Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

 „Ekki bjóðandi að standa með fjögur börn í langri röð í rigningunni“
Löng röð barna og fullorðinna náði um tíma frá húsnæði HSS við Iðavelli og út úr götunni að hringtorginu vð Aðalgötu. VF-myndir: Hilmar Bragi
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 8. nóvember 2021 kl. 10:06

„Ekki bjóðandi að standa með fjögur börn í langri röð í rigningunni“

-segir 4ra barna faðir úr Sandgerði en fjöldi fólks og barna stóðu í langri röð á leið í Covid-19 próf

„Það er mjög illa staðið að þessu, hvers lags skipulagning er þetta? Það er ekki bjóðandi að standa með fjögur börn í langri röð í rigningunni. Ég var bókaður í próf kl. 9.15 með fjögur börn og það eru hundrað manns í röð á undan mér. Ég ætla ekki í þessa röð, sjálfur veikur og tvö börn ekki hress. Þetta er bara brandari,“ sagði fjögurra barna faðir úr Sandgerði en hann var boðaður í Covid-19 próf í húsnæði Heilsugæslu Suðurnesja við Iðavelli í Reykjanesbæ í morgun.

Röðin var löng og náði frá húsakynnum HSS að hringtorginu við Aðalgötu. Smit komu upp í Sandgerði fyrir helgina í leikskóla og grunnskóla.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Það var enginn búinn að gera boð á undan þessum hópum og því var ekki hægt að undirbúa komur þeirra. Við erum að vinna í því að kalla út fleira fólk í sýnatökur í dag,“ sagði Andrea Klara Hauksdóttir, hjúkrunardeildarstjóri heilsugæslu í stuttu svari til vf.is.

„Leikskólinn Sólborg hefur verið lokaður frá því á fimmtudaginn 4. nóvember þar sem upp komu smit meðal starfsmanna og barna. Leikskólinn verður áfram lokaður mánudaginn 8. nóvember. Allir sem eru í sóttkví fara í sýnatöku á mánudaginn og verður staðan því metin aftur á mánudagskvöld þegar allar niðurstöður úr sýnatökum liggja fyrir. Þá féll öll starfsemi féll niður í Sandgerðisskóla föstudaginn 5. nóvember, einnig starfsemi íþróttamiðstöðvarinnar, tónlistarskólans, félagsmiðstöðvar og bókasafns og hefur starfsemi í þessum stofnunum legið niðri yfir helgina,“ segir á heimasíðu Suðurnesjabæjar.

Í samráði við stjórnendur Sandgerðisskóla fá nemendur í 1. – 5. bekkjum skólans leyfi leyfi frá skóla mánudaginn 8. nóvember og eiga ekki að mæta í skólann fyrr en niðurstöður fást úr síðari sýnatöku hjá þeim sem eru í smitgát. Kennsla verður í 6. – 10. bekkjum frá morgni mánudags 8. nóvember. Starfsemi íþróttamiðstöðvar, tónlistarskóla, félagsmiðstöðvar og bókasafns hefst að fullu að morgni mánudagsins 8. nóvember.

Það hefur gengið á með skúrum í morgun og fólkið í röðinni orðið bæði blautt og kalt.