Toyota stórsýning 25
Toyota stórsýning 25

Aðsent

Sjálfstæðisflokkurinn hefur tryggt orkuöryggi á Suðurnesjum
Fimmtudagur 28. nóvember 2024 kl. 09:44

Sjálfstæðisflokkurinn hefur tryggt orkuöryggi á Suðurnesjum

Suðurnesjamenn hafa orðið fyrir gríðarlegum áhrifum af margítrekuðum eldgosum síðastliðin ár, sem nú telja heilan tug á þremur árum. Þessi eldsumbrot og afleiðingar þeirra eru fordæmalausar og við sjáum því miður ekki fyrir endann á þeim. Jarðhræringarnar hafa ógnað byggð, atvinnurekstri og orkuöryggi á svæðinu, þar sem um 10% þjóðarinnar býr.

Mikilvæg vernd innviða

Frá því jarðhræringarnar hófust hefur gríðarlega mikil vinna farið í að undirbúa mótvægisaðgerðir, fyrst og fremst til að verja orkuöryggi á Suðurnesjum og byggð á svæðinu. Þær aðgerðir hafa verið margþættar en einna umfangsmest er uppbygging varnargarða. Í þeirri uppbyggingu hef ég lagt áherslu á að verja orkuverið í Svartsengi og byggðina í Grindavík. Varnargarðarnir er einstakir á heimsvísu og hafa átt stóran þátt í því að tryggja orkuöryggi á Suðurnesjum, en uppbygging þeirra hófst fyrir um ári síðan en undirbúningur hafði staðið í nokkur ár. Hefur þrotlausri vinnu og um 10 ma.kr. verið varið til byggingu garðanna. Sú upphæð sem stjórnvöld hafa lagt til uppbyggingu varnargarðanna bliknar þó í samanburði við það tjón sem varnargarðarnir hafa varnað. Tjón sem ellegar hefði orðið á öllum Suðurnesjum með röskun á orkuafhendingu og tjóni á byggð í Grindavík.

Samhliða uppbyggingu varnargarðanna hefur verið unnið að því að verja orkuinnviði og finna vara-orkuuppsprettu fyrir Suðurnesin til að mæta því ef illa fer í Svartsengi. Hitaveitulagnir hafa verið varðar betur fyrir hraunflæði, rafmagnsmöstur hafa verið hækkuð, varaafl hefur verið sett upp við mikilvæga samfélagslega innviði, t.d. sjúkrahús, og leitað hefur verið að varainnviðum til að mæta mögulegum áföllum í Svartsengi. Sú leit hefur skilað okkur Rockville borholunni sem verður góð viðbót við jarðhita á Suðurnesjum, og verður tekin í notkun strax á nýju ári, sem og varavatnsbóli fyrir stóran hluta Suðurnesja í Árnarétt í Suðurnesjabæ.

Toyota stórsýning 25
Toyota stórsýning 25

Ég vil þakka öllum þeim komið hafa að uppbyggingunni - þar á meðal verkfræðingum, iðnaðarmönnum og starfsfólki almannavarna, slökkviliða og veitufyrirtækja. Það er mikil gæfa fyrir íslenskt samfélag að eiga svo öflugt lið eins og það sem hefur unnið sleitulaust síðasta árið við að verja innviði okkar og tryggja orkuöryggi á Suðurnesjum.

Sjálfstæðisflokkurinn fremstur í flokki

Mikilvægt er að halda staðreyndum til haga og staðreyndin er sú að Sjálfstæðismenn hafa staðið fremstir í flokki á sviði orkumála og tekið stórar og erfiðar ákvarðanir með hagsmuni samfélagsins að leiðarljósi.

Sjálfstæðisflokkurinn leggur höfuðáherslu á orkuöryggi landsmanna og við höfum beitt okkur markvisst fyrir því á síðastliðnu kjörtímabili. Við munum halda því áfram.

Jarðhræringarnar á Suðurnesjum hafa verið áminning um þá áskorun sem náttúran getur lagt á samfélag okkar, en þau hafa líka sýnt styrk og útsjónarsemi samfélagsins og þeirra sem standa að verndun og uppbyggingu innviða. Sjálfstæðisflokkurinn hefur sýnt forystu á þessum sviðum, tekið mikilvægar ákvarðanir og staðið vörð um lífsgæði og öryggi íbúa Suðurnesja. Þann 30. nóvember næstkomandi stendur valið um áframhaldandi trausta forystu í þessum mikilvægu málum.

Kjósum Sjálfstæðisflokkinn – fyrir öfluga vernd innviða, sterkt samfélag og tryggt orkuöryggi fyrir alla landsmenn.

Guðrún Hafsteinsdóttir,
dómsmálaráðherra og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi