Aðsent

Ráðningarstyrkir: Vinnumálastofnun í samstarfi við atvinnurekendur
Föstudagur 7. febrúar 2025 kl. 06:44

Ráðningarstyrkir: Vinnumálastofnun í samstarfi við atvinnurekendur

Á Suðurnesjum er atvinnuleysi enn áskorun sem kallar á samvinnu milli atvinnurekenda og Vinnumálastofnunar. Með fjölbreyttri þjónustu og stuðningi leitast Vinnumálastofnun við að skapa flóru atvinnutækifæra, hvort sem það er fyrir almenna atvinnuleitendur, atvinnuleitendur með skerta starfsgetu eða flóttamenn. Með þessari samvinnu stuðlum við að öflugri vinnumarkaði.

Vinnumálastofnun býður atvinnurekendum upp á að skrá störf á „Mínum síðum“ atvinnurekenda, (Fyrirtæki | Vinnumálastofnun), þar sem hægt er að fá aðstoð við leit að starfsfólki á Íslandi og EES-svæðinu með aðstoð EURES. Atvinnuráðgjafar okkar vinna að því að skrá störf, auglýsa þau og senda ferilskrár beint til atvinnurekenda. Þjónustan okkar er einstaklingsmiðuð og sniðin að þörfum fyrirtækja og auk þess er hún gjaldfrjáls.

Ráðningarstyrkur er eitt af vinnumarkaðsúrræðum Vinnumálastofnunar. Þetta úrræði opnar á fjölmörg tækifæri fyrir atvinnuleitendur og styður atvinnurekendur við að auka möguleika á vinnumarkaði. Með ráðningarstyrknum geta atvinnuleitendur fengið aukin tækifæri til að komast inn á vinnumarkaðinn, á meðan atvinnurekendur fá stuðning til að fjölga störfum og skapa ný tækifæri. Styrkurinn getur numið allt að 406.858 krónum á mánuði og er veittur í allt að sex mánuði. Styrkurinn jafngildir grunnatvinnuleysisbótum ásamt mótframlagi í lífeyrissjóð.

Við hvetjum atvinnurekendur til að nýta sér þessa þjónustu, skrá störf í gegnum heimasíðuna okkar og sýna samfélagslega ábyrgð með því að skapa ný tækifæri. Hin fjölbreytta samsetning starfsmannahópsins eflir ekki aðeins fyrirtækið í innra starfi heldur bætir einnig ímynd þess út á við. Ávinningurinn er mikill fyrir alla aðila, atvinnurekendur fá áhugasama starfsmenn og með því stuðlum við að sterkari samfélagslegri heild.

Til að fá frekari upplýsingar, vinsamlegast hafið samband við okkur á netfangið [email protected].

Fyrir hönd Vinnumálastofnunar,

Guðbjörg Gerður Gylfadóttir,
forstöðumaður þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar á Suðurnesjum