Fréttir

Grindvíkingur þróar vinsælt 
„einnota myndavéla“-app
Félagarnir Adam Viðarsson (t.v.) og Guðmundur Egill Bergsteinsson.
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
föstudaginn 8. október 2021 kl. 06:20

Grindvíkingur þróar vinsælt 
„einnota myndavéla“-app

– Appið Lightsnap springur út í Svíþjóð

Lightsnap (www.lightsnap.app/), fyrsta einnota myndavéla-appið í heiminum, hefur útrás á sænskan markað til að fylgja eftir góðum árangri á Íslandi. Annar stofnenda Lightsnap og framkvæmdastjóri fyrirtækisins er Grindvíkingurinn Guðmundur Egill Bergsteinsson.

„Við sáum að það væri tími til að skríða úr vöggunni á Íslandi og reyna fyrir okkur á stærri markaði og því settum við upp tengingar við prentsmiðjur og póstdreifingaraðila í Svíþjóð. Hrintum af stað áhrifavaldaherferð og viti menn – Svíarnir hoppuðu svo sannarlega á vagninn,“ segir Guðmundur Egill.

Þann 14. september síðastliðinn var opnað fyrir þjónustu Lightsnap í Svíþjóð þar sem að 2.000 fyrstu notendur sem að bjuggu til aðgang fengu fría prufu-„filmu“ í Lightsnap-appinu en vegna gríðarlegs fjölda nýskráninga lokaði hýsingaraðili Lighsnap, Google, á nýskráningar þar sem að þeir héldu að það væri netárás í gangi á netþjóna sína.

„Markaðsplanið okkar var að fylgja eftir árangri okkar á Íslandi þar sem við fórum inn í „Frítt stöff“ hjá Nova og gáfum viðskiptavinum Nova fría prufufilmu. Við sáum þar að 46% þeirra sem fengu heimsenda prufufilmu enduðu á að kaupa nýja filmu á innan við sjö dögum og því ætluðum við að endurtaka leikinn í Svíþjóð,” segir Guðmundur en Lightsnap hefur nú yfir 4.000 notendur á Íslandi og hefur prentað og sent yfir 25.000 ljósmyndir á síðastliðnum tólf mánuðum.

„Aðeins tólf tímum eftir að hafa gefið appið út í Svíþjóð sprengdum við nýskráningarfjöldann hjá Google og mikil eftirvænting skapaðist þar sem fjöldinn allur af fólki hafði samband sem komast ekki inn í Lightsnap, við hringdum í Google og reynum að leysa úr þessu en þeir svara að það hafi verið slökkt á okkur þar sem að grunur var um netárás á kerfið okkar,“ segir Guðmundur.

Nýskráning í Lightsnap var því niðri í tólf tíma vegna niðurtímans en loks þegar vandamálið var leyst streymdu nýskráningar inn á ný.

„Við ákváðum að bæta við 2.000 fleiri fríum filmum þar sem að viðtökur voru svo ótrúlegar og hlökkum til að sjá hvernig Svíarnir taka í að sjá myndirnar sínar í fyrsta sinn við heimsendingu eins og í gamla daga,“ segir Guðmundur.

Hægt er að notast við Lightsnap víðsvegar en notkun hefur verið mikil í kringum veislur og brúðkaup þar sem afar skemmtilegt er að fanga kvöldið á Lightsnap og fá síðan minningarnar sendar heim en einnig hafa nýbakaðir foreldrar verið duglegir að fanga fyrstu skref í lífi barna sinna á mynd með hjálp Lightsnap.

„Hugmyndin spratt út frá því að ég og Guðmundur, meðstofnandi, vorum að ræða hvað það væri lítið um myndaalbúm í dag og að maður ætti þúsundir mynda vistaða eitthverstaðar á skýinu en enginn fær að sjá þær og ákváðum því að smíða Lightsnap til að leysa það vandamál,“ segir Adam Viðarsson, tæknistjóri og annar meðstofnandi Lightsnap.

Í Lightsnap-appinu kaupir notandinn „filmurúllu“ með 24 myndum sem síðan verður að taka áður en myndirnar eru prentaðar og afhentar að dyrum. Það hefur aldrei verið auðveldara að fanga mikilvægu stundirnar í lífinu og endurlifa í fyrsta skipti þegar þær detta inn um póstlúguna alveg eins og með gömlu einnota myndavélunum.

„Upplifun myndanna verður svo miklu sterkari þegar þú mátt ekki sjá þær beint. Ímyndaðu þér að taka augnablikið þegar þú segir fjölskyldu og vinum að þú sért barnshafandi eða þegar barnið þitt er að stíga sín fyrstu skref. Þegar maður fær síðan að sjá þessar myndir í prentuðu formi verða minningarnar miklu raunverulegri en maður hefði séð þær í gegnum farsíma og síðan er það líka bara ótrúlega skemmtilegt,“ segir Adam.

Ef þú vilt samt geta hlaðið inn myndunum sem þú tókst með Lightsnap á samfélagsmiðlum er það ekkert vandamál. Þegar myndirnar hafa verið sendar heim að dyrum verða þær einnig aðgengilegar stafrænt í Lightsnap að eilífu.

Lightsnap er aðgengilegt á Google Play Store og App Store þar sem 25% afsláttur er á fyrstu kaupum (https://disposable.page.link/download)

Um Lightsnap:

Lightsnap er heimsins fyrsta einnota myndavéla-app með það markmið að koma aftur með nostalgíutilfinningu að sjá myndir í prentuðu formi í fyrsta sinn við heimsendingu. Lightsnap fór í gegnum Startup Supernova, stærsta viðskiptahraðal á Íslandi, sumarið 2020 en var stofnað í desember 2019 af tveimur einnota myndavélaaðdáendum sem vildu deila ástríðu sinni með heiminum. Lightsnap-appið opnaði fyrst á íslenskan markað sumarið 2020 en opnaði fyrir evrópskan markað sumarið 2021.