Fréttir

 Fríhöfnin í hendur einkaaðila innan tveggja ára
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
þriðjudaginn 23. janúar 2024 kl. 21:15

Fríhöfnin í hendur einkaaðila innan tveggja ára

Nýr rekstraraðili mun að öllum líkindum taka við rekstri Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli innan tveggja ára. Guðmundur Daði Rúnarsson, fram­kvæmda­stjóri við­skipta og þróunar hjá Isavia segir í viðtali við Viðskiptablaðið að fé­lagið sé að stíga sitt fyrsta á­kveðna skref í átt að því að bjóða út Frí­höfnina.

Guðmundur Daði segir að Isavia hafi ráðist í forathugunum til að sjá hvort ávinningur yrði af því að bjóða verslunarreksturinn út. Í framhaldi hafi verið gerð markaðskönnun síðasta haust sem hafi leitt í ljós að fjárhagslegur ávinningur gæti verið af útboði.

„Við sáum að það er mikill áhugi meðal aðila á markaðnum að koma að rekstri fríhafnar á Íslandi. Núna erum við að stíga næsta skrefið með forvali til að kanna hvort þessir aðilar uppfylli það hæfi sem við teljum nauðsynlegt og hvort þeir séu tilbúnir að skuldbinda sig til þátttöku í útboðinu,“ segir Guðmundur Daði í Viðskiptablaðinu og telur að niðurstaða útboðs myndi liggja fyrir eftir 12 til 18 mánuði.

Í Fríhöfninni starfa um 200 manns, nær allt fólk sem búsett er á Suðurnesjum. 

Stór alþjóðleg fyrirtæki eru umsvifamikil í rekstri í flugstöðvum víða um heim. Líklegt er að þau séu í meirihluta þeirra sem sýnt hafi málinu áhuga. Ekki er ólíklegt að slíkir aðilar sjái hag í því að ná fram meiri hagkvæmni með færra starfsfólki og meiri sjálfsafgreiðslu. Það sé í takt við það sem sjá má í flugstöðvum víða um heim.

Guðmundur Daði segir að búist sé við verulegri fjölgun farþega á næstu 2-4 árum og þeir sem fari í gegnum Keflavíkurflugvöll verði kominn yfir tíu milljónir á þeim tíma. „Við erum þá orðin mjög eftirsóknarverður kostur fyrir stærri rekstraraðila. Það er nánast óþekkt að flugvellir í
þessum stærðarflokki standi sjálfir í þessari starfsemi,“segir hann en nýlega tók alþjóðlegur aðili við flugeldhúsi Icelandair á Keflavíkurflugvelli.

Fríhöfnin hefur rekið verslanir í brottfarar- og komusal en einnig smærri verslunar fyrir tengifarþega sem ferðast utan Schengen-svæðisins. Stækkun á komuverslun Fríhafnarinnar hefur staðið yfir og er langt komin en hún mun þá verða nærri tvö þúsund fermetrar.