Aðsent

Tómas Tómasson - minning
Föstudagur 4. apríl 2008 kl. 13:46

Tómas Tómasson - minning

Þann 28. mars síðastliðinn lést Tómas Tómasson. Mig langar að minnast Tómasar með nokkrum orðum. Margt störfuðum við Tómas saman. Þar fór mest fyrir því að við vorum báðir 24 ár í bæjarstjórn Keflavíkur, þar af 12 ár í bæjarráði. Lengst af þessum tíma var Tómas forseti bæjarstjórnar. Fram að því er Tómas var tilnefndur til forseta bæjarstjórnar hafði ekki tíðkast að minnihluti styddi kjör forseta en fljótlega fór svo að allir kusu Tómas til forseta, jafnt minnihluti sem meirihluti. Það segir allt sem segja þarf um forsetastörf hans. Hann var maður sátta og samstarfsvilja og hann á sinn góðan þátt í því að vel yfir 90% mála voru afgreidd samhljóða í bæjarstjórn á þeim tíma. Þótt við værum á öndverðum meiði í pólitík þróaðist traust og góð vinátta okkar á milli og hygg ég að sjaldgæft sé að „höfuðandstæðingar“ í pólitík verði eins góðir vinir og við Tómas urðum. Hann var mikill áhugamaður um sameiningu sveitarfélaga á Suðurnesjum. Ekki varð að því í okkar tíð en ég held að góður grunnur hafi verið lagður. Tómas var sparisjóðsstjóri í Sparisjóðinum í Keflavík þegar illa áraði fyrir Sparisjóðinum. Lipurð hans og velvilja í því starfi var viðbrugðið. Við starfslok skilaði hann góðu búi. Við vorum félagar í Lionsklúbbi Keflavíkur. Hann var einn stofnenda klúbbsins og fyrsti formaður. Hann tók alla tíð virkan þátt í starfsemi klúbbsins og mætti næstum á alla fundi. Þar, sem annarsstaðar, lagði hann gott til mála. Ég tel víst að margir munu rekja feril Tómasar svo að ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég vil að lokum þakka Tómasi innilega fyrir samfylgdina og alla hans hlýju og velvild í garð mín og minna. Ég bið góðan Guð að styrkja og styðja Hædý og fjölskyldu þeirra nú þegar Tómas kveður.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Lifið heil
Ólafur Björnsson


Kveðja frá starfsmannafélagi Sparisjóðsins í Keflavík

Að leiðarlokum langar okkur að þakka Tómasi fyrir allan þann hlýhug sem hann hefur sýnt okkur í gegnum árin. Mörg okkar áttu því láni að fagna að starfa með honum í hartnær 19 ár. Hann sýndi starfsfólkinu ávallt áhuga og bar virðingu fyrir okkur og okkar hag. Tómas var hlýr maður. Hann gleymdi aldrei að þakka starfsfólkinu fyrir vel unnin störf og hikaði ekki við að verja okkur ef honum fannst óréttlátlega að okkur vegið. Á aðalfundum Sparisjóðsins stóð Tómas alltaf upp og hélt frábærar ræður blaðlaust. Við eigum eftir að sakna þess að hlusta ekki lengur á hann þar og eins að fá hann ekki í heimsókn til okkar í Sparisjóðinn. Létt faðmlag, bros og "hvernig hefurðu það", þannig heilsaði hann okkur. Innilegar samúðarkveðjur sendum við Hædý, börnum Tómasar og öðrum aðstandendum. Góður maður er fallinn frá.