Til leigu (Skólamatur)
Til leigu (Skólamatur)

Íþróttir

Fjölmennt Möggumót í áhaldafimleikum
Fimmtudagur 23. janúar 2025 kl. 06:27

Fjölmennt Möggumót í áhaldafimleikum

Fyrsti viðburðurinn af fjörutíu á fjörutíu ára afmælisári fimleikadeildar Keflavíkur

Möggumót í áhaldafimleikum fór fram um helgina og tóku 157 stúlkur á aldrinum sex til tólf ára þátt í mótinu. Möggumótið er fyrsti viðburðurinn af 40 sem fimleikadeild Keflavíkur ætlar sér að standa fyrir í ár í tilefni 40 ára afmælisárs deildarinnar. Möggumótið er haldið ár hvert til heiðurs Margréti Einarsdóttur, stofnanda deildarinnar. Þann 16. mars fer svo fram Möggumót í hópfimleikum.

Keppendur í grunn- og framhaldshópum voru eingöngu keppendur frá Keflavík og fengu allir keppendur gjafabréf frá Huppu.

Í sjötta þrepi eldri urðu Keflavíkurstúlkur í öðru sæti en lið Bjarkanna tók gullið með sér heim. Í fimmta þrepi létt urðu Keflavíkurstúlkur einnig í öðru sæti og Ármann í því fyrsta.

Í fimmta þrepi voru Ármenningar sigursælastir en Keflavíkurdömurnar lentu í öðru sæti og Bjarkirnar í því þriðja. Snædís Lind Davíðsdóttir frá Keflavík var einungis 0,8 stigum frá því að vera Möggumótsmeistari í fimmta þrepi en Möggumótsmeistari mótsins var Álfdís Maley Ingvarsdóttir frá Ármanni.

Í fjórða þrepi var um einstaklingskeppni að ræða, ólíkt hinum þrepunum. Fanney Erla Hrafnkelsdóttir frá Keflavík varð Möggumótsmeistari mótsins ásamt því að fá gull á tvíslá, silfur á stökki og gólfi og brons á slá. Brimdís Björk Holm var jafnhá og Fanney á stökki og fékk því einnig silfur á því áhaldi.

Fimleikadeildin ætlar að gera breytingu á Möggumótinu og færa það til hausts þar sem að mótaskráin er hlaðin á vorin en ekki á haustin. Því verða Möggumót haldin aftur á haustönn.