Bygg
Bygg

Íþróttir

Grindavík hélt sér á lífi með flottum sigri í Garðabæ
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
mánudaginn 28. apríl 2025 kl. 22:53

Grindavík hélt sér á lífi með flottum sigri í Garðabæ

Grindavík mætti í kvöld í Umhyggjuhöll Garðbæinga og má segja að bakið hafi verið upp við vegginn eftir tvo sigra Stjörnunnar í jafnmörgum leikjum. Grindavík kastaði öðrum leiknum frá sér á ótrúlegan máta og urðu að vinna til að fá ekki sópinn þangað sem sólin ekki skín, og fara í sumarfrí.
Grindavík leiddi meira og minna allan leikinn, í hálfleik með sex stigum, 51-57 og mestur fór munurinn upp í átján stig og Stjarnan náði ekki að ógna að ráði, lokatölur 91-105.

Grindavík byrjaði betur og sást staðan 6-13 en leikurinn jafnaðist síðan. Allt annað var að sjá Jeremy Pargo í byrjun en hann hefur fengið talsverða gagnrýni á sig frá stuðningsmönnum Grindavíkur í þessari úrslitakeppni, var t.d. stigalaus í hálfleik í síðasta leik. Eftir að jafnt hafi verið á með liðunum nánast allan fyrsta leikhlutann, náði Stjarnan smá frumkvæði og leiddi að honum loknum, 25-21.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Bragi Guðmundsson hleypti lífi í leik Grindavíkur í öðrum leikhluta en eftir að Stjarnan hafi skorað fyrstu körfuna, skoraði Bragi tvær, m.a. beint úr sóknarfrákasti. Jeremy Pargo jafnaði svo leikinn og þá tók Stjarnan leikhlé. Næstu stig voru Stjörnunnar en allt ætlaði um koll að keyra hjá stuðningsmönnum Grindavíkur þegar Arnór Tristan Helgason kom þeim yfir með troðslu, 30-31! Þarna var momentið komið með Grindavík og áður en varði voru þeir komnir með níu stiga forskot, 33-42 og Stjarnan tók annað leihlé. Jeremy Pargo svaraði heldur betur gagnrýnisröddunum, var kominn með 12 stig, 5 fráköst og 4 stoðsendingar. Stjörnumenn komu grimmir út úr leikhléinu og tvísýnn dómur leit dagsins ljós þegar 3:20 voru eftir af fyrri hálfleik, Arnór Tristan virtist blokka þriggja stiga skot Hilmars Henningssonar en villa dæmd og þar með fór öryggisventill Jóhanns Þórs, þjálfara Grindavíkur, og tæknivilla dæmd. Það víti fór niður en bara tvö af þremur vítum Hilmars en Stjörnumenn náðu tveimur sóknarfráköstum og skoruðu, fimm stiga sókn og Jóhann Þór tók leikhlé. Á þessum tímapunkti virtust dómararnir ekki vera á fjölinni sinni. Grindavík átti það sem eftir lifði fyrri hálfleiks og leiddi að honum loknum, 51-57 og átti glæsilega lokakörfu hálfleiksins, viðstöðulaus troðsla Arnórs Tristans eftir sendingu frá Deandre Kane.

Grindavík kom sterkara inn í seinni hálfleikinn og eftir fimm mínútur voru þeir komnir með tólf stiga forystu, Kristófer Breki Gylfason hitnaði fyrir utan þriggja stiga línuna, setti tvo og augnablikið klárlega með Grindavík á þessum tímapunkti. Ólafur fyrirliði kom með tvo í viðbót, vörnin miklu grimmari sem sýnir sig best í því að Stjarnan var bara búið að skora fimmtán stig í fjórðungnum á þessum tímapunkti og lítið eftir af honum. Staðan fyrir lokafjórðunginn, 71-88.

Fjórði leikhlutinn var eign dómaranna til að byrja með, þegar bæði lið kvarta undan dómgæslunni þá segir það eitthvað um að þeir hafi verið búnir að missa tökin. Minnstu munaði að upp úr syði þegar Ægir Þór braut á Jeremy Pargo við miðlínu. Stuttu síðar fékk Pargo sína fjórðu villu þegar dæmd var sóknarvilla á hann og tæpar níu mínútur eftir af leiknum. Stjörnumenn áttu gott áhlaup og minnkuðu muninn í ellefu stig og liðin skiptust á þristum næstu sóknir! Ellefu stigum yfir braust Deandre Kane upp að körfunni, reyndi tilþrifamikla troðslu sem klikkaði og Ægir Þór svaraði með þristi á móti, átta stiga háspennuleikur í gangi! Mikilvægt augnablik átti sér stað í leiknum þegar rúmar þrjár mínútur lifðu leiks, Stjarnan nýtti áskorun sína til að reyna breyta innkastsdómi en varð ekki að ósk sinni og Kristófer Breki setti þrist á móti. Þetta dró síðustu vígtennurnar úr Stjörnumönnum má segja og Grindavík landaði nokkur öruggum sigri, lokatölur 91-105.

Grindavíkurliðið er erfitt við að eiga þegar sóknarframlag kemur úr svo mörgum áttum, þegar Kristófer Breki og Óli Ól sjö þrista þá leiðir það venjulega til góðra hluta. Arnór Tristan kveikti vel upp í sínum mönnum og stuðningsmönnum með þremur troðslum, Bragi kom sterkur inn í annan leikhlutann og þeir Deandre Kane, Jeremy Pargo og Daniel Mortensen, voru allir á deginum sínum. Ólafur fyrirliði var akkurat það í kvöld, FYRIRLIÐI og gekk fram með mjög góðu fordæmi, hann endaði með 25 stig og alls 30 í framlag. Daniel Mortensen skilaði 29 punktum (15 stig og 12 fráköst) og Deandre Kane var ekki langt á eftir, endaði með 27 (18 stig og 11 stoðsendingar).

Það sauð upp úr á milli stuðningsmanna þegar skammt lifði leiks og má gera ráð fyrir að Smárinn verði sneysafullur á föstudagskvöld þegar fjórði leikur liðanna fer fram.

Það kastaðist í kekki á milli stuðningsmanna undir lok leiksins.

Jóhann Þór, þjálfari Grindavíkur: Kristófer Breki, leikmaður Grinavíkur: