Toyota stórsýning 25
Toyota stórsýning 25

Aðsent

Við erum sterkir málsvarar Suðurnesja
Fimmtudagur 28. nóvember 2024 kl. 09:46

Við erum sterkir málsvarar Suðurnesja

Suðurnesin eru einstakt samfélag með gríðarleg tækifæri og gegnir lykilhlutverki í þróun Íslands. Svæðið er miðpunktur alþjóðlegra samgangna, býr yfir einstökum náttúruauðlindum og fjölbreyttu atvinnulífi sem hefur verið burðarás í íslensku hagkerfi. Við þurfum að efla þessa grunnstoðir enn frekar og tryggja að Suðurnesin verði áfram leiðandi afl á landsvísu. Til þess þarf skýra framtíðarsýn og sterka málsvara sem setja hagsmuni svæðisins í forgang. Framsókn hefur undanfarin ár unnið að því að bæta lífsskilyrði á Suðurnesjum, með sérstakri áherslu á heilbrigðisþjónustu, orkuöryggi, húsnæðismál og nýsköpun.

Bylting í heilbrigðisþjónustu

Heilbrigðisþjónustan á Suðurnesjum hefur tekið stórstígum framförum á síðustu árum og þjónustan verið efld.

  • Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS), sem fagnar 70 ára afmæli, hefur gengið í gegnum umfangsmiklar endurbætur:
  • Slysa- og bráðamóttaka var stækkuð úr 90 fermetrum í 300 fermetra, sem hefur aukið afkastagetu og bætt vinnuaðstöðu. Ný röntgendeild með háþróuðum tækjum hraðar greiningarferlum og styður betri ákvarðanatöku. Endurbætt sjúkradeild með 19 nútímalegum rýmum veitir meiri þægindi og öryggi fyrir sjúklinga. Geðheilsuteymið fékk nýtt húsnæði, sem bætir aðgengi og eflir þjónustu við geðheilbrigðismál.
  • Einkarekna heilsugæslan Höfði hefur einnig styrkt heilsugæslu á svæðinu, með þjónustu við stóran hóp og starfar hún samkvæmt nýju fjármögnunarmódeli fyrir heilsugæslur á landsbyggðinni.

Þessar umbætur eru skýrt dæmi um hvernig markviss stefnumörkun getur leitt til betri lífsgæða og aukins öryggis íbúa.

Toyota stórsýning 25
Toyota stórsýning 25

Orkuöryggi – grunnur að stöðugleika og sjálfbærni

Orkuöryggi Suðurnesja er lykilatriði fyrir þróun svæðisins og lífsgæði íbúa. Svæðið stendur frammi fyrir miklum áskorunum vegna náttúruhamfara og stjórnmálamenn verða að ráðast í aðgerðir fyrir svæðið sem gera ráð fyrir verstu útkomunni, það er að fyrr eða síðar gjósi í Svartsengi.

Halla Hrund Logadóttir, oddviti Framsóknar í Suðurkjördæmi leiddi þá vinnu að stórum hluta sem orkumálastjóri og sem þingmaður kjördæmisins mun hún hvergi slá af kröfum sínum fyrir varnaraðgerðir í þágu Suðurnesja.

Þrátt fyrir áskoranir hefur verið unnið markvisst að því að draga úr áhættu og styrkja innviði á Suðurnesjum:

  • Varavatnsból við Árnarétt í Garði: Nýtt varavatnsból tryggir vatnsöryggi í tilfelli hraunflæðis eða skemmda á vatnsæðum.
  • Samráð og neyðarviðbrögð: Orkustofnun hefur unnið með almannavörnum, HS Orku og HS Veitum að áætlunum til að tryggja vatns- og hitaveitu í verstu aðstæðum.
  • Nýjar borholur: Nýjar borholur hafa verið boraðar til að auka nýtingu jarðhita og styrkja stöðugleika hitaveitunnar.
  • Hvað þarf að gera – langtímalausnir fyrir Suðurnes
  • Suðurnesjalína 2: Koma þarf þessu lykilverkefni úr kæruferli og framkvæmd til að styrkja raforkuflutning innan svæðisins og milli virkjana.
  • Öflugri neyðarbúnaður: Fjárfesta þarf í varaleiðum og búnaði til að mæta hugsanlegum neyðartilvikum.
  • Langtímalausnir fyrir orkuöryggi: Halda þarf áfram þróun nýrra jarðhitakosta á Reykjanesi og tengja hitaveitukerfi við fleiri orkulindir til að tryggja sjálfbærni og öryggi.

Hraðari uppbygging á Ásbrú – 800 nýjar íbúðir

Húsnæðismál hafa verið áskorun á Suðurnesjum þó mjög mikið hafi verið byggt en Framsókn mun auka aðgang að hlutdeildarlánum og innleiða skattalega hvata til þess að auka framkvæmdir enn frekar. Með samvinnu ríkisins og Reykjanesbæjar er nú unnið að því að reisa allt að 800 nýjar íbúðir á Ásbrú á næstu þremur árum enda felast veruleg tækifæri í aukinni nýtingu lands í eigu ríkisins.

Slíkar framkvæmdir tryggja hagkvæmari húsnæðiskosti fyrir fjölskyldur og einstaklinga og styrkja Suðurnesin enn frekar sem eftirsóknarverðan búsetukost.

Nýsköpun og fjölbreytt atvinnulíf

Suðurnesin hafa einstaka möguleika á sviði nýsköpunar og atvinnuuppbyggingar. Jarðhiti og staðbundnar auðlindir eru lykillinn að því að byggja sjálfbært hagkerfi.

Þróun jarðhita og glatvarma gerir kleift að framleiða iðnaðar- og heilbrigðisvörur, auk þess sem gróðurhúsarækt getur skapað ferskar landbúnaðarvörur fyrir íslenskan og alþjóðlegan markað.

Framsókn hefur stutt við nýsköpunarverkefni og staðið vörð um Uppbyggingarsjóð Suðurnesja og mun áfram stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi og sjálfbærni.

Fyrirsjáanleiki í húsnæðislánum

Til að styðja við íbúðakaupendur leggur Framsókn áherslu á innleiðingu óverðtryggðra húsnæðislána að norrænni fyrirmynd á næsta kjörtímabili. Frá því að Sigurður Ingi tók við stjórnartaumunum í fjármála- og efnahagsráðuneytinu hefur hann lagt mikla áherslu á að horft verði á efnahagsmálin út frá hagsmunum heimilana og var vinna sett strax í gang um útfærslu sem mun klárast eftir áramót. Markmið slíkra lána er að bæta aðgengi að húsnæðislánum með stöðugleika í greiðslubyrði. Slík lán eiga að tryggja:

  • Stöðuga greiðslubyrði, sem veitir fjölskyldum fjárhagslegt öryggi og fyrirsjáanleika um mánaðarmót.
  • Lægri vexti, sem auðveldar ungu fólki að hefja sín fyrstu húsnæðiskaup.
  • Lækkun greiðslubyrði heimila lækkar verulega sem mun auka ráðstöfunartekjur og draga úr fjárhagslegu álagi.
    Dæmi: Greiðslubyrði af 50 m.kr. húsnæðisláni, óverðtryggt með 5% föstum vöxtum, lækkar úr 481 þúsund kr. á mánuði m.v. frá því áður en vaxtalækkanir hófust í haust, í 292 þúsund kr. Samtals væri árlegur sparnaður upp á 2,2 milljónir króna.

Öruggari landamæri og löggæsla

Framsókn hefur unnið að breytingum á lagaumgjörð er snýr að málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd og telur mikilvægt að Ísland sé með áþekka löggjöf og hin norðurlöndin. Það er áhyggjuefni ef hugmyndir eru uppi um að einangra málaflokkinn við Suðurnesin í stað þess að dreifa álagi um landið eins og Framsókn hefur talað fyrir. Framsókn vill stórefla landamæragæslu, löggæslu og tollgæslu til þess að takast á við skipulagða glæpastarfsemi. Mikilvægur þáttur þess er að auka fjárveitingar og bæta starfsaðstæður bæði með nýrri lögreglustöð auk þess að uppfæra þarf aðstöðu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar án tafar.

Framtíð Suðurnesja – með Framsókn

Framsókn er öflugur málsvari Suðurnesja og hefur í forystu sinni lagt áherslu á heilbrigðisþjónustu, orkuöryggi, húsnæðismál og nýsköpun. Með markvissri stefnu og öflugri framkvæmd hefur flokkurinn sýnt að raunverulegar framfarir eru mögulegar.

Saman byggjum við enn sterkari framtíð fyrir Suðurnesin.

Halla Hrund Logadóttir,
Sigurður Ingi Jóhannsson,
Jóhann Friðrik Friðriksson
og Fida Abu Libdeh