Heklan
Heklan

Aðsent

Hvers eiga húseigendur að gjalda?
Föstudagur 7. febrúar 2025 kl. 06:09

Hvers eiga húseigendur að gjalda?

Nýlega barst til okkar húseigenda í Reykjanesbæ álagningarseðill fasteignagjalda fyrir árið 2025. Mér var brugðið þegar ég sá fjárhæðina! En fyrir mitt raðhús þarf ég nú að greiða 540 þúsund krónur á ári til sveitarfélagsins án vatnsgjalds. Þegar betur er að gáð má sjá að fasteignaskatturinn er 217 þúsund, lóðarleiga er 163 þús, fráveitugjald er 87 þúsund og sorpþjónusta er 70 þúsund krónur. Það kann að vera erfitt að segja til um hvað sé sanngjarnt að greiða til sveitarfélagsins fyrir að eiga húseign, en e.t.v. er sanngjarnt að bera það saman við nágrannasveitarfélög af sambærilegri stærð, eins og t.d. Garðabæ, Hafnarfjörð og Kópavog. Ég gróf upp húseign í Garðabæ með sama fasteignamati og mitt raðhús og fann þá út að þar myndi ég aðeins greiða 350 þúsund fyrir sömu gjaldaliði. Þannig greiði ég 190 þúsund krónum meira, eða 54% hærri fasteignagjöld fyrir mína eign en ég hefði þurft að greiða ef ég væri búsettur í Garðabæ! Það finnst mér óhóflega mikill mismunur og fróðlegt væri að vita hvernig sveitarfélgið okkar skýrir þennan mismun.

Til að fullvissa mig hvort þetta væri eins í öðrum sveitarfélögum gróf ég upp gjaldskrá sambærilegra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, n.tt. Garðabæ, Kópavog og Hafnarfjörð. Það staðfestir að álagning fasteignaskatts er 15–56% hærri, álagning lóðarleigu er 275–355% hærri og loks álagning fráveitu-/holræsagjalds er 8–73% hærri í Reykjanesbæ.

Hvað ætli skýri þennan gríðarlega mismun á milli þess sem við húseigendur í Reykjanebæ þurfum að greiða fyrir húsnæði okkar?  Er gjald fyrir afnot af lóð undir húsin okkar í alvöru þrisvar til fjórum sinnum dýrara en á höfuðborgarsvæðinu? Þetta er allavega óhóflega mikill munur og ástæða til að óska eftir skýringum á því sem liggur að baki þessum mismun?

Sigurður Garðarsson