Beðið eftir eldgosi – Kvikumagnið áætlað um 35 milljónir rúmmetra
„Staðan við Svartsengi er nú í raun þannig að beðið er eftir eldgosi.“ Svona hefst færsla frá Eldfjalla- og náttúruváhópi Suðurlands á Facebook. Frá lokum síðasta eldgoss hefur því verið spáð að líkur á öðru eldgosi myndu vaxa verulega í kringum mánaðamót janúar/febrúar. Kvikusöfnun hefur verið nokkuð stöðug síðan í lok nóvember.
Hópurinn vísar í mynd frá Veðurstofu Íslands sem sýnir núverandi stöðu í kvikusöfnun undir Svartsengi og er kvikumagnið nú áætlað í kringum 35 milljónir rúmmetra, sem er álíka mikið og safnaðist fyrir í aðdraganda eldgossins í maí.
„Nokkuð meira þurfti þó til áður en síðustu tvö eldgos urðu, eða 38-40 milljónir. Um 40 milljónir rúmmetra söfnuðust undir Svartsengi í aðdraganda eldgossins í ágúst, sem reyndist síðan stærsta eldgosið hingað til,“ segir að lokum í færslu hópsins, en að síðunni standa sérfræðingar í jarðvísindum, þeir Daníel Freyr Jónsson, jarðfræðingur (M.Sc.), Einar Sindri Ólafsson, jarðfræðingur (M.Sc.), Ragnar Sigurðarson, jarðfræðingur (B.Sc.) og Stefán Á. Þórðarson, jarðfræðingur (B.Sc.).
Sjá tengil hér að neðan: