Fréttir

Gæslan leigir hótelherbergi fyrir hundruð milljóna á Suðurnesjum
Fjöldi þátttakenda í loftrýmisgæslu hafa gist á hótelum á Suðurnesjum og munu gera áfram. VF-mynd/pket.
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
fimmtudaginn 5. nóvember 2020 kl. 07:00

Gæslan leigir hótelherbergi fyrir hundruð milljóna á Suðurnesjum

Umfangsmikilli loftrýmisgæslu bandaríska flughersins er nýlokið en flugsveitin hafði aðsetur á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Þá fara nú fram áhafnaskipti hjá kafbátaleitarsveit bandaríska sjóhersins. Vegna sóttvarna þá taka áhafnaskiptin langan tíma og því eru hundruð liðsmanna kafbátaleitarsveita staddir í Reykjanesbæ.

Bandaríski flugherinn var með fjórtán F-15 orrustuþotur á Keflavíkurflugvelli og þeim fylgdu 260 liðsmenn. Þá eru um 500 liðsmenn með tólf bandarískum og tveimur kanadískum kafbátaleitarvélum. Þegar mest var voru hér yfir 700 erlendir liðsmenn erlendra herja og flestir þeirra gistu á hótelum í Reykjanesbæ. Þá var og er þessi hópur með hundruð bílaleigubíla á leigu.

Viðreisn
Viðreisn

Starfsemi Landhelgisgæslunnar á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli hefur mikil efnahagsleg áhrif á Suðurnesjum. Í umfjöllun í Víkurfréttum í dag segir Jón B. Guðnason, framkvæmdastjóri Landhelgisgæslunnar í Keflavík, að jafnaði séu 50 til 100 manns á hótelum alla daga ársins

Þegar mest var á svæðinu fór fjöldi erlends liðsafla og sérfræðinga yfir 700 en aðeins er hægt að hýsa 200 innan öryggissvæðisins. Það var því óvenju fjölmennt, einnig á hótelum í Reykjanesbæ, auk þess sem bílaleigur og veitingastaðir hafa notið góðs af. Eins og við var að búast mun draga úr fjölda erlends liðsafla á næstu dögum og vikum en eins og áður þá er og verður alltaf einhver fjöldi erlends liðsafla við vinnu á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli og annarra verktaka og sérfræðinga og dvelur hluti þeirra á hótelum utan öryggissvæðisins. Landhelgisgæslan í Keflavík er því að leigja hótelherbergi fyrir hundruð milljóna króna á ári.

Nánar er fjallað er um verkefnin á öryggissvæðinu í umfjöllun í blaði vikunnar sem komið er út.