar er í vexti, síðustu tvö haustin hafa t.d. Samtök iðnaðarins talið tæplega 300 íbúðir í byggingu í Reykjanesbæ og eftirspurn eftir íbúðum er mikil enda hér gott að búa – samfélagið gott og bærinn okkar vel rekinn síðustu átta árin.

Í aðalskipulaginu sem nú liggur fyrir er stefnt að jafnri uppbyggingu og gert ráð fyrir að mögulegt verði að byggja 5.000 íbúðir í bænum á skipulagstímanum, bæði á þéttingarreitum og í nýjum hverfum.

Þá stendur til að breyta nokkrum athafnasvæðum sem eru inni í byggðinni, eins og t.d. Bolafætinum og stórum hluta Vatnsnessins, í miðsvæði þar sem íbúabyggð og þjónustu er blandað saman.

Við Njarðvíkurhöfn og Skipasmíðastöðina eru lagðar til breytingar í takt við áhugaverð uppbyggingaráform þar, útivistarparadísin á Fitjum er stækkuð og svigrúm búið til við norðurenda Fitja fyrir heilsuhótel með baðlóni.

Í tillögunni að aðalskipulaginu er lagt til að iðnaðarsvæðið í Helguvík verði minnkað, fastar er kveðið á um mengunarkröfur og áhersla lögð á iðnað sem samræmist íbúðarbyggð. Stór hluti iðnaðarsvæðisins í Helguvík á að breyta í athafnasvæði sem geti m.a. nýst til matvælaframleiðslu þegar þynningarsvæði álversins rennur út 31. desember 2024.

Öruggar og greiðar samgöngur

Vexti bæjarins og sú staðreynd að Reykjanesbær er orðinn fjórða fjölmennasta sveitarfélagið á landinu fylgja nýjar áskoranir. Mikilvægt er að tryggja í aðalskipulaginu öruggar og greiðar tengingar bæjarins við Reykjanesbraut og allt sé klárt til að tvöfalda brautina alveg að Leifsstöð.  Áfram er gert ráð fyrir sérrými fyrir almenningssamgöngur hvort sem það sé fyrir lest eða „Keflavíkurlínu“ og lagt er til að Reykjanesbrautin verði sett í stokk frá Fitjum og upp í Grænás sem felur í mikla möguleika t.d. á að tengja bæinn okkar betur saman.

Eitt af því sem okkur er mjög umhugað um er umferð og umferðarstreymi um bæinn og öryggi gangandi og hjólandi, sérstaklega öruggar gönguleiðir að skólum. Í samvinnu við Vegagerðina var unnið umferðarlíkan fyrir Reykjanesbæ sem nýtt er til þess að endurskoða og endurskipuleggja umferðina og verkfræðistofan Efla greindi gönguleiðir að skólum og unnið er að úrbótum samkvæmt þeirri greiningu.

Vinna við aðalskipulagið fólst líka í því að móta bænum stefnu í mikilvægum málum. Umhverfis- og skipulagsráð og framtíðarnefnd unnu saman að því að móta metnaðarfulla umhverfis- og loftslagsstefnu fyrir bæinn okkar sem bæjarstjórn hefur staðfest og unnið er að samgöngustefnu Reykjanesbæjar sem verður einnig hluti af aðalskipulaginu eins og umhverfis- og loftslagsstefnan. Sérstaklega verður litið til þess hvernig að auðvelda umhverfisvænni samgöngumáta eins og t.d. samgönguhjólreiðar og vinna við hjólreiðaáætlun er hafin.

Hverfafundir – og skipulagsrölt 9. apríl

Hér hef ég aðeins tæpt því helsta sem fellst í tillögunni að endurskoðuðu aðalskipulagi. Ég vil hvetja sem flesta til að kynna sér skipulagið, tími er til 6. maí til að koma með athugasemdir og ábendingar áður aðalskipulagið fer fyrir bæjarstjórn til endanlegrar afgreiðslu.

Tillagan liggur fyrir á vefsíðu bæjarins og verður kynnt á íbúafundum í hverfunum í þessari viku. Fundir hefjast kl. 19.30 og er áætlað að þeim ljúki kl. 21.00.

Mánudag 4. apríl í Stapaskóla í Innri Njarðvík
Þriðjudag 5. apríl í Heiðarskóla í Keflavík
Miðvikludag 6. apríl í Háaleitiskóla á Ásbrú
Fimmtudag 7. apríl í Gamla skólahúsnu í Höfnum

Og svo er ykkur líka boðið í næsta skipulagsröltið mitt sem verður laugardagann 9. apríl þar sem við skoðum miðbæinn frá Saltgeymslunni við Keflavíkurhöfn eftir Hafnargötunni niður í Gróf og förum yfir mörg skemmtileg verkefni, sem sum eru alveg að komast á framkvæmdastig, og veltum fyrir okkur hugmyndum og pælingum sem uppi eru. Röltið hefst kl. 13 frá Saltgeymslunni, að ofanverðu, - öll velkomin.

Eysteinn Eyjólfsson,
formaður umhverfis- og skipulagsráðs og formaður Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ.