Fréttir

Helguvík og HSS í forgang
Laugardagur 4. maí 2013 kl. 11:21

Helguvík og HSS í forgang

„Ég er hæstánægð með niðurstöðu okkar sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi. Við erum sterkasta vígi Sjálfstæðisflokksins á landsbyggðinni og aðrar kosningarnar í röð erum við næst sterkasta vígi flokksins á landsvísu. Við náðum settu markmiði sem var að bæta við okkur manni og ég er afar stolt af þingmannahópnum sem er sterkur og samhentur og staðráðinn í að vinna vel fyrir land og þjóð,“ segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, oddviti Sjálfstæðisfokksins í Suðurkjördæmi eftir kosningarnar sl. laugardag.

„Einnig gleðst ég auðvitað yfir því að Sjálfstæðisflokkurinn sé á ný orðinn stærsti flokkur landsins og vona að við náum því takmarki okkar að verða burðarás í nýrri ríkisstjórn þannig að við getum komið okkar stefnumálum um aukna atvinnu og verðmætasköpun, lægri skatta og leiðréttingu á skuldavanda heimilanna í framkvæmd. Skilaboð kjósenda í Suðurkjördæmi geta varla verið skýrari, ríkisstjórnarflokkunum var algerlega hafnað og greinilegt ákall er um breytingar. Ég hlakka til að taka þátt í þeim breytingum. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka öllum þeim fjölmörgu stuðningsmönnum og sjálfboðaliðum sem lögðu okkur lið í baráttunni og tryggðu með okkur fjórða manninn, lögreglumanninn vaska, Vilhjálm Árnason úr Grindavík,“ segir Ragnheiður Elín.

Aðspurð hvaða verkefni væru mest aðkallandi fyrir Suðurnes og ættu að vera fyrsta verk þingmanna svæðisins sagði Ragnheiður:

„Það eru fjölmörg verkefni sem bíða hér á Suðurnesjum og raunar frekar erfitt að setja eitthvað eitt í forgang. Að sjálfsögðu munu aðgerðir þær sem við sjálfstæðismenn setjum í forgang og nefnd eru hér að framan gagnast Suðurnesjamönnum sem og öðrum landsmönnum. Ég get þó nefnt tvennt sem sérstaklega bráðliggur á og ég vona að samstaða verði um í þingmannahópnum og í ríkisstjórn að berjast fyrir. Annars vegar að gera allt sem er á valdi stjórnvalda til að koma álverinu í Helguvík í gang og klára það mál. Það þarf m.a. að tryggja sambærilega opinbera aðkomu að því verkefni og samþykkt var á lokadögum þingsins varðandi framkvæmdir vegna kísilvers á Bakka við Húsavík.  Hitt sem ég vil nefna er staða Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja sem þarf að gera gangskör í að bæta. Starfsfólk stofnunarinnar vinnur þrekvirki daglega við erfiðar aðstæður og afar brýnt að unnið sé með þeim og bæjaryfirvöldum á svæðinu við að finna bestu leiðina til að tryggja Suðurnesjamönnum örugga heilbrigðisþjónustu,“ segir Ragnheiður Elín Árnadóttir alþingismaður í samtali við Víkurfréttir.