Fullbúin fasteign reyndist við nánari skoðun vera nær fokheld
Fá dæmi um endurskoðun kaupverðs
Afar fá dæmi eru um að grípa hafi þurft til endurskoðunar kaupverðs við kaup á eignum í Grindavík. Þórkatla hefur tilkynnt þremur aðilum að krafa sé gerð um endurskoðun vegna slæms ástands eigna sem þeir seldu félaginu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Þórkötlu.
Fasteignafélagið hefur gengið frá kaupum á alls 932 eignum í Grindavík og í nær öllum tilfellum hefur kaupverðið staðið óhaggað. Af sjónvarpsfrétt RÚV í gærkvöldi, þar sem rætt var við lögmann seljenda, mátti skilja að umfang þessara mála væri mun meira.
Brunabótamat hækkaði um 10 milljarða eftir hamfarirnar
Í tilkynningu Þórkötlu segir að kaupverð eigna einstaklinga í Grindavík miðaðist við 95% af brunabótamati samkvæmt lögum sem Alþingi setti en seljendum gafst þó ráðrúm til þess að óska eftir hækkun brunabótamats hjá HMS í kjölfar hamfaranna. Margir nýttu sér þennan möguleika og hækkaði brunabótamat fasteigna í Grindavík um 10 milljarða króna á nokkrum mánuðum vegna þessa.
Í flestum tilfellum hefur hækkun brunabótamats verið réttlát og eðlileg. Nokkur dæmi eru þó um ósamræmi milli matsins og raunverulegs ástands eigna. Í slíkum tilvikum hefur félagið kallað eftir endurmati á brunabótamati frá HMS áður en afsalsgreiðsla er greidd.
„Mikil áhersla var lögð á að hraða kaupum á eignum Grindvíkinga og því framkvæmdi Þórkatla almennt ekki hefðbundna skoðun fyrir gerð kaupsamningsins, heldur gerði úttekt á þeim við afhendingu. Þó svo að í langflestum tilvikum hafi frágangur og skil eignanna verið í góðu lagi þá voru nokkur dæmi um hús í óásættanlegu ástandi. Ein fasteign sem seld hafði verið sem fullbúið hús reyndist við nánari skoðun vera nær fokheld,“ segir orðrétt í tilkynningu Þórkötlu.