Fimm milljarða króna framkvæmdir við íþróttamannvirki í Reykjanesbæ næstu sjö árin
Keflavík og Njarðvík sameinast um keppnisvöll og íþróttasvæði
Stjórnir knattspyrnudeilda UMFN og Keflavíkur hafa tekið vel í erindi starfshóps um uppbyggingu íþróttamannvirkja og svæða í Reykjanesbæ sem gerir ráð fyrir sameiginlegum keppnisvelli félaganna. Viðræður milli félaganna og starfshópsins um uppbygginguna eru hafnar. Þá hefur starfshópnum borist yfirlýsing frá báðum deildum þar sem þær styðja tillögu starfshóps um sameiginlegan keppnisvöll. Þetta kemur fram í skýrslu starfshópsins sem kynnt var fyrir bæjarstjórn Reykjanesbæjar á þriðjudag.
Með tilliti til staðsetningar, fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar, samnýtingu og möguleika til stækkunar er tillaga starfshóps að uppbygging á framtíðarkeppnisaðstöðu beggja félaga við Afreksbraut verði á sameiginlegum keppnisvelli fyrir aftan Reykjaneshöll. Sú afstaða er í takti við framtíðarsýn íþróttamannvirkja til ársins 2030.
Frumáætlun kostnaðar við keppnisvöll við Afreksbraut gerir ráð fyrir að í fyrsta fasa verkefnisins verði æfingavelli (núverandi gerfigrasvöllur) fyrir aftan Reykjaneshöll breytt í fullbúin keppnisvöll fyrir Njarðvík og Keflavík. Byggð verði keppnisstúka fyrir báðar deildir með búningaaðstöðu, félagsaðstöðu og skrifstofum. Lyftingarsalur og annað nauðsynlegt sem tengist starfsemi verði til staðar. Unnin verði fullnaðarhönnun og framkvæmdir fyrir allt að fjögur þúsund áhorfendur ásamt þjónusturýmum.
Áætlaður kostnaður við aðstöðuna er tveir milljarðar króna. Hægt er að skipta verkefninu niður með því að fara fyrst í í stúku fyrir 2000 áhorfendur fyrir 1,2 milljarða króna og í seinni fasa yrði ráðist í stækkun fyrir 2000 áhorfendur í viðbót fyrir 800 milljónir króna.
Í fyrri fasa verkefnisins er gert ráð fyrir tveimur gervigrasvöllum til æfinga og aðstöðu fyrir barna- og ungmennastarf í knattspyrnu fyrir bæði félögin. Starfshópur bæjarins leggur mikla áherslu á að klára æfingavellina samhliða keppnisvelli. Lögð er áhersla á tengibyggingar til þess að samnýta aðstöðu/starfsfólk eins mikið og hægt er. Þá er áhersla lögð á skiptingu byggingar, UMFN snýr að sínu svæði og öfugt. Áætlaður kostnaður við þennan hluta verkefnisins er 800 milljónir króna.
Í ár er gert ráð fyrir 50 milljónum króna í hönnun og deiliskipulag svæðisins. Framkvæmdir hefjast svo við fyrri fasa árið 2024 og þá verði varið 1.000 milljónum króna til framkvæmda. Árið 2015 verða milljónirnar 1.500 og árið 2026 verður varið 1.000 milljónum króna í Fasa I. Í fyrri fasa er aðstaða fyrir knattspyrnuna og fullbúið fimleikahús við Afreksbraut, ásamt skrifstofuhúsnæði, lyftingaaðstöðu og fleiru. Áætlaður kostnaður við fimleikahús er 1.500 milljónir króna. Reikna má með tekjuframlagi við sölu á Akademíu og lóð þar í kring.
Framkvæmdir við seinni fasa verkefnisins hefjast árið 2027 þegar 800 milljónum króna verður varið til framkvæmda. Árið 2028 verða milljónirnar 400 og árið 2029 verður 200 milljónum króna varið í lok framkvæmda í seinni fasanum.
Í honum eru íþróttagreinar í víkjandi húsnæði og annar nauðsynlegur frágangur. Alls eru þetta 4.950 milljónir króna í framkvæmdir við uppbyggingu íþróttamannvirkja og svæða til ársins 2030.
Leggur áherslu á að tryggja þarfir deilda við uppbyggingu á Afreksbraut
Niðurstaða þarfagreiningar starfshóps um uppbyggingu íþróttamannvirkja og svæða í Reykjanesbæ leiðir í ljós brýna þörf á úrbótum fyrir knattspyrnu og fimleika. Þá eru sumar íþróttadeildir í Reykjanesbæ í víkjandi bráðabirgðahúsnæði og hugsa þarf til þeirra í framtíðaruppbyggingu til ársins 2030.
Fyrir aðra íþróttastarfsemi í Reykjanesbæ, sem er í víkjandi húsnæði í dag, er tillaga starfshópsins að gert verði ráð fyrir deildum og aðstöðu fyrir þær á Afreksbraut í Reykjanesbæ. Áætlaður kostnaður er 1.400 milljónir króna. Heildarkostnaður við uppbyggingu á Afreksbraut á árunum 2023 til 2030 er 4.950 til 5.750 milljónir króna samkvæmt frumáætlun sem kynnt var bæjarstjórn Reykjanesbæjar á þriðjudag.
Reikna má með tekjuframlagi við sölu á Akademíu, sem hýsir fimleikadeild í dag, og lóð þar í kring og þá lækkar heildarkostnaður sem því nemur. Tillaga starfshóps fyrir Afreksbraut í fyrsta fasa nær til 51% af iðkendum Reykjanesbæjar á aldrinum 4 til 18 ára eða 9% af heildarfjölda íbúa.
Skipuð verði mannvirkjanefnd
Það er ósk starfshópsins að árið 2023 verði skipuð mannvirkjanefnd sem sér um þarfa- og kostnaðargreiningu í samráði við deildir og tryggir framgang verka. Nefndin leggur jafnframt áherslu á að tryggja þarfir deilda við uppbyggingu á Afreksbraut og skoða þann möguleika á að fara í hönnunarútboð. Í hönnun á svæðinu verði lögð áhersla á að fylgja stefnu og framtíðarsýn íþróttamannvirkja, fallegt umhverfi, umferðaröryggi, gott aðgengi og að svæðið verði miðjupunktur fyrir öflugt íþróttastarf til framtíðar.
Bardagaíþróttir, golf og borðtennis eru í víkjandi húsnæði
Kallað var eftir afstöðu félaganna. Innan ÍRB starfa þrettán deildir og er aðstaða deildanna frekar góð, segir í skýrslu starfshópsins. Ekki er brýn þörf á byggingu mannvirkja á næstu árum en bardagaíþróttir, golf og borðtennis eru í víkjandi húsnæði. Í skýrslunni er haft eftir formanni ÍRB að aðstaða Golfklúbbs Suðurnesja sé ekki hentug til framtíðar, húsnæðið lekur og það er kalt þar inni. Ef byggja á fjölnota íþróttahús þarf að gera ráð fyrir þessum deildum bæði til hagræðingar fyrir Reykjanesbæ og samnýtingu deildanna. Mikil nýting er á húsnæði hjá þessum deildum en lítið svigrúm til stækkunar. Sundráð ÍRB óskar eftir bættri styrktaraðstöðu, vill nýja áhorfendabekki og tekjuskapandi aðstöðu með t.d. Led-auglýsingaskiltum.
Frisbígolffélag Suðurnesja vantar geymsluaðstöðu fyrir körfur og diska, salernisaðstöðu við Njarðvíkurskóg, fundaraðstöðu og kast-æfingatíma í Reykjaneshöllinni.
Knattspyrnan á forgangslista í Njarðvík
Knattspyrnan er á forgangslista hjá Ungmennafélagi Njarðvíkur er varðar framtíðaruppbyggingu íþróttamannvirkja til ársins 2030. Brýn þörf er á bættri aðstöðu fyrir Knattspyrnudeild Njarðvíkur. Framtíðarsýn UMFN hefur ætíð verið uppbygging við Afreksbraut og byggja vallarhús fyrir knattspyrnuna, félagsaðstöðu allra deilda, skrifstofur og viðburðarsal. UMFN óskar eftir aðgerðum sem allra fyrst þar sem núverandi aðstaða liggur undir skemmdum.
Brýn þörf hjá fimleikadeild Keflavíkur
Keflavík, íþrótta- og ungmennafélag segir brýna þörf á bættri aðstöðu fyrir fimleikadeildina og er óskað eftir aðgerðum sem allra fyrst í þeim málaflokki. Mikið álag er á sjálfboðaliða og rekstraraðstæður eru erfiðar. Huga þarf að framtíðaraðstöðu þar sem deildin getur verið sjálfstæðari í rekstri. Knattspyrnudeildin óskar eftir bættri aðstöðu og er brýnt að huga að framtíðaraðstöðu og uppbyggingu fyrir knattspyrnuna. Körfuknattleiksdeildin óskar eftir nýjum Led-auglýsingaskiltum og nýrri Led-klukku. Skotdeildin er í víkjandi aðstöðu í Vatnaveröld og þarf að huga að þeirra aðstöðu við uppbyggingu nýrra íþróttamannvirkja.
Nýjar deildir eiga erfitt með að fá æfingatíma
Hafsteinn Ingibergsson, forstöðumaður íþróttamannvirkja Reykjanesbæjar, segir í skýrslu starfshópsins að mikil nýting sé á íþróttamannvirkjum Reykjanesbæjar og er staðan þannig að nýjar deildir eiga erfitt með að fá æfingatíma. Varðandi uppbyggingu íþróttamannvirkja bendir Hafsteinn á Úlfarsárdalinn í Reykjavík sem dæmi og aðstöðu Fram, þar sem skipulag og nýting íþróttahússins er eins og best verður á kosið. Þar er skólahúsnæði og íþróttamannvirki innangengt og allir aðilar njóta góðs af því fyrirkomulagi.
Varðandi rekstrarkostnað á íþróttamannvirkjum ber helst að nefna að skipta þarf út gervigrasi í Reykjaneshöll árið 2024 og er kostnaðaráætlun um 100 milljónir króna. Gervigrasvöllurinn er mjög vel nýttur en svona völlur dugar í sex til átta ár að meðaltali. Árið 2028 til 2029 þarf að skipta út gervigrasvelli vestan Reykjaneshallar.
„Það er mat starfshópsins að framtíðaruppbygging íþróttamannvirkja og svæða í Reykjanesbæ verði að hefjast sem allra fyrst og verði fylgt eftir með mannvirkjanefnd,“ segir í lokaorðum starfshópsins.