Palóma
Palóma

Fréttir

Hugsanlegt að rekstur kísilverksmiðju verði stöðvaður tímabundið
Umfang eftirlits með kísilverksmiðju United Silicon er án fordæma, segir í brefi Umhverfisstofnunar. VF-mynd/hilmarbragi
Fimmtudagur 23. febrúar 2017 kl. 12:19

Hugsanlegt að rekstur kísilverksmiðju verði stöðvaður tímabundið

Umhverfisstofnun fer fram á úrbætur - Umfang eftirlits án fordæma

Fulltrúar Umhverfisstofunar telja nauðsynlegt að fram fari verkfræðileg úttekt á hönnun og rekstri kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík vegna tíðra mengunaróhappa. Stofnunin sendi bréf þess efnis til fyrirtækisins í gær. Í bréfinu segir að í þeirri úttekt verði kannað hver upptök lyktar eru og tillögur lagðar fram um úrbætur á mengunarbúnaði og rekstri. Í bréfinu tilkynnir Umhverfisstofnun jafnframt að hugsanlegt sé að stöðva þurfi reksturinn tímabundið til að framkvæma nauðsynlegar úrbætur.

Þar til úttektinni verður lokið áformar Umhverfisstofnun að United Silicon fái aðeins að reka þann eina ofn verksmiðjunnar í Helguvík sem þegar hefur verið settur upp. Í starfsleyfi er gert ráð fyrir tveimur ofnum og í áætlunum fyrirtækisins til næstu tíu ára er gert ráð fyrir að ofnarnir verði fjórir. Nú er ljóst að ekki verður af því að óbreyttu. Umhverfisstofnun hefur veitt forsvarsmönnum United Silicon frest til 7. mars næstkomandi til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Að sögn Sigrúnar Ágústsdóttur, sviðsstjóra hjá Umhverfisstofnun, er gert ráð fyrir að United Silicon greiði fyrir úttektina eftir kröfu frá stofnuninni. Skipulag úttektarinnar og val á sérfræðingum til vinnslu hennar verður á hendi Umhverfisstofnunar.

Starfsemi hófst í kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík í október síðastliðnum og í nóvember fóru íbúar á svæðinu að finna fyrir lyktar- og reykmengun. Umhverfisstofnun hefur fengið fjölda ábendinga um mengun frá íbúum og starfsfólki nærliggjandi fyrirtækja í Helguvík. Í eftirlitsferðum fulltrúa Umhverfisstofnunar hafa fjölmörg frávik frá starfsleyfi verið skráð. Í fyrrnefndu bréfi frá Umhverfisstofnun til United Silicon segir að þurft hafi að auka verulega tíðni eftirlits með starfseminni frá því sem áætlað var og að umfang eftirlitsins sé fordæmalaust.

[email protected]